A kvartaði yfir því að samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, væri umráðamönnum lóða undir frístundahús skylt að hafa með sér félagsskap um sameiginlega hagsmuni, nema undantekningar samkvæmt 1.-3. tölul. ákvæðisins ættu við. A taldi ákvæðið brjóta gegn félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrár.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 10. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður benti á að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það væri því almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett eða hvort hún standist stjórnarskrá. Þá taldi umboðsmaður erindi A ekki gefa tilefni til þess að taka málið til athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997 og hafði þá í huga að Alþingi hefði tekið skýra afstöðu til atriðisins sem kvörtunin beindist að. Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um málið en benti A þó á að lögum samkvæmt væru undantekningar frá umræddri skyldu og honum kynni að vera fær sú leið að freista þess að leita álits kærunefndar húsamála á því hvort undantekningin ætti við í hans tilviki, sbr. 25. gr. laga nr. 75/2009. Þá tók umboðsmaður fram að kysi A að leita til kærunefndarinnar en teldi sig beittan rangsleitni með niðurstöðu hennar gæti hann leitað til sín með sérstaka kvörtun þar að lútandi.