A kvartaði yfir því að geta ekki fengið gefið út almennt íslenskt vegabréf í Perú, þar sem hann var búsettur, heldur stæði sér eingöngu til boða að sækja um neyðarvegabréf hjá ræðismanni Íslands í Perú og ferðast síðan til Íslands eða landa þar sem starfandi væru íslenskar sendiskrifstofur er byggju yfir þar til gerðum móttökubúnaði, en engin þeirra væri staðsett í S-Ameríku, til þess að fá útgefið slíkt vegabréf. Í tölvupóstsamskiptum A við utanríkisráðuneytið kom fram að ekki stæði til að veita kjörræðismanni Íslands í Perú heimild til móttöku umsókna um almenn vegabréf, m.a. vegna kostnaðar- og öryggissjónarmiða.
Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um erindið með bréfi, dags. 14. september 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.
Umboðsmaður fékk ekki séð að það leiddi af lögum að Íslendingar búsettir erlendis ættu kröfu til þess að geta fengið gefið út almennt íslenskt vegabréf þar sem þeir væru búsettir. Jafnframt bæri að líta til þess svigrúms sem stjórnvöld hefðu til ákvörðunar um ráðstöfun fjármuna sem þeim væri úthlutað með fjárlögum. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við að utanríkisráðuneytið hefði ekki veitt kjörræðismanni Íslands í Perú heimild til móttöku umsókna um almenn vegabréf. Í ljósi reglugerðarákvæðis þar sem fram kemur að mæta verði í eigin persónu á umsóknarstað taldi umboðsmaður sig ekki heldur hafa forsendur til að gera athugasemdir við að A gæti ekki fengið almennt vegabréf gefið út á móttökustað án þess að mæta þangað í eigin persónu og sent í pósti til Perú.