Hinn 24. júní 2010 kvartaði A yfir því að erindi félagsins frá 14. október 2009, er varðaði endurgreiðslu afdregins fjármagnstekjuskatts vegna arðgreiðslu frá X hf. á árinu 2008, hefði ekki verið afgreitt af hálfu ríkisskattstjóra.
Umboðsmaður Alþingis lauk meðferð sinni á málinu með bréfi, dags. 30. september 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.
Málið var afgreitt með úrskurði, dags. 5. júlí 2011. Þar sem kvörtunin laut að því að erindi A hefði ekki verið afgreitt taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar. Hann ákvað þó að rita ríkisskattstjóra bréf þar sem hann kom tilteknum ábendingum á framfæri vegna meðferðar á máli A. Á meðan á athugun málsins stóð kom fram sú afstaða ríkisskattstjóra að heimilt hefði verið að aðhafast ekki frekar í máli A fyrr en að fenginni afstöðu umboðsmanns til skýringa á málsmeðferðinni og tiltekinna efnisatriða málsins. Af því tilefni tók umboðsmaður fram að athugun sín hefði aðeins lotið að drætti á afgreiðslu og meðferð málsins. Hann benti jafnframt á að umboðsmaður Alþingis væri ekki hluti af stjórnsýslu ríkisins og færi ekki með ákvörðunarvald í einstökum stjórnsýslumálum sem hlutaðeigandi stjórnvaldi bæri að halda til haga og ljúka afgreiðslu á innan þeirra almennu og sérstöku stjórnsýslureglna sem giltu um viðkomandi málefnasvið, s.s. um málshraða og leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Umboðsmaður gat því ekki fallist á afstöðu ríkisskattstjóra og taldi að kvörtun A til sín gæti engu breytt um þá almennu skyldu ríkisskattstjóra að afgreiða málið í samræmi við gildandi málshraðareglur. Umboðsmaður tók einnig fram að af svörum og afstöðu ríkisskattstjóra mætti ráða að A hefði að einhverju leyti verið látið gjalda þess að hafa leitað til umboðsmanns með erindi sitt Umboðsmaður áleit það ekki samrýmast markmiðum laga nr. 85/1997 og taldi mikilvægt að ríkisskattstjóri hefði það framvegis í huga við úrlausn sambærilegra mála. Í skýringum ríkisskattstjóra um hvernig gætt hefði verið að leiðbeiningarskyldu samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga í tengslum við að tiltekin gögn skorti til að unnt væri að afgreiða málið var vísað til þess að umboðsmaður A, Y, væri löglærður og starfaði sem sérfræðingur á sviði skattaréttar. Af því tilefni vakti umboðsmaður athygli á því að þótt slíkt kynni að hafa áhrif á inntak leiðbeiningarskyldunnar hyrfi hún hins vegar ekki og mæltist til þess að það yrði framvegis haft í huga. Enn fremur taldi umboðsmaður ummæli um Y í skýringum ríkisskattstjóra, þess efnis að hann hefði vísvitandi látið undir höfuð leggjast að leggja fram gögn vegna málsins, ekki samrýmast vönduðum stjórnsýsluháttum og mæltist til þess að framvegis yrði yrði gætt að því atriði í starfsemi embættisins. Að lokum mæltist umboðsmaður til þess að ríkisskattstjóri hugaði framvegis betur að því að haga störfum embættisins í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga.