A kvartaði yfir úrskurði tryggingaráðs, þar sem henni var synjað um örorkulífeyri. Var ástæða synjunarinnar sú, að A uppfyllti ekki skilyrði 12. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, að hafa átt lögheimili á Íslandi í full þrjú ár, áður er hún sótti um örorkulífeyri. Varanleg örorka A var metin 75% og uppfyllti hún því ekki það skilyrði að hafa haft óskerta starfsorku er hún tók lögheimili hérlendis í maí 1993.
A byggði kvörtun sína á því, að starfsorka hennar hefði verið skert allt frá árinu 1982 og hefði því ekki skerst er hún bjó erlendis. Lög um almannatryggingar, nr. 67/1971, og nú lög nr. 117/1993, mæla hins vegar fyrir um, að réttur til örorkulífeyris sé háður því að umsækjandi hafi átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár, áður en umsókn er lögð fram, eða haft óskerta starfsorku við töku lögheimilis. Gera ákvæði 12. gr. laganna ekki ráð fyrir undantekningum frá þessu skilyrði. Tvíhliða eða fjölhliða samningar, sem Ísland hefur gert við önnur ríki, breyttu ekki þessari niðurstöðu í máli A, sem hafði verið búsett í Bandaríkjum Norður-Ameríku í tæp þrjú ár. Var það því niðurstaða umboðsmanns, að úrskurður tryggingaráðs væri í samræmi við lög og ekki væri tilefni til athugasemda vegna kvörtunar A.
I.
Hinn 7. mars 1994 leitaði til mín A. Beindist kvörtun hennar að úrskurði tryggingaráðs frá 14. janúar 1994, þar sem staðfest var synjun lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu örorkulífeyris henni til handa á grundvelli a-liðs 1. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar.
II.
Málavextir eru þeir, að A sótti um örorkubætur hjá Tryggingastofnun ríkisins, en varanleg örorka hennar var metin yfir 75%. Umsókn hennar var synjað með bréfi lífeyrisdeildar Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. desember 1993. Var ástæða synjunarinnar sú, að ekki hefði verið uppfyllt skilyrði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, um að hafa átt lögheimili á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin, áður en umsókn var lögð fram, eða að starfsorka hefði verið óskert við lögheimilistöku hér á landi. Hinn 12. desember 1993 kærði A synjun Tryggingastofnunar ríkisins til tryggingaráðs, sem staðfesti hinn kærða úrskurð 14. janúar 1994.
A telur að niðurstaða tryggingaráðs standist ekki með tilliti til laga nr. 67/1971. Niðurstaðan byggist á því, að starfsorka hennar hafi skerst, þegar hún bjó á erlendri grund, en starfsorka hennar hafi í raun verið skert frá því á árinu 1982 og það hafi ekki breyst á meðan hún átti lögheimili erlendis. Því til stuðnings leggur hún fram vottorð S, læknis á taugadeild Landspítalans, dags. 2. mars 1994. Þar segir:
"Ég læt fylgja þessum fáum línum afrit af læknabréfum þínum eftir legu á Taugalækningadeild Lsp. 1982 og eftir tvær legur á Landakoti 1988. Af gögnum þessum má auðvitað glöggt ráða, að þú hefur fengið æðastíflu í heila þegar 1982 og svo aftur síðar. Jafnframt að þú hefur haft lengi of háan blþr. og hækkun á kólesteróli í blóði. Telja verður líklegt að hinn hækkaði blþr. og hugsanlega einnig hin hækkuðu fituefni, en þó einkum hið fyrra, hafi valdið heilaáföllum þínum. Vegna þeirra átt þú við þann vanda að stríða, sem leitt hefur til örorku. Veikindi þín eru því mörgum árum eldri, en sem svarar heimkomu þinni frá Bandaríkjunum á s.l. ári. Raunar vitum við það bæði, að þú áttir í mestu erfiðleikum með að skila vinnu eftir áfallið 1982, þótt þú þráaðist við..."
III.
Ég ritaði tryggingaráði bréf 21. mars 1994 og óskaði ég eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að það skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té gögn málsins. Sérstaklega óskaði ég eftir því að fram kæmi í skýringum ráðsins, hvort litið hefði verið til þess, að A kynni að hafa haft skerta starfsorku, áður en hún fluttist til Bandaríkjanna 1. ágúst 1990, sbr. vottorð S læknis frá 2. mars 1994. Gögn málsins bárust mér frá tryggingaráði 13. apríl 1994. Ég ritaði tryggingaráði aftur 6. maí 1994 og ítrekaði fyrri ósk mína um að ráðið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti mér í té umbeðnar upplýsingar. Svör tryggingaráðs bárust mér með bréfi, dags. 13. júní 1994. Þar segir:
"Því er til að svara að skert starfsorka við brottför af landi breytir ekki réttarstöðu við heimkomu, þ.e. leiðir ekki til réttar.
Í kvörtun til Umboðsmanns segir [A], að lögfræðingar Tryggingastofnunar ríkisins túlki lagaákvæði um örorkulífeyri þannig að umsækjandi þurfi að hafa óskerta starfsorku þegar lögheimili sé tekið hér og að þeir telji jafnframt að hún hafi orðið fyrir sjúkdómi á erlendri grund.
Skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971 var eitt af skilyrðum fyrir rétti til örorkulífeyris að hafa átt lögheimili á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn var lögð fram, eða haft óskerta starfsorku, þegar menn tóku lögheimili hérlendis.
[A] hafði ekki átt lögheimili hérlendis þrjú síðustu árin áður en umsókn var lögð fram. Hún flutti sjálf lögheimili sitt til Bandaríkjanna og þar var hennar lögheimili í u.þ.b. 3 seinustu árin fyrir umsókn.
Þar sem [A] uppfyllti ekki þriggja ára lögheimilisskilyrðið var spurt, hvort hún hefði haft óskerta starfsorku við lögheimilisflutning til landsins. Hefði svo verið og örorkan komið til seinna þá hefði [A] að öðrum skilyrðum tilvitnaðrar greinar uppfylltum strax öðlast rétt til örorkulífeyris. Hinsvegar var [A] með skerta starfsorku við komu til landsins, frá hvaða tíma starfsorkan var skert - hvort starfsorkan var skert áður en [A] fór utan eða eftir - breytir engu við afgreiðslu málsins. Það er eingöngu starfsorka við töku lögheimilis hér sem skiptir máli við umsókn um örorkulífeyri. Rétt til örorkulífeyris á [A] því ekki fyrr en að þremur árum liðnum frá því hún tók hér lögheimili á ný sbr. 12. gr. laga nr. 67/1971 nú 12. gr. laga nr. 117/1993."
Athugasemdir A við bréf tryggingaráðs bárust mér 21. október 1994.
Hinn 8. nóvember 1994 ritaði ég bréf til tryggingaráðs með þeirri fyrirspurn, hvort ákveðnar hefðu verið einhverjar breytingar á framkvæmd skilyrðis a-liðar 12. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og ef svo væri, hvort þær breytingar gætu á einhvern hátt snert umsókn A um örorkulífeyri. Jafnframt óskaði ég upplýsinga um, hvort tryggingaráð vissi til þess, að endurskoðun nefnds lagaákvæðis væri á döfinni. Í svari tryggingaráðs, sem barst mér með bréfi 7. desember 1994, segir:
"Spurt er hvort ákveðnar hafi verið einhverjar breytingar á framkvæmd skilyrðis a-liðar 12. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Engar breytingar á framkvæmd hafa verið samþykktar. Í gildistíð eldri almannatryggingalaga, var sex mánaða biðtíminn ekki inni, þannig að með gildistöku laga nr. 117/1993 voru skilyrði hert. Þessi biðtími bitnar aðallega á einstaklingum sem koma frá löndum, sem Ísland hefur ekki samið við um félagslegt öryggi. Enginn samningur er á milli Bandaríkjanna og Íslands, sem heimilar undanþágu frá umræddu ákvæði.
Ekki er vitað til þess að endurskoðun ákvæðisins sé á döfinni."
IV.
Í forsendum og niðurstöðum álits míns, dags. 9. ágúst 1995, segir:
"Réttur til örorkulífeyris samkvæmt lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, var bundinn almennu skilyrði um lögheimili á Íslandi. Í 1. mgr. 12. gr. laganna sagði svo:
"Rétt til örorkulífeyris eiga þeir menn, sem lögheimili eiga á Íslandi, eru á aldrinum 16-67 ára og:
a. hafa átt lögheimili á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin, áður en umsókn er lögð fram, eða haft óskerta starfsorku, er þeir tóku hér lögheimili..."
Í núgildandi almannatryggingalögum nr. 117/1993, sem tóku gildi 1. janúar 1994, eru skilyrði um lögheimili á Íslandi hert að því leyti, að samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. laganna er nú kveðið á um sex mánaða biðtíma, ef starfsorka var óskert við töku lögheimilis hér á landi. Að öðru leyti er ákvæðið óbreytt.
Í 12. gr. almannatryggingalaga er ekki að finna heimild til undanþágu frá skilyrði um lögheimili á Íslandi, en í fjölhliða og tvíhliða samningum, sem Ísland hefur gert við önnur ríki um félagslegt öryggi, er að finna ákvæði um slíka undanþágu.
V.
Kvörtun A beinist að því, eins og áður hefur komið fram, að úrskurður tryggingaráðs standist ekki með tilliti til laga nr. 67/1971, þar sem niðurstaðan byggist á því, að starfsorka hennar hafi skerst, á meðan hún bjó á erlendri grund, en starfsorkan hafi í raun verið skert frá því á árinu 1982.
Fyrir liggur að starfsorka A var skert, þegar hún tók lögheimili á Íslandi 14. maí 1993 eftir tæplega þriggja ára búsetu í Bandaríkjunum. Samkvæmt því uppfyllti hún ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 12. gr. almannatryggingalaga um að hafa átt lögheimili á Íslandi í a.m.k. þrjú síðustu árin, þegar örorkumat var gefið út 3. október 1993. Samkvæmt ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. er einungis vikið frá skilyrði um lögheimili á Íslandi í a.m.k. þrjú ár, þegar starfsorka manns er óskert við töku lögheimilis. Að öðru leyti skiptir ekki máli, hvenær eða hvar skerðing á starfsorku verður. Engir samningar eru milli Íslands og Bandaríkjanna, sem kveða á um undanþágu frá skilyrði 12. gr. um lögheimili á Íslandi.
Með hliðsjón af því, sem að framan er rakið, er niðurstaða mín sú, að úrskurður tryggingaráðs frá 14. janúar 1994 sé í samræmi við lög og gefi ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu."