A kvartaði yfir ákvörðun ríkisskattstjóra um að ákvarða henni ekki vaxtabætur á þeim grundvelli að hún ætti ekki lögheimili í íbúðarhúsnæði fjármögnuðu með láni sem hún ber af vaxtagjöld. Í erindinu kom fram að A og eiginmaður hennar væru skilin en hefðu ekki getað selt húsnæðið. A bæri kostnað af því en aðeins fyrrverandi eiginmaður hennar fengi greiddar vaxtabætur þar sem hann byggi enn í húsnæðinu.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. ágúst 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.
Kvörtun A fylgdu ekki samskipti hennar við skattyfirvöld en í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður sér ekki unnt að taka mál A til athugunar fyrr en fyrir lægi endanleg úrlausn á stjórnsýslustigi. Í því sambandi benti umboðsmaður A á að ef skattframtali hennar hefði verið breytt fyrir álagningu gæti hún sent ríkisskattstjóra kæru og að auglýstur kærufrestur rynni út 24. ágúst 2011. Hefði hins vegar ekki verið tekin ákvörðun í málinu heldur tilkynnt um fyrirhugaða breytingu ætti ríkisskattstjóri að jafnaði kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun álagningar innan tveggja mánaða. Ef og þegar úrskurður ríkisskattstjóra lægi fyrir ætti hún kost á að bera hann undir úrskurð yfirskattanefndar til endurskoðunar. Umboðsmaður lauk málinu en tók fram að að fenginni niðurstöðu yfirskattanefndar gæti A leitað til sín á ný með sérstaka kvörtun teldi hún sig enn beitta rangsleitni.