Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6308/2011)

Hinn 15. febrúar 2011 kvartaði A yfir því að iðnaðarráðuneytið hefði ekki svarað erindi sínu um niðurgreiðslu vegna tengingar hitaveitu. A leitaði fyrst til umboðsmanns með umkvörtunarefnið 4. nóvember 2010 en því máli lauk vegna þeirra skýringa ráðuneytisins að A yrði upplýstur um stöðu mála fyrir árslok og um formlega niðurstöðu málsins í byrjun árs 2011. Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 20. júlí 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í skýringum ráðuneytisins kom fram að ráðuneytið hefði komist að þeirri niðurstöðu í málinu að staðfesta fyrri ákvörðun ráðuneytisins frá 30. ágúst 2005 varðandi afgreiðslu stofnstyrks til hitaveitu í sveitarfélaginu sem A var búsettur í. Umboðsmaður lauk því athugun sinni en tók fram að væri A ósáttur við þessa afgreiðslu á erindinu gæti hann lagt fram sérstaka kvörtun vegna þess.