Hinn 1. febrúar 2011 kvartaði A yfir því að erindi sem hann sendi félags- og tryggingamálaráðuneytinu, nú velferðarráðuneytinu, vegna samskipta sinna við starfsfólk Vinnumálastofnunar hefði ekki verið svarað. Í erindinu kom einnig fram að eigur A væru í vörslum tiltekins sýslumannsembættis sem hefði komist yfir þær á ólögmætan hátt og að fyrrverandi fangelsismálastjóri hefði látið lengja yfir A fangelsisrefsingu. Þá beindist kvörtunin að því að Vinnumálastofnun hefði skert atvinnuleysisbætur A án þess að tilkynna honum um það. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 20. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður taldi kvörtunarefnið sem sneri að sýslumannsembættinu ekki nægilegt ljóst eða stutt fullnægjandi gögnum til að vera tækt til umfjöllunar en benti A á að hann gæti sent sér nýja kvörtun þar sem nánar væri tilgreint hvaða ákvarðanir eða athafnir stjórnvalds væri um að ræða. Það féll jafnframt utan valdsviðs umboðsmanns, sbr. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, að fjalla um tímalengd refsivistar sem A var dæmdur til og staðhæfing hans um að fyrrverandi fangelsismálastjóri hefði lengt refsingu A var óljós. Umboðsmaður tók fram að ef kvörtunin beindist að stjórnvaldsákvörðun fangelsismálastofnunar, tekinni á grundvelli laga nr. 49/2005 á þeim tíma er umræddur maður gegndi starfi fangelsismálastjóra væri ljóst að ákvörðunin væri tekin utan við ársfrest samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, og þá væru ekki uppfyllt skilyrði til að taka það kvörtunarefni til athugunar. Í skýringum Vinnumálastofnunar til umboðsmanns kom fram að stofnunin hefði ekki skert atvinnuleysisbætur A heldur hefðu þær verið greiddar í tvennu lagi vegna leiðréttingar á staðgreiðslu. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna þess atriðis. Að lokum fengust þær skýringar frá velferðarráðuneytinu að erindi A hefði nú verið svarað. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar en tók fram að ef A teldi afstöðu ráðuneytisins til erindis hans fela í sér rangsleitni í sinn garð gæti hann leitað til sín á ný vegna þess