Lögheimili.

(Mál nr. 6499/2011)

A kvartaði yfir afgreiðslu Þjóðskrár Íslands á umsókn maka hennar, B, um kennitölu. Nánar tiltekið laut kvörtunin að því að kennitala B væri skráð á svokallaða utangarðsskrá þar sem hann ætti ekki lögheimili á Íslandi. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinn á málinu með bréfi, dags. 4. júlí 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Þar sem unnt er að bera ágreining um stjórnvaldsákvarðanir sem Þjóðskrá Íslands tekur á grundvelli laga nr. 21/1990 og laga nr. 54/1962 undir innanríkisráðuneytið, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og lög nr. 77/2010, taldi umboðsmaður ekki uppfyllt skilyrði að lögum til að taka málið til frekari umfjöllunar að svo stöddu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Hann tók þó fram að teldi A enn hallað á rétt B að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins gæti hún leitað til sín á ný.