Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit. Skilyrði þess að heilbrigðisyfirvöld megi fjarlægja númerslausar bifreiðar. Leiðbeiningar um kæruheimild. Rökstuðningur. Þagnarskylda.

(Mál nr. 1090/1994)

Máli lokið með áliti, dags. 21. nóvember 1994.

A kvartaði yfir því að bifreið, sem staðið hafði á lóð hennar, hefði verið fjarlægð af heilbrigðisfulltrúa. Þá kvartaði hún yfir því að úrskurður heilbrigðisnefndar í máli hennar hefði verið sendur föður hennar og að henni hefði ekki verið leiðbeint um kæruheimildir.

Umboðsmaður benti á að í 1. mgr. 14. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 væri fjallað um heimild heilbrigðisnefndar til að láta fjarlægja bifreiðar og bílflök án númera. Taldi umboðsmaður að ákvæðið hefði næga stoð í 2. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Aftur á móti taldi umboðsmaður að með tilliti til lagaheimildar reglugerðarinnar yrði að skýra 3. málsl. 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar svo, að ekki væri heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök að undangenginni viðvörun nema uppfyllt væru þau skilyrði sem fram kæmu í 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, þ.e.a.s. að bifreiðin væri talin skaða, menga eða lýta umhverfið. Eftir að hafa kannað myndir af umræddri bifreið féllst umboðsmaður á það mat stjórnvalda, að skilyrði 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar væru uppfyllt.

Umboðsmaður taldi úrskurði Hollustuverndar ríkisins og Úrskurðarnefndar skv. 30. gr. laga nr. 81/1988 haldna annmörkum þar sem í hvorugum úrskurðanna var að finna lýsingu á hlutaðeigandi bifreið eða að sjá að niðurstaðan byggðist á því að ástand bifreiðarinnar félli undir upphafsákvæði 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Umboðsmaður taldi að í rökstuðningi úrskurðanna hefði átt að geta nánar þeirra lagasjónarmiða sem matið byggðist á, svo og þeirra málsatvika sem verulega þýðingu höfðu við úrlausn málsins, þ. á m. ástands bifreiðarinnar.

Þegar úrskurður stjórnar Hollustuverndar ríkisins var kveðinn upp höfðu stjórnsýslulög nr. 37/1993 ekki tekið gildi. Umboðsmaður taldi aftur á móti að það yrði að telja til vandaðra stjórnsýsluhátta að almenningi væru veittar leiðbeiningar um kæruheimildir, hvert skuli beina kæru og kærufresti. Þar sem A fékk að nokkru leyti upplýsingar af þessu tagi og ekki höfðu orðið réttarspjöll vegna hugsanlegs skorts á nægjanlegum leiðbeiningum taldi umboðsmaður ekki ástæðu til frekari athugasemda við þennan lið kvörtunarinnar.

Umboðsmaður taldi ekki óeðlilegt að heilbrigðisfulltrúi hefði sent föður A úrskurð stjórnar Hollustuverndar ríkisins í máli hennar þar sem ætlunin var einnig að fjarlægja bifreið af lóð hans og heilbrigðisfulltrúinn taldi að um sambærileg tilvik væri að ræða, enda yrði ekki talið að í úrskurðinum kæmu fram neinar upplýsingar sem þagnarskylda hefði átt að ríkja um.

I.

Hinn 25. apríl 1994 bar A fram kvörtun við umboðsmann Alþingis yfir ákvörðunum Úrskurðarnefndar skv. 30. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, stjórnar Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis. Kvörtunin er svohljóðandi:

"Kvartað er yfir úrskurði Úrskurðarnefndarinnar frá 20. apríl s.l., þar sem úrskurður stjórnar Hollustuverndar ríkisins frá 16. desember 1993 í kærumáli mínu vegna samþykktar Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 20. október 1993, er staðfestur.

Einnig er kvartað yfir þeirri háttsemi heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis, að senda úrskurð stjórnar Hollustuverndar til annars aðila að [Y-götu]. Að mínu mati skiptir það ekki máli þótt sá aðili sé faðir minn.

Þá vil ég kvarta yfir því að stjórn Hollustuverndar ríkisins hafi ekki látið fylgja leiðbeiningar með ákvörðun sinni frá 16. desember 1993, um rétt minn til þess að mega skjóta henni til Úrskurðarnefndar skv. 30. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

Málið snýst um það, hvort heimilt sé að skipa mér að fjarlægja af lóð minni tvær númerslausar bifreiðar. Ákvörðun Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 20. október 1993, sem er upphaf þessa máls varðar ekki bifreiðar á minni lóð, nr. 6 við [X-götu] heldur bifreiðar á lóðinni nr. 30 við [Y-götu]. Eru því að mínum dómi ekki uppfyllt skilyrði til afskipta yfirvalda heilbrigðis og hollustuverndar af mínum málum. Ég vil taka fram að ástand bílanna er með þeim hætti, að þeir eru númerslausir og er annar þeirra á skrá hjá Bifreiðaskoðun Íslands h.f. Það er skoðun mín, að ákvarðanir stjórnvalda í máli þessu séu ekki byggðar á öðrum sjónarmiðum eða rökum, en að skráningarnúmer vanti á bifreiðarnar, en ekki á því að þær séu hættulegar eða fyrir einhverjum. Tel ég að slík sjónarmið, sem koma fram í grein 14.1 í heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990, séu ólögmæt samkvæmt lögum nr. 81/1988. Að því er varðar röksemdir mínar að öðru leyti, leyfi ég mér að vísa til kæru minnar til Úrskurðarnefndarinnar frá 2. febrúar s.l.

Að því er varðar síðari lið kvörtunar minnar vil ég leggja áherslu á, að heilbrigðisfulltrúi Kjósarsvæðis hafði enga heimild til þess að senda föður mínum úrskurð stjórnar Hollustuverndar ríkisins. Hér var um að ræða mál sem varðaði mig persónulega og ekki neinn annan.

Meðfylgjandi eru þau gögn, sem varða málið."

II.

Með bréfi forseta Alþingis dags. 2. júní 1994 var Friðgeir Björnsson, dómstjóri, skipaður til þess að fjalla um framangreinda kvörtun samkvæmt 14. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis, þar sem Gaukur Jörundsson, umboðsmaður Alþingis, hafði óskað eftir því að víkja sæti við meðferð þessa máls.

Hinn 15. júlí sl. ritaði skipaður umboðsmaður bréf til stjórnar Hollustuverndar ríkisins, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Úrskurðarnefndar skv. 30. gr. laga nr. 81/1988 og heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis.

Óskaði hann eftir því við stjórn Hollustuverndar ríkisins að hún léti honum í té upplýsingar um það hvernig hagað hefði verið undirbúningi og rannsókn þess máls, er hún úrskurðaði 16. desember 1993 og jafnframt um það hvort A hefði verið leiðbeint um rétt sinn til þess að skjóta þeim úrskurði til Úrskurðarnefndar skv. 30. gr. laga nr. 81/1988. Svarbréf stjórnar Hollustuverndar ríkisins er dags. 8. september 1994.

Skipaður umboðsmaður skrifaði stjórn Hollustuverndar ríkisins annað bréf dags. 4. október 1994 og ítrekaði beiðni sína um upplýsingar um það hvort A hefði verið leiðbeint um rétt sinn til þess að skjóta úrskurði stjórnar Hollustuverndar ríkisins til Úrskurðarnefndar samkvæmt 30. gr. laga nr. 81/1988.

Hollustuvernd ríkisins svaraði þessu bréfi skipaðs umboðsmanns með bréfi dags. 11. október 1994. Í því bréfi segir m.a.:

"[A] voru veittar munnlegar upplýsingar um væntanlega málsmeðferð í deilumáli hennar við Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis. Í því sambandi var greint frá hugsanlegu málskoti til sérstakrar úrskurðarnefndar skv. lögum nr. 81/1988. Málið fór enda fljótlega í þann farveg og virðist skortur á upplýsingum ekki hafa tafið framgang málsins. Vakin skal athygli á að málið var afgreitt frá Hollustuvernd ríkisins með bréfi dags. 30. desember 1993 og gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993 (sem tóku gildi 1. janúar 1994) ekki um meðferð þessa máls".

Skipaður umboðsmaður óskaði eftir því við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að það skýrði með hvaða hætti fyrirmæli í 1. mgr. 14. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 hefðu stoð í lögum nr. 81/1988 og hvaða lagasjónarmið byggju að baki þeim og ennfremur hvort ráðuneytið teldi, miðað við gildandi lög, að fyrirmælin hefðu fullnægjandi lagastoð.

Svar ráðuneytisins barst skipuðum umboðsmanni með bréfi dags. 20. október 1994.

Skipaður umboðsmaður óskaði eftir því við Úrskurðarnefnd skv. 30. gr. laga nr. 81/1988 að nefndin skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og léti honum í té þau gögn um mál hennar sem hún hefði undir höndum. Þá óskaði hann sérstaklega eftir því að fram kæmi í skýringum nefndarinnar hvernig rannsókn og meðferð málsins hefði verið háttað fyrir nefndinni.

Svarbréf nefndarinnar er dags. 3. ágúst 1994.

Skipaður umboðsmaður óskaði eftir því við heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis að hún léti honum í té upplýsingar um það hvernig hagað hefði verið rannsókn þessa máls af hálfu nefndarinnar og þeim framkvæmdum er málið varðaði. Svarbréf heilbrigðisnefndarinnar er dags. 31. ágúst 1994. Skipaður umboðsmaður ritaði heilbrigðisnefndinni annað bréf dags. 5. okt. 1994 og óskaði eftir ítarlegri upplýsingum. Bréfi hans svaraði framkvæmdastjóri með bréfi dags. 18. október 1994. Í bréfi þessu kemur eftirfarandi fram:

"Í bréfi yðar er óskað eftir upplýsingum um hvort úrskurður stjórnar Hollustuverndar ríkisins frá 16.12. 1993 í kærumáli [A], hafi verið sendur öðrum aðila að [Y-götu], Seltjarnarnesi.

Það staðfestist hér með að þann 13.01. 1994 var [B], [Y-götu] 30, Seltjarnarnesi sent ítrekunarbréf vegna númerslausra bifreiða sem voru á lóðinni að [Y-götu] 30 og ítrekað var búið að kvarta yfir. Meðfylgjandi bréfi þessu var ofangreindur úrskurður Hollustuverndar.

Ástæður þess að honum var sendur þessi úrskurður, var sá að hann fjallaði um algjörlega sambærilegt mál og mál [A], enda er samþykkt Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 20.10. 1993, gildandi fyrir bæði [Y-götu] 30 og [X-götu] 6.

[B] hafði með bréfi sínu dags. 06.01. 1994 dregið í efa heimildir heilbrigðiseftirlitsins til að gera kröfu um að númerslausar bifreiðar hans væru fjarlægðar. Því var það metið sem innlegg í mál [B] að senda honum úrskurðinn, enda er vitnað í mál [Y-götu] 30 í honum. Það var því talið eðlilegt að senda honum afrit af úrskurðinum til að gera honum ljóst að kröfur heilbrigðiseftirlitsins væru lögmætar.

Samkvæmt munnlegri beiðni í dag, þá óskið þér eftir lýsingu á þeim bíl sem fjarlægður var um mánaðar mótin apríl/maí í ár. Þetta var Daihatsu sendibíll, ca. árg. 1980, gulur að mestu og orðinn illa ryðgaður eins og meðfylgjandi myndir bera með sér".

Þá sendi framkvæmdastjórinn skipuðum umboðsmanni myndir sem teknar höfðu verið af bifreiðinni. Skipaður umboðsmaður ritaði A bréf 15. september 1994 og sendi henni afrit af þeim bréfum og gögnum, sem honum höfðu þá borist. Skipaður umboðsmaður ritaði A annað bréf 25. október og sendi henni afrit af þeim bréfum sem honum bárust eftir 15. september sl. og fylgdu þau gögn sem honum höfðu borist frá 15. sepember til þess tíma og gaf henni kost á því að gera athugasemdir við þau. Ennfremur bað skipaður umboðsmaður A um upplýsingar um það hvort henni hefði verið munnlega greint frá hugsanlegu málskoti til sérstakrar úrskurðarnefndar samkvæmt lögum nr. 81/1988 og eins um það hvort hún hefði fengið sendan á heimili sitt úrskurð Hollustuverndar ríkisins frá 16. desember 1993. Þá bað skipaður umboðsmaður A að lýsa bifreið þeirri sem fjarlægð var og staðfesta hvort mynd sem fylgdi með bréfinu væri af umræddri bifreið.

Svar A er dags. 7. nóvember sl. og segir m.a. annars í því bréfi eftirfarandi:

"Þann 16. desember 1993 hringdi ég til Hollustuverndar ríkisins og talaði við [...] og spurðist fyrir um hvort úrskurður væri væntanlegur, svarið var að hann yrði væntanlegur eftir nokkra daga því einhverjir stjórnarmenn vildu athuga þetta mál betur en sennileg niðurstaða yrði að Heilbrigðisfulltrúa væri heimilt að gera þetta. Ég var þá búin að lesa lög og reglugerðir og spurði hvort það væri hægt að senda þetta til úrskurðarnefndar, fékk já sennilega, og svo óumbeðnar upplýsingar um að það væri alltof mikið mál að fara með þetta mál þangað og að ég þyrfti að fá mér lögfræðing. Eftir að hafa ítrekað spurt hvernig þetta gengi fyrir sig kom að sennilega væri [...] lögmaður formaður þessarar nefndar. Ég fékk það svo staðfest hjá [...] um miðjan janúar.

Ég fékk sendan úrskurð Hollustuverndar Ríkisins þann 3. janúar 1994 á mitt heimili, og vísa til bréfs míns til Hollustuverndar dags. 24.11.1993 og bréfs til úrskurðarnefndar dags. 2. febrúar 1994 bls. 3 þar sem ég kvarta yfir því að [B], [Y-götu] 30 skuli vera tilkynnt um mitt mál. [...]

Bifreiðin sem verið er að fjalla um er gulur Daihatsu 850 cap árgerð 1983. Nýbúið er að gera upp vélabúnað bifreiðarinnar og byrjað var að vinna við viðgerð á boddíi, en sú vinna er unnin hægt þar sem mér liggur ekkert á og þetta er áhugamál en ekki atvinna, eins og myndir sýnir, þ.e. búið var að mála yfir viðgerðir og útlit bifreiðarinnar er ágætt og bifreiðin er alls ekki illa ryðguð eins og Heilbrigðisfulltrúi heldur enda hefur þetta ekki komið fram fyrr hjá honum og engin slysahætta stafar af bifreiðinni.

Ljósmyndin er af umræddri bifreið".

III.

Óumdeilt er að á lóð A að X-götu 6 Seltjarnarnesi voru geymdar tvær bifreiðar sem ekki höfðu skráningarnúmer.

Fundur var haldinn í heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis 20. október 1993 og á honum var málið "[Y-gata] 30, Seltjarnarnesi" tekið fyrir og er eftirfarandi bókað í fundargerð:

"Vegna óskráðra bíla á lóðinni, þá samþykkti Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis eftirfarandi bókun:

"Heilbrigðisnefnd telur að þegar um er að ræða að fjarlægja þurfi númerslausar bifreiðar sem standa á lóðum húseigenda, samkvæmt ákvæðum II. kafla heilbrigðisreglugerðarinnar, þá skuli miða við að einungis sé heimilt að geyma eina slíka bifreið á aðkeyrslu að bílskúr og því aðeins að bifreið þessi sé í góðu ástandi og geymsla þessi sé aðeins til skamms tíma.

Heilbrigðisnefnd heimilar heilbrigðisfulltrúa að framfylgja ofangreindri samþykkt hvað varðar húsin [Y-götu] 30 og [X-götu] 6 á Seltjarnarnesi."

Hinn 4. nóvember 1993 ritaði heilbrigðisfulltrúi heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis A bréf "varðandi númerslausar bifreiðar á lóðinni [X-götu] 6".

Í bréfinu er framangreind bókun rituð og nokkur grein gerð fyrir henni. Segir síðan í bréfinu:

"II. kafli heilbrigðisreglugerðarinnar er meðfylgjandi í ljósriti.

Því er hér með skorað á yður að fjarlægja allar númerslausar bifreiðar af lóð yðar hið allra fyrsta og eigi síðar en að 10 dögum liðnum frá dagsetningu þessa bréfs, að öðrum kosti verða þær fjarlægðar.

Í samræmi við ofangreinda bókun verður þó heimilt í stuttan tíma að geyma eina númerslausa bifreið fyrir framan bílskúrinn, ef þess gerist þörf.

Í þessu sambandi skal bent á að Seltjarnarnesbær leigir út vaktað geymslusvæði fyrir sv bíla".

Enn ritar heilbrigðisfulltrúinn A bréf sem dagsett er 16. nóvember 1993. Er það svohljóðandi:

"Varðandi númerslausar bifreiðar á lóðinni [X-götu] 6.

Vísað er til bréfs embættisins frá 04.11.1993 um sama efni. Við skoðun í dag hefur komið í ljós að enn eru númerslausar bifreiðar á lóð yðar, þrátt fyrir áskorun um að fjarlægja þær, í síðasta lagi fyrir þann 14.11.1993.

Hér með er yður gefinn loka frestur til að fjarlægja þessar bifreiðar hið allra fyrsta og eigi síðar en að 10 dögum liðnum frá dagsetningu þessa bréfs.

Yður hefur áður verið sent ljósrit af II. kafla heilbrigðisreglugerðarinnar. Hér með er yður sent ljósrit af 27. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

Þér hafið nú fengið áminningar samkvæmt liðum 1. og 2. í grein 27.1. Að liðnum þessum lokafresti þá verða bifreiðarnar fjarlægðar eins og liður 3. veitir heimild til.

Enn og aftur er bent á að Seltjarnarnesbær leigir út vaktað geymslusvæði fyrir svona bíla, sjá meðf. auglýsingu".

Hinn 23. nóvember 1993 ritar A heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis svohljóðandi bréf:

"Með vísan til bréfs yðar dagsettu þann 16.11.1993, póststimplað þann 22.11.1993 og ég fékk afhent í almennum pósti þann 22.11.1993, vísið þér í bréf dagsett 04.11.1993, þar sem vísað er í samþykkt heilbrigðisnefndar að því er varðar bifreiðar sem eru á lóð hússins við [Y-götu] 30 á Seltjarnarnesi. Ég mótmæli því að það mál sé mér viðkomandi og að hægt sé að fjarlægja númerslausar bifreiðar á mínu einkabílastæði út af þeirri samþykkt.

Ég tel því að bréf yðar dagsett þann 16.11. 1993 hafi ekki við nein lög eða reglugerðir að styðjast og mun því áskilja mér allan bótarétt á hendur yður ef þér látið fjarlægja eða hreyfa við bílunum eins og þér hafið verið að hóta mér".

Hinn 24. nóvember 1993 ritar A stjórn Hollustuverndar ríkisins bréf og óskar eftir því að stjórnin tæki mál sitt til úrskurðar eins og í bréfinu stendur. Síðan segir í bréfinu:

"Þann 04.11.1993 fékk ég hringingu frá Heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis [...], þar sem mér var tilkynnt um að það hefðu komið kvartanir út af númerslausum bifreiðum sem eru inn á mínu bílastæði og þetta mál hefði verið tekið fyrir hjá heilbrigðisnefnd og ég ætti að fjarlægja þá og ég myndi fá bréf um það. Ég hefi aldrei heyrt minnst á neinar kvartanir út af þessum bifreiðum fyrr, enda er ekki minnst á þær í bréfinu sem fékk dagsett 04.11.1993. Þar er vitnað í bókun sem heilbrigðisnefnd gerði og fékk ég senda fundargerð nefndarinnar frá heilbrigðisfulltrúa, en þessi bókun er varðandi málefni [Y-götu] 30. Þó [X-gata] 6 sé nefnd breytir það ekki því að þessi bókun er að mínu mati algjörlega óviðkomandi mínu máli enda sýnir fundargerð að hún er gerð varðandi [Y-götu] 30.

Eftir að hafa fengið fundargerðina í hendur hringdi ég til heilbrigðisfulltrúa og óskaði eftir nánari upplýsingum og rökum fyrir þessari samþykkt, hann hafði þær ekki og gat ekki sent mér neitt skriflegt.

Bréf þetta var síðan fengið lögfræðingi í hendur og eftir símtal þeirra fékk ég þau skilaboð að heilbrigðisfulltrúi myndi skoða málið betur og hafa samband beint við mig og jafnframt að ég mætti hafa þessar bifreiðar á mínu bílastæði.

Síðan fæ ég bréf dagsett 16.11.1993 þar sem vísað er í fyrra bréf embættisins. Ég fæ þar 10 daga frest til að fjarlægja þessar bifreiðar, en mér berst bréfið ekki fyrr en 22.11.1993 og samkvæmt því er mér einungis veittur 4 daga frestur, sem varla telst eðlilegur. Ennfremur er vísað í 27. gr. l. 81/1988 og að ég hafi fengið áminningar samkvæmt lið 1 og lið 2 sem varla er hægt að lesa úr fyrra bréfinu því þar var ætlunin að fjarlægja þær en ekki að áminna mig. Samkvæmt sömu grein lið 3 verða bifreiðarnar fjarlægðar, en liður 3 fjallar um stöðvun á starfsemi og ég hef hér enga starfsemi og hef aldrei haft.

Fyrir fáeinum dögum sé ég bréf sem húseigandi að [Y-götu] 30 Seltjarnarnesi fékk frá Heilbrigðisfulltrúa Kjósarsvæðis og er þar skrifuð samþykkt heilbrigðisnefndar og mitt heimilisfang nefnt þar. Það tel ég að samrýmist ekki grein 157.5 heilbrigðisreglugerðarinnar þar sem ég hef ekki brotið gróflega af mér né var mér tilkynnt um að tilkynna ætti almenningi um þetta svokallaða brot mitt".

Hollustuvernd ríkisins ritar A bréf dags. 30. desember 1993 svohljóðandi:

"Stofnuninni hefur borist bréf [A], [X-götu] 6, Seltjarnarnesi þar sem hún óskar eftir því við stjórn Hollustuverndar ríkisins að hún taki til úrskurðar mál sitt gegn Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis. Mál þetta varðar númerslausar bifreiðar á lóðinni [X-götu] 6, Seltjarnarnesi.

Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis gerði á fundi sínum 20. okt. s.l. bókun þess efnis að hún heimili heilbrigðisfulltrúa að láta fjarlægja númerslausa bíla sem standa á lóðum húseigenda að [Y-götu] 30 og [X-götu] 6 á Seltjarnarnesi og var viðkomandi gerð grein fyrir málinu bréflega og jafnframt bent á leiðir til að fá bíla geymda á vegum Seltjarnarnesbæjar. Lokafrestur til að fjarlægja bifreiðarnar er gefinn í bréfi heilbrigðisfulltrúa 16. nóv., 10 dagar frá dagsetningu bréfsins. Hefur heilbrigðisfulltrúi þar með beitt áminningum 1. og 2. liðar gr. 27.1 laga nr. 81/1988 ásamt að kynna hlutaðeiganda ákvæði II kafla heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 þar sem í 14. gr. er sérstaklega kveðið á um að "heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök að undangenginni viðvörun". Hollustuvernd hefur fengið greinargerð frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis þar sem þessi og önnur efnisatriði málsins eru rakin.

[A] er ósátt við aðgerðir heilbrigðisnefndar. Telur hún að viðvaranir sem hún hefur fengið séu ekki rétt stílaðar, en hún telur að bókun heilbrigðisnefndar vegna [Y-götu] 30 sé ranglega beint að [X-götu] 6. Einnig telur hún að frestur sem gefinn er sé of skammur, þar sem henni hafi borist bréf dagsett 16. nóv. seint í hendur. Þá kom fram í samtali við [A] að hún er ósátt við að umræddar bifreiðar á lóð sinni séu til lýta eða geti valdið skaða sbr. ákvæði 14. gr. í heilbrigðisreglugerð.

Úrskurður.

Mál þetta var tekið til umfjöllunar á fundi stjórnar Hollustuverndar ríkisins þann 16. desember s.l. og var niðurstaða stjórnar sú að aðgerðir Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis teldust eðlilegar og réttmætar. Hollustuvernd ríkisins fellst ekki á rök [A] og telur að heilbrigðisfulltrúi hafi farið að ákvæðum gr. 27. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem og ákvæðum 14. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 er varðar það að fjarlægja númerslausar bifreiðar. Hollustuvernd telur vinnureglu heilbrigðisnefndar, sem veitir heimild fyrir einni óskráðri bifreið í heimkeyrslu, sanngjarna. Auk þess álítur Hollustuvernd að [A] hafi fengið eðlilegan frest til viðeigandi ráðstafana".

Þessum úrskurði vildi A ekki una og með ítarlegu bréfi dags. 2. febrúar 1994 óskar hún eftir því við Úrskurðarnefnd skv. 30. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit að hún taki mál sitt til úrskurðar, úrskurði í því samkvæmt lögum og reglum sem í gildi eru og taki réttláta niðurstöðu. Rekur A í bréfinu gang málsins frá sínum sjónarhóli. Ennfremur óskar A eftir því að úrskurði verði hraðað og framkvæmdum frestað þar til úrskurður gangi, "þar sem þessi ákvörðun um að taka bifreiðarnar hefur mikla þýðingu fyrir mig, sem bann við því að hafa mitt tómstundagaman hér heima hjá mér og geta unnið í því þegar mér hentar og án þess að þurfa að leggja út í mikinn geymslukostnað og óþægindi" eins og orðrétt í bréfinu stendur.

Hinn 9. febrúar sendi heilbrigðisfulltrúi, A svohljóðandi símskeyti:

"Að undangengnum mörgum aðvörunum, þá verða númerslausar bifreiðar fjarlægðar af lóð yðar föstudaginn 11. febrúar 1994, ef þér hafið ekki fjarlægt þær, samkvæmt ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 20.10.1993".

A ritaði Úrskurðarnefnd skv. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 81/1988 bréf og ítrekaði "ósk um að frestað verði réttaráhrifum ákvörðunar Hollustuverndar ríkisins frá 30. desember 1993, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993".

Úrskurðarnefndin óskaði eftir því við heilbrigðiseftirlitið að aðgerðum yrði frestað og var orðið við því.

IV.

Hinn 29. mars 1994 var fundur í Úrskurðarnefnd skv. 30. gr. laga nr. 81/1988 þar sem til umfjöllunar var kæra A á úrskurði stjórnar Hollustuverndar ríkisins frá 16. desember 1993, sem hún krafðist að felldur yrði úr gildi. A var þar mætt og lagði fram gögn. Þá var og mættur framkvæmdastjóri Hollustuverndar ríkisins og krafðist þess að úrskurðurinn yrði staðfestur. Málið var tekið til úrskurðar á þessum fundi og úrskurður kveðinn upp 20. apríl 1994.

Niðurstaða nefndarinnar er svohljóðandi:

"Mál þetta fjallar ekki um eignarrétt yfir hinum númerslausu bifreiðum, heldur hitt, hvort lagastoð sé fyrir því að skylda kæranda til að fjarlægja bifreiðarnar af lóð sinni að [X-götu] 6, Seltjarnarnesi og ef svo er, hvort lögformlega hafi verið staðið að aðgerðum gagnvart kæranda.

Samkvæmt 14. 1. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990, sem heilbrigðisfulltrúi Kjósarsvæðis sendi kæranda ljósrit af, er heilbrigðisnefnd "heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök að undangenginni viðvörun." Þessari heimild beitti heilbrigðisnefndin gagnvart kæranda með samþykkt sinni hinn 20. október 1993. Öll heilbrigðisnefndin, fimm menn, undirrituðu samþykkt þessa.

Síðan var kæranda veitt áminning og tilhlýðilegur frestur til úrbóta, svo sem mælt er fyrir um í 27. gr. 2. tl. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, svo sem rakið er hér að framan.

Samkvæmt þessu verður að telja fullnægjandi lagastoð fyrir téðri samþykkt Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 20. október 1993 og lögformlega að framkvæmd hennar staðið.

Ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð".

Úrskurðarorðið er svohljóðandi:

"Úrskurður stjórnar Hollustuverndar ríkisins frá 16. desember 1993 í kærumáli [A] vegna samþykktar Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 20. október 1993, er staðfestur".

Samkvæmt upplýsingum heilbrigðisfulltrúa í bréfi til skipaðs umboðsmanns dags. 31. ágúst 1994 var A hinn 28. apríl 1994 gefinn frestur til 1. maí 1994 til þess að fjarlægja umræddar bifreiðar af lóð sinni og að hinn 2. maí hafi heilbrigðiseftirlitið óskað eftir því við verktaka, sem sér um að fjarlægja númerslausar bifreiðar, að hann fjarlægði eina bifreið af lóð A og mun hann hafa gert það þann dag eða hinn næsta og fært bifreiðina á geymslusvæði í Kapelluhrauni.

V.

Niðurstaða og rökstuðningur álits skipaðs umboðsmanns, dags. 21. nóvember 1994, hljóðar svo:

"Í 1. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit er kveðið á um hverju hlutverki lögin eiga að gegna og eru fyrstu 3 málsgreinarnar svohljóðandi:

"Lögum þessum er ætlað að tryggja landsmönnum svo heilnæm lífsskilyrði sem á hverjum tíma eru tök á að veita.

Með markvissum aðgerðum skal vinna að þessu, m.a. með því að tryggja sem best eftirlit með umhverfi, húsnæði og öðrum vistarverum, almennri hollustu matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara og vernda þau lífsskilyrði, sem felast í ómenguðu umhverfi, hreinu lofti, úti og inni, og ómenguðu vatni. Ennfremur með því að veita alhliða fræðslu og upplýsingar um þessi mál fyrir almenning.

Lög þessi ná yfir alla starfsemi og framkvæmd sem hefur eða getur haft í för með sér mengun lofts, láðs eða lagar, að svo miklu leyti sem það er ekki falið öðrum með sérlögum eða með framkvæmd alþjóðasamninga".

Í 1. mgr. 2. gr. laganna segir:

"Til þess að stuðla sem best að framkvæmd laga þessara setur ráðherra heilbrigðisreglugerð eða reglugerðir um atriði, þar með talið eftirlit, sem sérlög ná ekki yfir, og gilda þær fyrir allt landið, lofthelgi og landhelgi".

Í VI. kafla laganna er kveðið á um valdsvið og þvingunarúrræði heilbrigðisnefnda, heilbrigðisfulltrúa og Hollustuverndar ríkisins.

Í 1. mgr. 27. gr. laganna segir að til þess að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, heilbrigðisreglugerð, heilbrigðissamþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum geti heilbrigðisnefnd veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta, einnig stöðvað starfsemi eða notkun að öllu eða hluta.

Í heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990 sem sett var með stoð í 2. gr. laga nr. 81/1988 segir svo í 1. mgr. 14. gr.:

"Bannað er að skilja eftir, flytja eða geyma úrgang á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti svo sem kerrur, bílhluta, bílflök, skipsskrokka o.s.frv. Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök að undangenginni viðvörun t.d. með álímingarmiða með aðvörunarorðum."

Eins og sjá má af því sem að framan er rakið er tilgangur laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit víðtækur og honum lýst í stórum dráttum með nokkuð almennu orðalagi. Hins vegar eru þvingunarúrræði og valdsvið þeirra, er sjá eiga um framkvæmd ráðstafana samkvæmt lögunum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra, vel afmarkað.

Boðum og bönnum þeim, sem hægt er að grípa til við framkvæmd laganna og reglugerða, sem settar eru á grundvelli þeirra, er hins vegar fyrst og fremst lýst í reglugerðum. Bannákvæðið í upphafi 1. mgr. 14. gr. heilbrigðisreglugerðarinnar, sem að framan er rakin, eitt af fjölmörgum, sem hún hefur að geyma.

Telja verður að þetta bannákvæði heilbrigðisreglugerðarinnar hafi nægjanlega stoð í lögum nr. 81/1988.

Í sömu málsgrein er að finna heimildarákvæði til handa heilbrigðisnefnd að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök að undangenginni viðvörun. Heimildarákvæði þetta er ekki í beinum tengslum við bannákvæðið í upphafi málsgreinarinnar og sýnist eitt sér veita heilbrigðisnefnd heimild til þess að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar án tillits til þess hvernig ástand þeirra er að öðru leyti. Það leiðir af grundvallarreglum stjórnskipunarréttar, að íþyngjandi ákvæði heilbrigðisreglugerðar verða að eiga sér skýra stoð í lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og vera í samræmi við þau lög svo og tilgang þeirra. Telja verður vafa leika á að síðastnefnt ákvæði í reglugerðinni hafi þá stoð í lögum, að því megi framfylgja, að því er númerslausar bifreiðar varðar, án alls tillits til ásigkomulags þeirra. Með hliðsjón af markmiðum og efni laga nr. 81/1988 verður að telja að ákvæðinu verði einungis beitt, þegar þau efnislegu skilyrði eru til staðar, að bifreið sé í því ásigkomulagi að hún geti valdið skaða, mengun eða lýti á umhverfi sínu, eins og segir í upphafi málsgreinarinnar. Hér verður að hafa í huga, sem augljóst má vera, að eigandi nýrrar bifreiðar gæti af réttmætum ástæðum kosið að taka hana af bifreiðaskrá í lengri eða skemmri tíma, en haft hana í eðlilegum vörslum sínum, eins og um skráða bifreið í notkun væri að ræða. Enginn verður skyldaður til að aka bifreið sinni kjósi hann að láta það vera. Með sama hætti ber að hafa í huga að mönnum verður trauðla bannað, samkvæmt lögum nr. 81/1988 og reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra, að nota skráðar bifreiðar, þótt þær kunni að valda sjónmengun og lýtum á umhverfi sínu, svo fremi að bifreiðarnar og notkun þeirra uppfylli lögmælt skilyrði.

Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis hefur lýst bifreið A þannig að um sé að ræða Daihatsu sendibifreið, ca. árgerð 1980 og sé hún orðin illa ryðguð.

A hefur lýst bifreiðinni þannig að vélbúnaður hennar hafi verið nýuppgerður, byrjað hafi verið að vinna að viðgerð á boddíi og útlit bifreiðarinnar hafi verið ágætt.

Fyrir mig hafa verið lagðar myndir af umræddri bifreið. Að mínu mati bera þær með sér að bifreiðin er illa útlítandi og verður að teljast til óprýði.

Úrskurðir Hollustuverndar ríkisins og Úrskurðarnefndar samkvæmt 30. gr. laga nr. 81/1988 eru byggðir á samþykkt heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, 2. tl. 27. gr. laga nr. 81/1988 og 1. mgr. 14. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990. Í úrskurði Hollustuverndar ríkisins er reyndar vísað til 27. gr. allrar, en í úrskurði úrskurðarnefndarinnar er vísað til 2. tl. 27. gr. án þess að vísa til 1. mgr. sem hefur töluliðinn að geyma. Í hvorugum úrskurðanna er að finna lýsingu á viðkomandi bifreið eða að sjá að niðurstaða byggist á því að ásigkomulag bifreiðarinnar falli undir upphafsákvæði 1. mgr. 14. gr. heilbrigðisreglugerðarinnar. Ég tel að niðurstöður í báðum úrskurðum séu réttar þar sem telja verður að ástand bifreiðar þeirrar sem fjarlægð var og aðstæður við geymslu hennar falli undir upphafsákvæði 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 149/1990. Ég tel aftur á móti, með vísan til þess sem að framan er getið um þau efnislegu skilyrði, sem þurfa að vera til staðar svo ákvæðinu verði beitt, að í rökstuðningi úrskurðanna hefði átt að geta nánar þeirra lagasjónarmiða sem matið byggðist á, svo og þeirra málsatvika sem verulega þýðingu höfðu við úrlausn málsins, þ. á m. ástands bifreiðarinnar. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til athugasemda við forsendur og niðurstöðu þessara úrskurða, en rétt þykir samhengisins vegna að líta til þeirra beggja, enda þótt kvörtunin beinist einungis að öðrum úrskurðinum.

A kvartar undan því að stjórn Hollustuverndar ríkisins hafi ekki látið fylgja leiðbeiningar með úrskurði sínum frá 16. desember 1993 um rétt sinn til þess að skjóta honum til Úrskurðarnefndar skv. 30. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

Framkvæmdastjóri Hollustuverndar ríkisins hefur tjáð mér að A hafi verið greint frá hugsanlegu málskoti til úrskurðarnefndarinnar.

A hefur greint frá þeim upplýsingum sem hún fékk um málskot til úrskurðarnefndarinnar hjá framkvæmdastjóra Hollustuverndar ríkisins, sem hún virðist telja að hafi verið af skornum skammti, og ennfremur að hún hafi kynnt sér lög og reglugerðir, væntanlega sem vörðuðu mál af þessu tagi.

Telja verður það til vandaðra stjórnsýsluhátta að almenningi séu veittar leiðbeiningar um kæruheimildir, um það hvert skuli beina kæru og um kærufresti. Í 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er nú kveðið á um skyldu stjórnvalda til þess veita leiðbeiningar um heimildir til að kæra stjórnvaldsákvarðanir og annað er að kærum lýtur, en þau höfðu eigi tekið gildi, þegar úrskurður Hollustuverndar ríkisins var kveðinn upp. A fékk a.m.k. að nokkru leyti upplýsingar af þessu tagi og virðist einnig að nokkru hafa aflað sér þeirra sjálf, og ekki verður séð að neins konar réttarspjöll hafi hlotist af hugsanlegum skorti á fullum upplýsingum frá hendi Hollustuverndar ríkisins um kæruheimild og önnur atriði er vörðuðu kæru á úrskurði hennar. Ég tel því ekki ástæðu til frekari athugasemda vegna þessa liðar kvörtunarinnar.

A hefur kvartað undan því að úrskurður Hollustuverndar ríkisins frá 16. desember 1993 hafi verið sendur B föður hennar að Y-götu 30, Seltjarnarnesi.

Í bréfi framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis er greint frá því að B hafi verið sendur úrskurður stjórnar Hollustuverndar ríkisins frá 16. desember ásamt ítrekunarbréfi vegna númerslausra bifreiða á lóð hans að Y-götu 30 og þær ástæður greindar að í úrskurðinum hefði verið fjallað um mál sambærilegt máli hans. A hefur greint frá því að henni hafi verið sendur sami úrskurður á heimili sitt.

Eins og að framan er rakið gerði heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis bókun um að hún heimilaði heilbrigðisfulltrúa að láta fjarlægja númerslausa bíla sem stóðu á lóðum húseigenda að Y-götu 30 og X-götu 6 á Seltjarnarnesi. A óskaði eftir úrskurði Hollustuverndar ríkisins vegna þeirrar ákvörðunar sem framangreind bókun hefur að geyma. Úrskurður Hollustuverndar ríkisins nær einvörðungu til bifreiðar A. Þrátt fyrir það þykir ekki óeðlilegt að þessi úrskurður væri sendur B með ítrekunarbréfi heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, sem mun hafa litið svo á að um hliðstæð tilvik væri að ræða, enda verður ekki talið að í úrskurðinum komi fram neinar upplýsingar sem þagnarskylda hafi átt að ríkja um. Verður ekki talið, eins og hér stendur á, að þetta falli undir 5. mgr. 157. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990 um nafnbirtingu.

VI.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið hér að framan, tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu úrskurðar úrskurðarnefndar samkvæmt 30. gr. laga nr. 81/1988. Ég tel aftur á móti að í rökstuðningi úrskurðarins hefði átt að geta nánar þeirra lagasjónarmiða sem niðurstaðan byggðist á, svo og þeirra málsatvika sem verulega þýðingu höfðu við úrlausn málsins, s.s. ástands bifreiðarinnar.

Þá hefði verið rétt í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að úrskurði stjórnar Hollustuverndar ríkisins hefðu fylgt skriflegar leiðbeiningar um heimildir til að kæra úrskurðinn og önnur atriði sem slíka kæru varða."