B, lögmaður, leitaði til umboðsmanns Alþingis fyrir hönd A og kvartaði yfir því að dómsmála- og mannréttindaráðuneyti hefði ekki svarað erindi sem sent var ráðuneytinu 7. júlí 2010 þar sem óskað var eftir því að ráðuneytið kannaði afdrif starfsumsóknar A hjá tilteknu sýslumannsembætti. Í skýringum innanríkisráðuneytisins kom fram að erindið væri til meðferðar hjá ráðuneytinu og að leitað hefði verið skýringa og upplýsinga. Þá kom fram að B hefði verið upplýstur um það og m.a. fengið afrit af gögnum málsins. Afgreiðsla málsins hefði hins vegar dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu, en áætlað væri að svara erindinu innan tveggja vikna eða í síðasta lagi 6. maí 2011. Í ljósi skýringanna og þess að kvörtun B laut að því að ráðuneytið hefði ekki svarað erindinu lauk umboðsmaður umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi, dags. 2. maí 2011, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, en tók fram að drægist afgreiðsla ráðuneytisins á erindinu verulega fram yfir 6. maí gæti hann leitað til sín að nýju með sérstaka kvörtun þar að lútandi.