Við meðferð setts umboðsmanns Alþingis á kvörtun kom í ljós að í allnokkrum málum sem tekin voru fyrir á fundum fráfarandi mannanafnanefndar á árinu 2009 hefði orðið misbrestur á birtingu rökstuddra úrskurða. Af því tilefni óskaði settur umboðsmaður, á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, á árinu 2010 eftir nánari upplýsingum um viðbrögð nýskipaðrar nefndar við því.
Settur umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 4. mars 2010. Í ljósi svars mannanafnanefndar um að bætt hefði verið úr annmarkanum og þeirrar fyrirætlunar hinnar nýju nefndar, að afgreiða umsóknir sem bærust nefndinni innan lögboðins frests og senda aðilum máls strax og mál hefðu verið afgreidd rökstuddan úrskurð, taldi settur umboðsmaður Alþingis ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins.
Bréf umboðsmanns Alþingis, dags. 4. mars 2010, til mannanafnanefndar hljóðar svo:
Ég vísa til fyrri bréfaskipta okkar vegna frumkvæðisathugunar minnar á afgreiðslum mannanafnanefndar á málum á árinu 2009. Tilefni athugunar minnar var kvörtun A en við meðferð mína á henni kom í ljós að í allnokkrum málum sem tekin hefðu verið fyrir á fundum mannanafnanefndar á árinu 2009 hefði orðið misbrestur á birtingu ákvarðanna. Þá kom jafnframt fram að nýskipuð mannanafnanefnd inni hörðum höndum að því að afla sem gleggstra upplýsinga um þetta atriði þannig að tryggt væri að öllum málum hefði í reynd verið lokið með viðhlítandi hætti.
Af því tilefni ákvað ég, með vísan til 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að óska eftir því, með bréfi, dags. 18. janúar sl., að nefndin upplýsti mig um hvort hún hefði þá þegar aflað upplýsinga um þau mál sem ekki hefðu verið afgreidd með viðhlítandi hætti og þá hvort brugðist hefði verið sérstaklega við í þeim tilvikum. Þá óskaði ég jafnframt upplýsinga um hversu mörg mál væri um að ræða. Hefði nefndin ekki lokið upplýsingaöflun sinni óskaði ég þess að nefndin upplýsti mig um það og þá jafnframt um niðurstöðu sína þegar hún lægi fyrir.
Mér hefur nú borist svarbréf nefndarinnar, dags. 18. febrúar sl. Í umræddu bréfi kemur fram að mannanafnanefnd hafi nú afgreidd öll mál ársins 2009 en því síðasta hafi verið lokið með uppkvaðningu úrskurðar þann sama dag. Með bréfinu fylgdi yfirlit yfir öll afgreidd mál og þá hvenær ákvörðun hafi verið tekin á fundi og jafnframt hvenær sú ákvörðun hafi verið birt hlutaðeigandi. Ljóst er að alloft leið talsverður tími frá því að ákvörðun var tekin á fundi og þar til rökstuddur úrskurður var birtur viðkomandi í bréfi. Af yfirlitinu má jafnframt ráða að nýskipuð mannanafnanefnd hafi nú í janúar sl. birt ákvarðanir í nokkrum málum sem afgreidd voru á fundi síðast liðið sumar og haust.
Í svari mannanafnanefndar, dags. 18. febrúar sl., kemur jafnframt fram að sú mannanafnanefnd sem nú sitji leggi á það áherslu að afgreiða umsóknir sem berast nefndinni innan lögboðins frests og senda rökstuddan úrskurð aðilum máls strax og mál hafi verið afgreidd.
Af svari mannanafnanefndar er ljóst að hún hefur bætt úr þeim annmarka sem var á birtingu ákvarðana sem teknar voru árið 2009 og með vísan til þess og þeirra fyrirætlana sem fram koma í bréfi nefndarinnar til mín, dags. 18. febrúar sl., og vísað er til hér að framan, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins. Lýk ég því athugun minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Róbert R. Spanó.