I. Kvörtun.
Hinn 2. maí 2007 leitaði A til umboðsmanns Alþingis, og kvartaði yfir innheimtu gjalda fyrir dvöl á sjúkrahóteli Landspítalans að Rauðarárstíg 18 í Reykjavík, en þar hafði hann dvalist í nokkur skipti þegar hann hafði sótt læknisþjónustu á Landspítalanum í Reykjavík. Þá tilgreindi A það sérstaklega að hann hefði dvalið á hótelinu í tvær nætur í apríl 2007 í kjölfar bílslyss sem hann lenti í, en þrátt fyrir það hefði verið innheimt af honum gjald vegna dvalar þar í fjóra sólarhringa, alls kr. 10.000.
Eins og nánar verður rakið í kafla IV.1 hér síðar hef ég með hliðsjón af kvörtun A og atvikum málsins að öðru leyti ákveðið að afmarka umfjöllun mína einkum við það atriði hvort heimilt sé að lögum að innheimta gjald af sjúklingum og aðstandendum þeirra fyrir gistingu á áðurnefndu sjúkrahóteli Landspítalans eins og rekstrarfyrirkomulagi þess er háttað.
Tekið skal fram að eftir að mál þetta kom til athugunar hjá umboðsmanni Alþingis breyttist heiti Landspítala-háskólasjúkrahúss í Landspítali, sbr. 20. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Einnig færðust tryggingarmálefni til félagsmálaráðuneytisins frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu 1. janúar 2008. Til samræmis við það breyttist heiti síðarnefnda ráðuneytisins í heilbrigðisráðuneytið, sbr. c-lið 1. gr. laga nr. 109/2007, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 73/1969.
Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 9. september 2009.
II. Málavextir.
Hinn 23. desember 2004 gerðu Fosshótel ehf. og Landspítalinn samning um að Fosshótel ehf. tækju að sér að reka sjúkrahótel. Það skyldi veita „þjónustu til einstaklinga sem [þyrftu] heilsu sinnar eða aðstandenda vegna á skammtímaúrræði að halda, oftast skemur en fjórar vikur, og [væru] til rannsóknar eða meðferðar og [gætu] eigi dvalist í heimahúsum vegna fjarlægðar eða heimilisaðstæðna“. Gildistími samningsins er frá 1. janúar 2005 til 31. desember 2009 og er í upphafi hans tilgreint að hann sé gerður á grundvelli 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.
Í grein 1.1. í samningnum segir að á sjúkrahóteli sé veittur stuðningur og hjúkrunarráðgjöf auk þess sem hótelgestum sé liðsinnt við að sækja heilbrigðisþjónustu. Þá segir þar að sjúkrahótel mæti annars vegar þörfum sem skapast hafa vegna styttingar á legutíma á sjúkrahúsum og auknum aðgerðum sem framkvæmdar eru utan sjúkrahúsa og hins vegar þeirri staðreynd að heimilislegt umhverfi flýti bata.
Í grein 3.1 í umræddum samningi kemur fram að hjúkrunarforstjóri Landspítalans sé ábyrgur fyrir faglegu starfi sjúkrahótels og ráði hjúkrunarfræðing í stöðu forstöðumanns sjúkrahótels sem sé ábyrgur fyrir daglegri stjórnun og rekstri einingarinnar. Hjúkrunarfræðingar og starfsfólk sjúkrahótels séu starfsmenn Landspítala og gildi um þá sömu ákvæði laga um réttindi og skyldur og um aðra starfsmenn spítalans.
Í grein 3.2 kemur fram að læknar og hjúkrunarfræðingar Landspítala vísi einstaklingum til dvalar á sjúkrahótelinu. Þá skuli forstöðumaður þess vera í samstarfi við aðrar heilbrigðisstofnanir um dvöl einstaklinga á hótelinu. Forstöðumaður skuli meta og ákveða á faglegum forsendum, í samráði við lækna og hjúkrunarfræðinga, hver fái gistingu á sjúkrahóteli. Enn fremur kemur fram í ákvæðinu að læknir eða sjúkrastofnun sem hefur viðkomandi gest hótelsins til meðferðar hverju sinni beri ábyrgð á dvöl gestsins á hótelinu hvað læknismeðferð varði.
Í grein 3.6 kemur fram að verksali, Fosshótel ehf., annist ráðningu annars starfsfólks hótelsins og jafnframt skal hann sjá gestum fyrir fullu fæði, sbr. grein 3.7. Í grein 4 er kveðið á um skyldur verksala vegna lágmarkskrafna til framboðs á húsnæði og annarrar aðstöðu gesta sjúkrahótels. Í grein 5 er kveðið á um greiðslur til verksala og í grein 7 um eftirlit með framkvæmd samningsins.
Í grein 5.4 er sérstaklega fjallað um heimildir verksala til gjaldtöku af gestum sjúkrahótelsins. Það ákvæði hljóðar svo:
„Verksala er heimilt að innheimta kr. 800,- á sólarhring hjá hverjum gesti sem gistir á hótelinu og kr. 2.500,- á sólarhring hjá hverjum aðstandanda eða fylgdarmanni hans sem þar gistir, en gert er ráð fyrir að þeir gisti í sama herbergi og sjúklingur. Einnig er verksala heimilt að innheimta kr. 5.000,- á sólarhring hjá erlendum ríkisborgurum sem gista á sjúkrahótelinu. Gestir sjúkrahótelsins greiða sjálfir fyrir símtöl frá sjúkrahótelinu. Þeir greiða einnig fyrir lyf og hjúkrunarvörur sem þeir nota.“
Hinn 19. apríl 2005 var undirritaður samningur milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Landspítalans um fjármögnun ofangreinds samnings spítalans og Fosshótela ehf.
III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda.
Í tengslum við athugun á máli þessu ritaði umboðsmaður Alþingis heilbrigðisráðherra bréf, dags. 11. maí 2007, og óskaði með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eftir tilteknum upplýsingum. Í fyrsta lagi óskaði hann eftir því að ráðuneytið upplýsti á hvaða grundvelli gisting á sjúkrahóteli væri veitt og hvort ráðuneytið teldi að um væri að ræða þjónustu sem ríkinu væri skylt að veita. Í öðru lagi óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um á hvaða grundvelli gjald fyrir gistingu á sjúkrahóteli væri innheimt og hvernig staðið væri að innheimtu fyrir gistinguna. Að lokum óskaði hann eftir því að ráðuneytið veitti upplýsingar um hvernig fjárhæð fyrir gistingu á sjúkrahóteli væri fundin, annars vegar heildarfjárhæð, og hins vegar sá hlutur sem sjúklingur greiddi fyrir gistinguna.
Svar barst umboðsmanni Alþingis frá ráðuneytinu með bréfi, dags. 31. maí 2007. Það hljóðar svo:
„Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið vísar í erindi umboðsmanns Alþingis dags. 11. maí sl., þar sem leitað er upplýsinga um innheimtu kostnaðar fyrir gistingu á sjúkrahóteli. Í erindinu er í þremur tölusettum liðum óskað upplýsinga um ýmis atriði varðandi innheimtuna og fara þær hér á eftir.
1. Í lið 1 er óskað „að ráðuneytið upplýsi um á hvaða grundvelli gisting á sjúkrahóteli er veitt og hvort telja megi að um sé að ræða þjónustu sem ríkinu er skylt að veita“.
Gisting á sjúkrahóteli fellur ekki undir þjónustu sem ríkinu er skylt að veita. Í lögum nr. 148/2001 um ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002 er 8. tl. 1 mgr. 24 gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, þar sem sjúkraheimili eða sjúkrahótel eru felld undir skilgreiningu á sjúkrahúsi, felldur brott. Sjúkrahótel er því ekki lengur skilgreint sem sjúkrahús samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Gisting á sjúkrahóteli er viðbótarþjónusta, sem ráðuneytið og Landspítali-háskólasjúkrahús hafa í sameiningu ákveðið að styrkja. Sjúkrahótel er þjónustuform sem gefur kost á ódýrari valmöguleikum í heilbrigðisþjónustunni og betri nýtingu fjármuna. Sjúkrahótelið mætir annars vegar þörfum sem skapast hafa við styttingu legutíma á sjúkrahúsum og auknum aðgerðum sem framkvæmdar eru utan sjúkrahúsa og þeirri staðreynd að heimilislegt umhverfi flýtir fyrir bata. Sjúkrahótelið er einnig dvalarstaður einstaklinga sem eru til rannsóknar eða meðferðar og geta eigi dvalist í heimahúsum vegna fjarlægðar eða heimilisaðstæðna.
2. Í lið 2 er óskað „eftir upplýsingum um á hvaða grundvelli gjald fyrir gistingu á sjúkrahóteli er innheimt og hvernig staðið er að innheimtu fyrir gistinguna“.
Eins og fyrr er getið var sjúkrahótel fellt út úr skilgreiningu á sjúkrahúsi með lögum nr. 148/2001. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 148/2001 segir um þessa breytingu: „Lagt er til að 8. tölul. l. mgr. 24. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, þar sem sjúkraheimili, eða sjúkrahótel, eru felld undir skilgreiningu á sjúkrahúsi, verði felldur brott. Hefðbundin sjúkrahúsmeðferð fer ekki fram á sjúkrahótelum, en þeir sem þar dvelja eru til meðferðar eða rannsóknar á sjúkrahúsi eða annarri heilbrigðisstofnun. Því verður að telja óeðlilegt að skilgreina sjúkrahótel sem sjúkrahús. Rekstur sjúkrahótela er að mestu kostaður af hinu opinbera og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Eðlilegt þykir þó að unnt sé að innheimta hóflegt gjald fyrir dvöl sjúklings á sjúkrahóteli, svo sem vegna fæðiskostnaðar, og er gert ráð fyrir að það verði ákveðið í þjónustusamningi. Með því að breyta skilgreiningu sjúkrahúsa á þann veg að sjúkraheimili, eða sjúkrahótel, falli ekki undir sjúkrahús eru tekin af tvímæli um að slík innheimta sé heimil.“ Tilgangur þessarar breytingar var því m.a. að taka af tvímæli um að innheimta gjalds fyrir gistingu á sjúkrahóteli væri heimil. Eins og fram kemur í 1. tölul. er hér um viðbótarþjónustu að ræða sem heilbrigðisyfirvöldum er ekki skylt að veita, en sjá hins vegar ákveðið faglegt og fjárhagslegt hagræði í. Rekstraraðili sjúkrahótelsins innheimtir ákveðið gjald fyrir gistingu á hótelinu í samræmi við þjónustusamning þar um, en samkvæmt honum er heimilt að innheimta ákveðið sólarhringsgjald hjá hverjum gesti. Sérstakt gjald er fyrir aðstandendur og erlenda ríkisborgara, þ.e. ósjúkratryggða.
3. Í lið 3 er óskað „eftir að ráðuneytið veiti mér (umboðsmanni) upplýsingar um hvernig fjárhæð fyrir gistingu á sjúkrahóteli er fundin, annars vegar heildarfjárhæð fyrir gistingu á hóteli og hins vegar sá hlutur sem sjúklingur greiðir fyrir gistinguna“.
Samkvæmt fylgiskjali með þjónustusamningi um sjúkrahótel er heildarkostnaður við rekstur hótelsins 106,8 m.kr. (verðlag 2004), miðað við umsaminn fjölda gistinátta (15.190), og kostnaður á sólarhring kr. 7.031,- (verðlag 2004). Það var mat samningsaðila, á þeim tíma sem samið var, að gjald fyrir gistingu skyldi vera kr. 800,- gjald fyrir aðstandendur kr. 2.500,- og gjald fyrir erlenda ríkisborgara (ósjúkratryggða) kr. 5.000,- .“
Umboðsmaður Alþingis ritaði heilbrigðisráðherra á ný bréf, dags. 2. ágúst 2007. Í bréfinu rakti hann fyrri bréfaskipti og benti á að varðandi spurningu um hvernig fjárhæð fyrir gistingu á sjúkrahóteli væri fundin væri eingöngu vísað í fylgiskjal með þjónustusamningi um sjúkrahótel þar sem heildarkostnaður við rekstur hótelsins kæmi fram en ekki væri rökstutt hvernig kostnaður vegna einstakra þjónustuþátta eða þjónustunnar í heild væri fundinn.
Í bréfinu benti umboðsmaður á að af 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar leiddi að það væri almennt á valdi Alþingis að ákveða í formi almennra laga hvaða skattar og þjónustugjöld skyldu innheimt af hálfu stjórnvalda til að standa straum af kostnaði við rekstur þeirrar þjónustu sem þau veittu. Hann benti einnig á þá afstöðu ráðuneytisins, sem væri lýst í bréfi þess, dags. 31. maí 2007, að gisting á sjúkrahóteli félli undir ólögbundna þjónustu sem ríkinu sé ekki skylt að veita samkvæmt lögum. Fengi hann ekki betur séð en af hálfu ráðuneytisins væri á því byggt að vegna eðlis þjónustunnar félli hún utan þeirra lagareglna sem giltu um töku þjónustugjalda. Óskaði umboðsmaður eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið veitti honum nánari skýringar á eftirfarandi:
„1. Í ljósi þeirrar afstöðu ráðuneytisins að sjúkrahótel falli utan þeirrar lögbundnu heilbrigðisþjónustu sem stjórnvöldum er skylt að veita tek ég fram að jafnvel þótt fallist yrði á að þjónusta sjúkrahótela félli utan þeirrar þjónustu sem stjórnvöldum er skylt að veita þá hefur það ekki þar með í för með sér að stjórnvöld hafi frjálsar hendur um ákvörðun fjárhæðar þeirra gjalda sem þau innheimta. Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar um gjaldtöku opinberra aðila verða þær fjárhæðir sem innheimtar eru vegna veittrar þjónustu að svara almennt til raunverulegs kostnaðar sem fellur til af því að veita þjónustuna, auk þess sem stjórnvöldum er að jafnaði skylt að reikna út þann kostnað fyrirfram áður en tekin er ákvörðun um hversu hátt gjald skuli innheimt. Ég vek í þessu sambandi jafnframt athygli á því að í þeim lögskýringargögnum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 148/2001 og vísað er til í skýringum ráðuneytisins til mín, er gert ráð fyrir því að rekstur sjúkrahótela verði áfram „að mestu kostaður af hinu opinbera“ og innheimt sé „hóflegt gjald fyrir dvöl sjúklings á sjúkrahóteli, svo sem vegna fæðiskostnaðar, og [sé] gert ráð fyrir að það verði ákveðið í þjónustusamningi.“ (Alþt. 2001-2002, A-deild, bls. 2329-2330.)
Með vísan til framangreinds óska ég eftir að ráðuneyti yðar veiti mér nánari upplýsingar um hvernig heildarkostnaður við rekstur sjúkrahótelsins samkvæmt núgildandi samningi um sjúkrahótel var fundinn, bæði kostnaður vegna einstakra þjónustuþátta og þjónustunnar í heild ásamt þeim gögnum sem liggja til grundvallar þeim fjárhæðum sem einstaklingum er gert að greiða.
2. Með vísan til þeirra upplýsinga sem fram koma í bréfi ráðuneytisins um að hefðbundin sjúkrahúsmeðferð fari ekki fram á sjúkrahótelum og gisting á sjúkrahóteli falli utan þeirrar heilbrigðisþjónustu sem ríkisvaldinu er skylt að sjá almenningi fyrir óska ég sérstaklega eftir að ráðuneytið lýsi þeim lagasjónarmiðum sem liggja að baki þeim greinarmun sem gerður er í innheimtu gjalda eftir því hvort um er að ræða gesti sem dvelja þar vegna veikinda sinna, aðstandendur eða erlenda ríkisborgara. Ég tek fram að af bréfi ráðuneytisins til mín frá 31. maí sl. verður ráðið að hæstu gjöldin séu innheimt af þeim erlendu ríkisborgurum sem eru ekki sjúkratryggðir hér á landi. Með vísan til sjónarmiða ráðuneytisins um að rekstur sjúkrahótela falli utan almennrar heilbrigðisþjónustu vek ég sérstaklega athygli á því að réttur til sjúkratrygginga tekur samkvæmt 3. mgr. 37. gr. laga nr. 100/2007 „til heilbrigðisþjónustu, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, sem ákveðið hefur verið með lögum, reglugerðum eða samningum að veita á kostnað ríkisins eða með greiðsluþátttöku ríkisins“.
3. Í ljósi þess að bæði samningur heilbrigðisráðuneytisins og Landspítala-háskólasjúkrahúss um sjúkrahótel, svo og þjónustusamningur sjúkrahússins við Fosshótel ehf. gera samkvæmt orðalagi sínu ráð fyrir að hærra gjald sé innheimt af erlendum ríkisborgurum óska ég jafnframt sérstaklega að mér verði gerð grein fyrir því hvort og þá með hvaða hætti greint er í framkvæmd á milli þeirra erlendu ríkisborgara sem falla undir sjúkratryggingar almannatrygginga samkvæmt V. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og þeirra sem falla utan sjúkratrygginga.
4. Samkvæmt þeim upplýsingum sem raktar eru í bréfi ráðuneytisins eru það einstaklingar sem eru til meðferðar á sjúkrahúsum sem nýta sér þjónustu á sjúkrahóteli. Ég óska því eftir upplýsingum um hvar þeir einstaklingar sem voru á sjúkrahóteli 1. ágúst sl. dvöldu áður en þeir fengu inni á sjúkrahóteli og jafnframt hvar þeir myndu dvelja nú ef sjúkrahótel væri ekki starfrækt.
5. Ég óska einnig eftir að mér verði veittar upplýsingar um hvort þeir sem gista á sjúkrahóteli hafi val um mismunandi þjónustuform, þ.e. hvort einstaklingum er í sjálfsvald sett hvort þeir nýta sér umrædda þjónustu, og er ég þá sérstaklega að líta til þess hóps sem af heilsufarsástæðum eða vegna fjarlægðar við heimili getur ekki dvalið heima hjá sér á meðan meðferð stendur.
6. Í grein 3.2. í þjónustusamningi Fosshótela ehf. og Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH) kemur fram að „læknar og hjúkrunarfræðingar á LSH [vísi] einstaklingum til dvalar á hótelinu“ og að „forstöðumaður sjúkrahótelsins [skuli] vera í samstarfi við aðrar heilbrigðisstofnanir um dvöl einstaklinga á hótelinu“. Kemur þar jafnframt fram að forstöðumaður meti og ákveði „á faglegum forsendum í samráði við lækna og hjúkrunarfræðinga hver fær gistingu á sjúkrahótelinu“. Þá segir í grein 3.1. að hjúkrunarforstjóri LSH sé „ábyrgur fyrir faglegu starfi sjúkrahótelsins“.
Með vísan til þess sem rakið er í greinum 3.1. og 3.2. fyrrnefnds samnings óska ég eftir því að ráðuneytið upplýsi mig um þær faglegu forsendur sem liggja til grundvallar mati á því hver fær gistingu á sjúkrahótelinu og þá einnig að mér verði veittar upplýsingar um það faglega starf sem fram fer innan sjúkrahótelsins í merkingu tilvitnaðs samningsákvæðis.“
Umboðsmaður ítrekaði fyrirspurnir sínar með bréfi, dags. 10. september 2007. Svar barst frá heilbrigðisráðuneytinu með bréfi, dags. 5. nóvember 2007, og segir eftirfarandi í svari ráðuneytisins varðandi fyrstu spurningu umboðsmanns:
„Við ákvörðun á heildarkostnaði við rekstur sjúkrahótelsins er annars vegar byggt á launakostnaði og hins vegar öðrum stærri kostnaðarliðum, eins og húsnæðis- og fæðiskostnaði. Við útreikning á launakostnaði er tekið tillit til fjölda starfsfólks sem starfar á sjúkrahótelinu og þeirra ákvæða sem gilda um viðkomandi stéttir í kjarasamningum. Við ákvörðun á fjárhæð annarra stærri kostnaðarliða er byggt á útreikningi á þeim kostnaði sem hlýst af því að veita þjónustuna. Ef ekki er unnt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði, er byggt á skynsamlegri áætlun. Aðrir stærri kostnaðarliðir eru eftirfarandi:
Fæðiskostnaður. Við ákvörðun fæðiskostnaðar er tekið mið af kostnaði fyrra árs og hann framreiknaður.
Húsnæðiskostnaður. Fyrirfram var samið um þennan kostnaðarlið.
Annar rekstrarkostnaður. Við ákvörðun rekstrarkostnaðar er tekið mið af rekstrarkostnaði fyrra árs og hann framreiknaður.
Óvæntur kostnaður. Við ákvörðun kostnaðar er tekið mið af óvæntum útgjöldum fyrra árs og þau framreiknuð.
Samkvæmt þjónustusamningi Fosshótela ehf. og Landspítala skuldbindur síðarnefndi sig til að greiða Fosshótelum ehf. kr. 70.800.000 árlega fyrir húsnæði og aðra þjónustu sem tilgreind er í samningnum. Samkvæmt samningnum er Fosshótelum ehf. heimilt að innheimta gjöld af þeim sem gista á hótelinu og þar eru tilgreindar þær fjárhæðir sem Fosshótelum ehf. er heimilt að innheimta. Ef litið er til þeirra forsendna sem fulltrúar Landspítala gengu út frá við gerð samnings við Fosshótel má sjá að gert er ráð fyrir framlagi í formi þjónustugjalda að upphæð kr. 10.000.000. Rekstrargjöld (fæðis- og húsnæðiskostnaður) eru ákvörðuð kr. 50.000.000. Af þessum tölum má sjá að niðurgreiðsla ríkisins vegna fæðis- og húsnæðisþjónustu fyrir einstaklinga sem gista á sjúkrahóteli nemur alls kr. 40.000.000. Ekki er innheimt gjald fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er gestum sjúkrahótels.“
Svar ráðuneytisins við annarri spurningu umboðsmanns Alþingis hljóðaði svo:
„Eins og greint var frá í bréfi ráðuneytisins, dags. 31. maí 2007, er gisting á sjúkrahóteli viðbótarþjónusta sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Landspítali hafa í sameiningu ákveðið að styrkja. Þrátt fyrir að hefðbundin sjúkrahúsmeðferð fari ekki fram á sjúkrahótelinu er þar veitt heilbrigðisþjónusta til þeirra sem á henni þurfa að halda. Gisting á sjúkrahóteli er í þeim tilvikum aukaþjónusta sem kemur til viðbótar við þá þjónustu sem lögskylt er að veita.
Í þjónustusamningi Fosshótela ehf. og Landspítala er gert ráð fyrir að gestir greiði kr. 800 fyrir sólarhringsvistun á sjúkrahóteli. Með gesti í samningnum er átt við sjúkratryggða einstaklinga sem vísað er á sjúkrahótel af lækni eða hjúkrunarfólki. Í flestum tilvikum þurfa þessir einstaklingar á heilbrigðisþjónustu að halda sem veitt er á sjúkrahótelinu, eins og fyrr segir, og skylt er að veita skv. lögum nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Það var mat samningsaðila á þeim tíma sem samningurinn var gerður að gjald fyrir gistinguna skyldi vera kr. 800. Athygli er vakin á að inni í gjaldinu er ekki gert ráð fyrir kostnaði vegna veittrar heilbrigðisþjónustu.
Með erlendum ríkisborgurum er átt við þá einstaklinga sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um almannatryggingar og sem milliríkjasamningar um almannatryggingar taka ekki til. Eðli máls samkvæmt geta þarna einnig fallið undir íslenskir ríkisborgarar. Samkvæmt b-lið 16. gr. reglugerðar nr. 1076/2006 þurfa ósjúkratryggðir einstaklingar að greiða kr. 4.400 fyrir vitjun annarra en lækna á heilsugæslustöð. Með hliðsjón af framangreindu ákvæði og að ekki er gert ráð fyrir að þessir einstaklingar greiði sérstakt gjald fyrir heilbrigðisþjónustu, sem veitt er á sjúkrahóteli, var það mat samningsaðila, á þeim tíma sem samningur var gerður, að gjald fyrir erlenda ríkisborgara skyldi vera kr. 5000. Ósjúkratryggðir einstaklingar sem falla undir milliríkjasamninga greiða sama gjald og gestir, þ.e. sjúkratryggðir einstaklingar, sbr. reglugerð nr. 1076/2006.
Í undantekningartilvikum er aðstandendum gesta heimilt að gista á sjúkrahótelinu. Það var mat samningsaðila, á þeim tíma sem samningur var gerður, að gjald skyldi vera kr. 2500. Er þá miðað einungis við fæðis- og húsnæðiskostnað.“
Í svari heilbrigðisráðuneytisins sagði eftirfarandi vegna þriðju spurningar umboðsmanns:
„Eins og áður hefur komið fram er sjúkrahóteli skv. samningi heimilt að innheimta hærra gjald af erlendum ríkisborgurum fyrir gistingu á sjúkrahótelinu. Með erlendum ríkisborgurum í samningnum er átt við ósjúkratryggða einstaklinga skv. lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar og milliríkjasamningum um almannatryggingar. Eðli máls samkvæmt geta þarna fallið undir íslenskir ríkisborgarar. Jafnframt er athygli vakin á að erlendir ríkisborgarar geta verið sjúkratryggðir ef þeir uppfylla skilyrði V. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar og ákvæði milliríkjasamninga.“
Ráðuneytið sagði eftirfarandi vegna fjórðu spurningar umboðsmanns:
„Þann 1. ágúst s.l. dvöldu 28 einstaklingar á sjúkrahótelinu. Af 28 gestum sjúkrahótelsins komu 9 einstaklingar frá heimilum sínum og 19 einstaklingar frá Landspítala. Þessir einstaklingar voru annað hvort í meðferð á dag- og göngudeildum Landspítala eða að jafna sig eftir meðferð/aðgerð sem framkvæmd var á Landspítala.
Ef sjúkrahótel hefði ekki verið starfrækt í ágúst s.l. má gera ráð fyrir að hluti gestanna hefði dvalið heima hjá sér eða hjá ættingjum eða vinum. Þá má gera ráð fyrir að þeir hefðu þegið þjónustu heimahjúkrunar. Ef einstaklingur hefur hins vegar verið ófær um að búa einn vegna veikinda eða heilsubrests, má gera ráð fyrir að hann hefði dvalið áfram á Landspítala eða verið lagður þar inn.“
Svar ráðuneytisins við fimmtu spurningu umboðsmanns Alþingis hljóðaði svo:
„Samkvæmt þjónustusamningnum er sjúkrahótel dvalarstaður einstaklinga sem eru til rannsóknar eða meðferðar og geta eigi dvalist í heimahúsum vegna fjarlægðar eða heimilisaðstæðna. Jafnframt segir í samningi að aðstandendum eða fylgdarmönnum gesta, sem þurfa nauðsynlega á aðstoð og stuðningi þeirra að halda, sé heimilt að dvelja á sjúkrahótelinu. Einstaklingar fá einungis vist á sjúkrahóteli hafi læknir og/eða hjúkrunarfræðingur vísað viðkomandi til dvalar á sjúkrahótelinu. Einstaklingurinn á þó val og er í sjálfsvald sett hvort hann dvelji á sjúkrahóteli eða heima hjá sér. Þeir einstaklingar sem kjósa að dvelja heima hjá sér eiga kost á að fá heimahjúkrun frá heilsugæslustöð. Markmið heimahjúkrunar er að veita einstaklingshæfa og faglega heimahjúkrun og gera þeim sem þjónustunnar njóta kleift að búa heima við sem eðlilegastar aðstæður þrátt fyrir veikindi og heilsubrest. Landspítali hefur jafnframt umsjón með og rekur nokkrar íbúðir í eigu félagasamtaka til afnota fyrir sjúklinga sem dvelja þurfa langdvölum fjarri heimahögum vegna meðferðar á Landspítalanum. Landspítalinn heldur utan um biðlista eftir þessum íbúðum, en færri komast að en vilja.“
Að lokum sagði eftirfarandi í svari ráðuneytisins vegna sjöttu spurningar umboðsmanns:
„Eftirfarandi einstaklingum býðst dvöl á sjúkrahótelinu:
Fólki utan að landi sem er að leita sér lækninga, meðferðar, eftirlits eða er til rannsókna. Sjúklingum sem útskrifast frá sjúkrahúsum eða þeim sem eru að bíða eftir sjúkrahúsdvöl og geta einhverra hluta vegna ekki verið heima.
Þeim sem þurfa á skammtíma hvíldarvistun að halda. Aðstandendur og fylgdarmenn geta einnig gist á sjúkrahótelinu.
Gestir sjúkrahótelsins þurfa að vera að mestu sjálfbjarga með að komast fram úr rúmi og að sinna daglegum athöfnum.
Hjúkrunarfræðingar starfa við sjúkrahótelið. Þeir veita hjúkrunarráðgjöf ásamt því að sinna ýmsum hjúkrunarmeðferðum, s.s. sárameðferðum, saumtökum eftir aðgerðir, aðstoð við athafnir daglegs lífs og aðstoð við lyfjagjafir. Einnig eru á staðnum aðstoðarmenn sem sinna þrifum, störfum í matsal og fleiru. Enginn starfsmaður er á vakt á sjúkrahótelinu frá kl. 22:00 til 8:00 en hjúkrunarfræðingur er á bakvakt.
Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að svara erindinu. Athygli er vakin á að ráðuneytið hyggst beita sér fyrir endurskoðun á þjónustusamningi um sjúkrahótel.“
IV. Álit umboðsmanns Alþingis.
1. Afmörkun athugunar.
Eins og áður er komið fram hef ég ákveðið í ljósi skýringa heilbrigðisráðuneytisins að afmarka umfjöllun mína um mál þetta einkum við það almenna atriði hvort að lögum sé heimilt að innheimta gjöld fyrir gistingu á sjúkrahóteli Landspítalans að Rauðarárstíg 18 í Reykjavík, sjá kafla IV.2 og IV.3. Þá mun ég í kafla IV.4 fjalla um afstöðu ráðuneytisins til þess hvernig ákvarðað er hverjum skuli vísað á sjúkrahótelið. Í kafla IV.5 fjalla ég síðan um sjónarmið að baki ákvörðun um töku hærra gjalds af ósjúkratryggðum einstaklingum fyrir dvöl á sjúkrahótelinu. Í kafla IV.6 vík ég loks að réttarstöðu A í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram koma í álitinu.
2. Er gjaldtaka fyrir gistingu á sjúkrahóteli undirorpin almennum reglum stjórnsýsluréttar um gjaldtöku hins opinbera?
Eins og fram er komið í kafla II byggist rekstur sjúkrahótels að Rauðarárstíg 18 í Reykjavík á sérstökum samningi Landspítalans og Fosshótela ehf. Samningurinn var gerður í desember 2004 og gildir frá upphafi árs 2005 til loka árs 2009. Af efni samningsins leiðir að Fosshótel ehf. skuldbinda sig til að láta Landspítalanum í té tiltekið húsnæði og þá aðstöðu sem því tilheyrir, s.s. rúm og annan húsbúnað, og að þessi aðstaða verði nýtt undir rekstur á sjúkrahóteli. Yfir sumartímann er sjúkrahótel rekið á fjórðu hæð húsnæðisins en yfir veturinn fer rekstur þess fram bæði á þriðju og fjórðu hæð. Fosshótel ehf. reka sjálf hótel í öðrum hlutum húsnæðisins. Þá sjá Fosshótel ehf. gestum sjúkrahótels fyrir fæði.
Í umræddum samningi Landspítalans og Fosshótela kemur fram að á sjúkrahóteli sé veitt þjónusta til einstaklinga sem eru til rannsóknar eða meðferðar, geta eigi dvalist í heimahúsum vegna fjarlægðar eða heimilisaðstæðna og þurfa heilsu sinnar eða aðstandenda vegna á skammtímaúrræði að halda, oftast skemur en fjórar vikur. Jafnframt kemur fram í samningnum að aðstandendum eða fylgdarmönnum gesta sem þurfa nauðsynlega á stuðningi og aðstoð þeirra að halda sé heimilt að dvelja á sjúkrahótelinu. Þá fá einstaklingar aðeins vist á sjúkrahóteli hafi læknir eða hjúkrunarfræðingur vísað viðkomandi til dvalar þar. Á sjúkrahóteli er veittur stuðningur og hjúkrunarráðgjöf auk þess sem gestum hótelsins er liðsinnt við að sækja heilbrigðisþjónustu.
Af grein 3 í samningnum leiðir að starfsmenn Landspítalans sinna faglegri stjórnun og skipulagningu starfs á sjúkrahótelinu og að þeir starfsmenn sem þar starfa, til að mynda við þrif og umönnun gesta, eru starfsmenn spítalans. Í skýringum heilbrigðisráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis kemur ennfremur fram að með gesti sjúkrahótels sé átt við sjúkratryggðan einstakling sem vísað er á sjúkrahótel af lækni eða hjúkrunarfólki. Í flestum tilvikum þurfi þessir einstaklingar á heilbrigðisþjónustu að halda sem veitt sé á sjúkrahótelinu og skylt er að veita samkvæmt lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Þá kemur ennfremur fram í skýringum ráðuneytisins að þrátt fyrir að hefðbundin sjúkrahúsmeðferð fari ekki fram á sjúkrahótelinu sé þar veitt heilbrigðisþjónusta til þeirra sem þurfi á henni að halda. Gisting á sjúkrahóteli sé í þeim tilvikum aukaþjónusta sem komi til viðbótar við þá þjónustu sem lögskylt sé að veita.
Samkvæmt framangreindu sjá Fosshótel ehf. Landspítalanum fyrir húsnæði til að reka umrætt sjúkrahótel, auk þess sem félagið sér gestum sjúkrahótelsins fyrir fullu fæði. Fyrir þetta greiða stjórnvöld Fosshótelum ehf. umsamda fjárhæð. Rekstur sjúkrahótelsins, ákvörðun um það hverjir þar dvelja hverju sinni og hversu lengi, starfsmannahald, og önnur þjónusta við gesti sjúkrahótels en framreiðsla matar, fer fram á vegum og á forræði Landspítalans. Ég legg á það sérstaka áherslu að í skýringum heilbrigðisráðuneytisins er, eins og fyrr greinir, tekið fram að gestir þurfi í flestum tilvikum á heilbrigðisþjónustu að halda sem veitt er á sjúkrahótelinu „og skylt er að veita samkvæmt lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu“, eins og segir orðrétt í skýringum ráðuneytisins. Á hinn bóginn sé sá þáttur í dvöl sjúklings á sjúkrahótelinu sem telst vera „gisting“, þ.e. einkum fæði og húsnæði, „aukaþjónusta sem komi til viðbótar við þá þjónustu sem lögskylt sé að veita“.
Ég skil ofangreindar skýringar heilbrigðisráðuneytisins þannig að umrædd gjaldtaka samkvæmt þjónustusamningi Landspítalans og Fosshótela ehf. sé afmörkuð á grundvelli þeirra þátta í dvöl sjúklings, þ.e. gistingar, sem ekki telst heilbrigðisþjónusta sem spítalanum sé skylt að veita, þ.e. þeirrar meðferðar starfsmanna Landspítalans á sjúklingum sem fram fer á sjúkrahótelinu. Þar með lúti gjaldtakan ekki þeim almennu reglum um gjaldtöku hins opinbera sem gilda á grundvelli meginreglna stjórnsýsluréttar.
Ég er ekki sammála þessari afstöðu ráðuneytisins.
Ég minni í fyrsta lagi á það að umræddur þjónustusamningur á milli Landspítalans og Fosshótela ehf. var reistur á ákvæði 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Af þeim lagagrundvelli samningsgerðarinnar verður sú ályktun dregin að það hafi verið mat Landspítalans að efni þjónustusamningsins við Fosshótel ehf. hafi verið fólgið í „viðfangsefni eða þjónustu sem ýmist er kveðið á um í lögum að ríkið skuli veita og standa undir kostnaði af eða eru liðir í því að ríkisaðili geti rækt hlutverk sitt“, sbr. síðari málsl. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 88/1997.
Í öðru lagi bendi ég á það að í íslenskum lögum er að meginreglu á því byggt að sjúkratryggðir einstaklingar eigi rétt til sjúkrahúsvistar hér á landi og jafnframt að sú þjónusta sé greidd af sjúkratryggingum, nema að því leyti sem sérstakar lagaheimildir eru fyrir hendi til að leggja á þá gjöld hennar vegna. Er þar enginn almennur greinarmunur gerður á þeirri heilbrigðisþjónustu sem veitt er á sjúkrahúsum og þeim kostnaði sem hlýst annars af dvöl sjúklinga þar, sbr. þó komugjald vegna innlagnar á sjúkrahús og gjald vegna útgáfu læknisvottorða á sjúkrahúsum, sbr. 2. og 5. tölul. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Hér skiptir og máli að hið sama gildir að jafnaði einnig um aðra þá heilbrigðisþjónustu sem stjórnvöldum er falið að veita samkvæmt lögum, sbr. 29. gr. laga nr. 112/2008, sbr. áður lög nr. 100/2007, um almannatryggingar, og ákvæði laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, auk ákvæða í eldri lögum.
Í þriðja lagi legg ég á það áherslu að sjúkrahótelið er sá vettvangur þar sem Landspítalinn hefur valið að veita lögbundna heilbrigðisþjónustu til tiltekins hóps sjúklinga, sem þar dveljast á grundvelli læknisfræðilegs mats á þörf þeirra fyrir slíka þjónustu. Eins og fram kemur beinlínis í upphafsmálslið greinar 1.1 í inngangi þjónustusamningsins veitir sjúkrahótelið þjónustu til einstaklinga sem „þurfa heilsu sinnar vegna eða aðstandenda vegna á skammtímaúrræði að halda, oftast skemur en fjórar vikur, og eru til rannsóknar eða meðferðar og geta því eigi dvalist í heimahúsum vegna fjarlægðar eða heimilisaðstæðna“. Sömu forsendur koma fram í grein 1.1., undir liðnum „Þjónusta sem samið er um“ í fjármögnunarsamningi heilbrigðisráðuneytisins og Landspítalans um sjúkrahótel frá 19. apríl 2005. Þótt þeir sjúklingar, sem í hlut eiga, þurfa almennt ekki að vera vistaðir á sjúkrahúsi, verður þannig ekki önnur ályktun dregin af skýrum ákvæðum þjónustusamningsins en að þeim sé hins vegar vegna annarra atvika nauðsyn á því að dveljast á sjúkrahótelinu til að njóta þeirrar lögmæltu heilbrigðisþjónustu í formi rannsóknar og meðferðar sem Landspítalanum er að lögum skylt að veita.
Samkvæmt öllum framangreindum röksemdum er það niðurstaða mín að leggja verði til grundvallar í ljósi efnisákvæða þjónustusamnings Landspítala og Fosshótela ehf. og þess lagagrundvallar, sem hann er reistur á, að gisting sjúklinga á sjúkrahótelinu sé í slíkum beinum og órjúfanlegum tengslum við þá lögskyldu og opinberu heilbrigðisþjónustu sem þar er veitt af hálfu starfsmanna Landspítalans, sem jafnframt er eini tilgangur hlutaðeigandi sjúklinga fyrir dvöl þar, að gjaldtaka fyrir gistingu á sjúkrahótelinu verði eins og atvikum er háttað að teljast undirorpin almennum reglum um gjaldtöku hins opinbera.
Með þessar forsendur í huga mun ég nú víkja að þeim lagareglum og sjónarmiðum sem við eiga um gjaldtöku vegna þjónustu af því tagi sem hér um ræðir.
3. Lagagrundvöllur fyrir rekstri sjúkrahótels og töku gjalda vegna dvalar þar.
Þegar umboðsmanni Alþingis barst sú kvörtun sem hér er til umfjöllunar voru hvorki í lögum sérstök ákvæði um sjúkrahótel né um greiðsluþátttöku einstaklinga vegna gistingar á slíkum stöðum í tengslum við læknismeðferð á Landspítalanum eða öðrum heilbrigðisstofnunum. Í eldri lögum var á hinn bóginn að finna ákvæði sem lutu að starfsemi gistiheimila eða sjúkraheimila, sem flokkuð voru sem ein tegund sjúkrahúsa, og þjónuðu svipuðu hlutverki og sjúkrahótelið að Rauðarárstíg 18 í Reykjavík gerir nú. Slík ákvæði var að finna í 7. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 56/1973, um heilbrigðisþjónustu, 7. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 57/1978, um heilbrigðisþjónustu, 6. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu og 8. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu.
Með 9. gr. laga nr. 148/2001, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var þágildandi 8. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 97/1990 felldur úr gildi. Í athugasemdum sem fylgdu umræddu ákvæði í frumvarpi því sem síðan varð að lögum nr. 148/2001 sagði svo um ástæður þeirrar ráðstöfunar:
„Lagt er til að 8. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, þar sem sjúkraheimili, eða sjúkrahótel, eru felld undir skilgreiningu á sjúkrahúsi, verði felldur brott. Hefðbundin sjúkrahúsmeðferð fer ekki fram á sjúkrahótelum, en þeir sem þar dvelja eru til meðferðar á sjúkrahúsi eða annarri heilbrigðisstofnun. Því verður að telja óeðlilegt að skilgreina sjúkrahótel sem sjúkrahús. Rekstur sjúkrahótela er að mestu kostaður af hinu opinbera og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Eðlilegt þykir þó að unnt sé að innheimta hóflegt gjald fyrir dvöl sjúklings á sjúkrahóteli, svo sem vegna fæðiskostnaðar, og er gert ráð fyrir að það verði ákveðið í þjónustusamningi. Með því að breyta skilgreiningu sjúkrahúsa á þann veg að sjúkraheimili, eða sjúkrahótel, falli ekki undir sjúkrahús eru tekin af tvímæli um að slík innheimta sé heimil.“ (Alþt. 2001-2002, A-deild, bls. 2329-2330)
Lög nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum, hafa nú verið felld úr gildi með lögum nr. 40/2007, um sama efni. Þau tóku gildi 1. september 2007. Í gildandi lögum er ekki að finna ákvæði um sjúkraheimili eða sjúkrahótel.
Sjúkraheimili eða sjúkrahótel voru þannig samkvæmt ofangreindu talin til sjúkrahúsa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu um alllangan tíma og allt til gildistöku laga nr. 148/2001. Af því leiddi ennfremur að þjónusta þar var veitt á sömu forsendum og á öðrum sjúkrahúsum, þar á meðal um gjaldtöku fyrir dvöl á viðkomandi stofnun. Með 9. gr. laga nr. 148/2001 voru sjúkraheimili, öðru nafni sjúkrahótel, felld undan skilgreiningu á hugtakinu sjúkrahús og var samkvæmt athugasemdum með frumvarpi til laganna gengið út frá því að með þeirri breytingu yrði um leið heimilt að innheimta af gestum slíkra dvalarstaða hóflegt gjald, svo sem vegna fæðiskostnaðar, og jafnframt að kveðið yrði á um slíka gjaldtöku í þjónustusamningi. Ég ítreka hins vegar að í athugasemdunum var sérstaklega áréttað að „[rekstur sjúkrahótela [yrði] að mestu kostaður af hinu opinbera og [væri] gert ráð fyrir að svo [yrði] áfram“.
Með þetta í huga tel ég ekki tilefni til athugasemda við þá ákvörðun stjórnvalda að gera á grundvelli 30. gr. laga nr. 88/1997 samning við einkaaðila um afnot af húsnæði til að reka þar sjúkrahótel og jafnframt um tiltekna aðkomu slíkra aðila að rekstri þess enda sé öðrum skilyrðum fullnægt, m.a. um fjárheimildir og efni samnings. Hins vegar getur niðurstaða um það hvort stjórnvöldum sé heimilt að ákveða á þessum grundvelli að einstaklingum sé gert að greiða tiltekið gjald fyrir gistingu á sjúkrahóteli ekki einvörðungu ráðist af þeim lagagrundvelli eða sjónarmiðum sem lýst er í greinargerð með frumvarpi því sem síðan varð að lögum nr. 148/2001.
Eins og fram hefur komið í álitum umboðsmanns Alþingis er það meginregla um starfsemi ríkisins, þ.m.t. þjónustustarfsemi sem það rekur eða annast, að notendur þjónustunnar og borgararnir almennt eiga ekki að þurfa að greiða sérstakt endurgjald til ríkisins vegna hennar nema skýr fyrirmæli séu um slíkt í settum lögum. Þessi regla leiðir af meginreglum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og almennum reglum stjórnsýsluréttar um að gjaldtaka ríkisins skuli byggjast á lagaheimildum. Þegar gjaldtaka fer fram í beinu og almennu tekjuöflunarskyni fyrir ríkissjóð leiðir af stjórnarskránni að gera verður ríkar kröfur til þess að Alþingi hafi ákveðið slíka gjaldtöku með skýrum og afdráttarlausum hætti. Þegar viðkomandi gjaldtöku er einungis ætlað að standa straum af kostnaði við að veita ákveðna opinbera þjónustu sem veitt er á grundvelli laga er aftur á móti almennt ekki áskilið annað en að í lagaheimild komi fram sú afstaða Alþingis að slík gjaldtaka sé heimil.
Ég minni á þá niðurstöðu mína í kafla IV.2. hér að framan að ekki verði önnur ályktun dregin af efnisákvæðum þjónustusamningsins og þeim lagagrundvelli, sem hann er reistur á, að gisting sjúklinga á sjúkrahótelinu sé í slíkum beinum og órjúfanlegum tengslum við þá lögskyldu og opinberu heilbrigðisþjónustu sem þar er veitt af hálfu Landspítalans, sem jafnframt er eini tilgangur hlutaðeigandi sjúklinga fyrir dvöl þar, að gjaldtaka fyrir gistingu á sjúkrahótelinu verði eins og atvikum er háttað að teljast undirorpin almennum reglum um gjaldtöku hins opinbera. Að þessu virtu tel ég að gjaldtaka fyrir gistingu á sjúkrahótelinu verði í samræmi við þær grundvallarreglur um töku þjónustugjalda, sem að framan eru raktar, að byggja á viðhlítandi lagaheimild. Þar dugar ekki ein og sér ráðagerð löggjafans í lögskýringargögnum um að heimilt verði að taka gjald af þeim sem gista á sjúkrahóteli, eins og fram kemur í athugasemdum greinargerðar að baki 9. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 148/2001, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem að framan er vísað til.
Þar sem gisting á sjúkrahótelinu að Rauðarárstíg 18 telst liður í þeim lögbundnu verkefnum sem Landspítalinn sinnir verður nánar tiltekið ekki á það fallist að gjaldtaka fyrir umrædda gistingu verði byggð á þeim sjónarmiðum eða ólögfestu heimildum sem heilbrigðisráðuneytið hefur að öðru leyti vísað til í máli þessu. Til að taka gjalda fyrir þá þjónustu sem hér um ræðir teljist heimil, og fullnægir kröfum um lögbundna stjórnsýslu, verður Alþingi með settum lögum að taka skýra afstöðu til gjaldtöku fyrir gistingu á sjúkrahóteli, og þá þannig að ráðið verði af lagaheimildinni með túlkun hvaða kostnaðarliðir verði lagðir til grundvallar við útreikning gjalda vegna þess þáttar í dvöl sjúklings á sjúkrahótelinu sem um ræðir.
Ég ítreka að af hálfu heilbrigðisráðuneytisins er í skýringum til umboðsmanns Alþingis ekki vísað til neinna ákvæða í almennum lögum, sem birt eru í samræmi við grundvallarreglu 27. gr. stjórnarskrárinnar, sem fela í sér heimild til að taka gjald fyrir gistingu sjúklings á sjúkrahóteli þar sem veitt er samkvæmt þjónustusamningi stjórnvalda og einkaaðila lögboðin heilbrigðisþjónusta í merkingu ákvæða 1. tölul. 4. gr. laga nr. 40/2007 og 3. tölul. 3. gr. laga nr. 112/2008. Ummæli í lögskýringargögnum duga þar ekki ein og sér. Það er því niðurstaða mín að hvað sem líður þeim sjónarmiðum sem fram koma í lögskýringargögnum að baki 9. gr. laga nr. 148/2001 sé ekki til að dreifa viðhlítandi lagaheimild fyrir þeirri gjaldtöku sem mælt er fyrir um í umræddum samningi Landspítalans og Fosshótela ehf.
Með vísan til þessarar niðurstöðu minnar er ekki tilefni til að víkja í áliti þessu nánar að fjárhæð þeirra gjalda sem stjórnvöld hafa miðað við að félaginu Fosshótelum ehf. sé heimilt að innheimta. Sama gildir almennt um aðra þætti, s.s. útfærslu gjaldtökunnar eða ráðstöfunar á þeim fjármunum sem innheimtir eru.
Vegna þeirra skýringa sem heilbrigðisráðuneytið hefur látið umboðsmanni Alþingis í té vegna máls þessa hef ég þó ákveðið að víkja nokkrum orðum að þeim sjónarmiðum og viðhorfum sem þar koma fram og ég tel sérstaka ástæðu til að gera athugasemdir við.
4. Um afstöðu stjórnvalda til þess
hverjum er vísað til dvalar á sjúkrahóteli.
Í 18. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, kemur fram að „sjúkratryggingar [taki] til ókeypis vistar að ráði læknis í sjúkrahúsum sem rekin eru af ríkinu eða samkvæmt samningum skv. IV. kafla, þ.m.t. á fæðingarstofnunum, sbr. þó 23. gr., 2. tölul. 1. mgr. 29. gr. eða ákvæði sérlaga. Skal sjúkrahúsvist tryggð eins lengi og nauðsyn krefur ásamt læknishjálp og lyfjum og annarri þjónustu sem sjúkrahús veitir“. Af þessu ákvæði leiðir að eigi einstaklingur rétt á sjúkrahúsvist samkvæmt því eða öðrum lögum verður honum ekki vísað til dvalar á sjúkrahóteli og gert að greiða sérstaklega fyrir þá dvöl, a.m.k. ekki umfram þau gjöld sem heimilt væri að innheimta af honum væri hann vistaður á sjúkrahúsi.
Eins og áður er fram komið er umfjöllun mín um mál þetta afmörkuð við það álitaefni hvort að lögum sé heimilt að innheimta gjöld fyrir gistingu á sjúkrahóteli Landspítalans að Rauðarárstíg 18 í Reykjavík. Niðurstöðu minni um að slík lagaheimild sé ekki fyrir hendi var lýst hér að framan. Í því ljósi, og einnig með vísan til þess að athugun mín á máli þessu hefur í grundvallaratriðum aðeins beinst að því hvort slík heimild sé til staðar að lögum, mun ég ekki taka það álitaefni til almennrar umfjöllunar hvort til dvalar á umræddu sjúkrahóteli hafi verið vísað sjúklingum sem að lögum hefðu átt rétt á að dvelja á sjúkrahúsi.
Ég tel þó rétt benda á að í þeim skýringum sem heilbrigðisráðuneytið hefur látið umboðsmanni Alþingis í té vegna athugunar á máli þessu, sbr. bréf, dags. 5. nóvember 2007, og í samningi stjórnvalda og Fosshótela ehf. um rekstur sjúkrahótelsins, koma fram misvísandi upplýsingar um þetta atriði. Þannig kemur fram í umræddu bréfi að einstaklingar fái einungis vist á sjúkrahóteli hafi læknir eða hjúkrunarfræðingur vísað honum til dvalar þar. Viðkomandi einstaklingur eigi þó val og sé í sjálfsvald sett hvort hann dvelji á sjúkrahóteli eða heima hjá sér. Þeir sem kjósi að dvelja heima hjá sér eigi kost á að fá heimahjúkrun frá heilsugæslustöð.
Þessar skýringar benda til þess að almennt dvelji ekki sjúklingar á sjúkrahótelinu að Rauðarárstíg 18 sem að öðru jöfnu ættu rétt til sjúkrahúsvistar. Hins vegar kemur fram í sama bréfi ráðuneytisins að ef sjúkrahótel hefði ekki verið starfrækt á umræddum tíma megi gera ráð fyrir að hluti gestanna hefði dvalið heima hjá sér eða hjá ættingjum eða vinum. Þá megi gera ráð fyrir að þeir hefðu notið heimahjúkrunar. Ef einstaklingur hefði hins vegar verið ófær um að búa einn vegna veikinda eða heilsubrests megi gera ráð fyrir að hann hefði dvalið áfram á Landspítala eða verið lagður þar inn.
Í þessu sambandi ítreka ég að í grein 1.1 í þjónustusamningi Landspítalans og Fosshótela ehf. um rekstur sjúkrahótels segir berum orðum að sjúkrahótel veiti þjónustu til einstaklinga sem þurfa heilsu sinnar eða aðstandenda vegna á skammtímaúrræði að halda, oftast skemur en fjórar vikur, og eru til rannsóknar eða meðferðar „og geta eigi dvalist í heimahúsum vegna fjarlægðar eða heimilisaðstæðna“.
Samkvæmt framangreindu er að mínu mati ekki fullt samræmi á milli skýringa ráðuneytisins og samnings stjórnvalda við Fosshótel ehf. um rekstur sjúkrahótels um það hvort til dvalar á sjúkrahóteli hafi verið vísað sjúklingum sem að lögum hefðu mögulega átt rétt til dvalar á sjúkrahúsi. Um það verður því ekki fullyrt af minni hálfu. Þau læknisfræðilegu álitaefni um heilsufar manna sem í því sambandi þurfa óhjákvæmilega að koma til skoðunar falla almennt utan þess sviðs sem umboðsmanni Alþingis er fært að leggja mat á.
Með tilliti til mikilvægis þessa sjónarmiðs tel ég hins vegar rétt að leggja áherslu á það að heilbrigðisyfirvöld gæti að því að vísa ekki einstaklingum, sem að öðru jöfnu eiga að lögum rétt á sjúkrahúsvist, til dvalar á stofnunum þar sem þeim er gert að greiða fyrir dvöl sína nema slík tilhögun sé að öðru leyti í samræmi við lög. Hið sama á eftir atvikum við um þá einstaklinga sem eru ekki sjúkratryggðir hér á landi en eiga samt sem áður rétt til sjúkrahúsvistar. Af ákvæðum laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, leiðir að um innheimtu gjalda af þeim fyrir heilbrigðisþjónustu, þar á meðal sjúkrahúsvist, fer samkvæmt reglugerð settri af ráðherra, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna. Af umræddu lagaákvæði leiðir að slíkum einstaklingum verður ekki gert að greiða frekari gjöld fyrir sjúkrahúsvist en þar er gert ráð fyrir og ákveðin hafa verið með þeim lögformlega hætti.
Ég tek fram að í ljósi þeirrar niðurstöðu minnar sem lýst var hér að framan, um skort á heimild að lögum til að innheimta gjöld fyrir gistingu á sjúkrahótelinu að Rauðarárstíg 18, hafa ofangreind sjónarmið í reynd ekki sérstaka þýðingu fyrir úrlausn um réttindi þeirra einstaklinga sem vísað hefur verið til dvalar á hótelinu hvað varðar gjaldtöku fyrir þá dvöl. Á hinn bóginn tel ég mikilvægt að setja þessar ábendingar hér fram þar sem af samningi Fosshótela ehf. og stjórnvalda sem og af skýringum heilbrigðisráðuneytisins í málinu verður ekki ráðið með fullri vissu að stjórnvöld hafi í reynd gert nægilega skýran greinarmun á þeim einstaklingum sem að lögum áttu rétt til sjúkrahúsvistar samkvæmt 18. gr. laga nr. 112/2008, og áður á grundvelli sambærilegra lagaákvæða, og svo þeim sem í reynd áttu þess kost að dvelja í heimahúsum eða hjá aðstandendum og njóta lögbundinnar heilbrigðisþjónustu þar. Að mínu mati verður sérstaklega að hafa í huga að óskýrleiki um þetta atriði í umræddum samningi, þar sem sú þjónusta sem um ræðir var útfærð af hálfu Landspítalans, getur leitt til misskilnings starfsmanna stjórnvalda um framkvæmd og tilgang þess þjónustuúrræðis sem hér er um að ræða.
5. Sjónarmið að baki ákvörðun um töku hærra gjalds af ósjúkratryggðum einstaklingum fyrir dvöl á sjúkrahóteli.
Um gjaldtöku fyrir dvöl á sjúkrahótelinu að Rauðarárstíg 18 er sérstaklega fjallað í grein 5.4 í umræddum samningi, sem hljóðar svo:
„Verksala er heimilt að innheimta kr. 800,- á sólarhring hjá hverjum gesti sem gistir á hótelinu og kr. 2.500,- á sólarhring hjá hverjum aðstandanda eða fylgdarmanni hans sem þar gistir, en gert er ráð fyrir að þeir gisti í sama herbergi og sjúklingur. Einnig er verksala heimilt að innheimta kr. 5.000,- á sólarhring hjá erlendum ríkisborgurum sem gista á sjúkrahótelinu. Gestir sjúkrahótelsins greiða sjálfir fyrir símtöl frá sjúkrahótelinu. Þeir greiða einnig fyrir lyf og hjúkrunarvörur sem þeir nota.“
Í tilvitnaðri gjaldtökuheimild er gert ráð fyrir að greiðslur vegna dvalar á sjúkrahótelinu sem innheimtar eru af verksala skiptist í þrjá flokka. Í fyrsta lagi er um að ræða sjúkratryggða einstaklinga. Af þeim er heimilt samkvæmt samningnum að innheimta 800 kr. á sólarhring fyrir dvöl á hótelinu. Í öðru lagi er heimilt að innheimta 2.500 kr. af þeim aðstandendum sjúklinga sem dveljast á hótelinu og er þá gert ráð fyrir að þeir gisti í sama herbergi og sjúklingur. Í þriðja lagi segir í tilvitnaðri grein að verksala sé heimilt að innheimta 5.000 kr. af erlendum ríkisborgurum sem þar gista. Að teknu tilliti til áðurgreindrar niðurstöðu minnar um skort á heimild til innheimtu umræddra gjalda, tel ég að í máli þessu sé hvorki tilefni til nánari umfjöllunar um tvo fyrstu gjaldflokkana samkvæmt umræddu gjaldtökuákvæði né um þær fjárhæðir sem þar eru tilgreindar.
Í bréfi heilbrigðisráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis, dags. 5. nóvember 2007, kemur eftirfarandi fram um þær forsendur sem liggja að baki gjaldtöku hjá þeim sem falla í þriðja flokkinn samkvæmt tilvitnaðri grein 5.4, þ.e. „erlendum ríkisborgurum sem gista á sjúkrahótelinu“:
„Með erlendum ríkisborgurum er átt við þá einstaklinga sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um almannatryggingar og sem milliríkjasamningar um almannatryggingar taka ekki til. [...]“
Í skýringum heilbrigðisráðuneytisins kemur síðan fram að með erlendum ríkisborgurum sé í reynd átt við þá einstaklinga sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um almannatryggingar, nú lögum um sjúkratryggingar, og sem milliríkjasamningar um almannatryggingar taka ekki til. Í bréfi ráðuneytisins, dags. 5. nóvember 2007, segir m.a. nánar svo um þetta atriði:
„Eðli máls samkvæmt geta þarna einnig fallið undir íslenskir ríkisborgarar. Samkvæmt b-lið 16. gr. reglugerðar nr. 1076/2006 þurfa ósjúkratryggðir einstaklingar að greiða kr. 4.400 fyrir vitjun annarra en lækna á heilsugæslustöð. Með hliðsjón af framangreindu ákvæði og að ekki er gert ráð fyrir að þessir einstaklingar greiði sérstakt gjald fyrir heilbrigðisþjónustu, sem veitt er á sjúkrahóteli, var það mat samningsaðila, á þeim tíma sem samningur var gerður, að gjald fyrir erlenda ríkisborgara skyldi vera kr. 5000. Ósjúkratryggðir einstaklingar sem falla undir milliríkjasamninga greiða sama gjald og gestir, þ.e. sjúkratryggðir einstaklingar, sbr. reglugerð nr. 1076/2006.“
Með hliðsjón af þessum skýringum ráðuneytisins tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við það að í áðurnefndum samningi sé einvörðungu rætt um erlenda ríkisborgara enda hef ég ekki forsendur til annars en að ætla að skýringar ráðuneytisins að þessu leyti séu réttar hvað sem líður því orðalagi sem í samningnum er notað.
Það vekur hins vegar athygli mína að samkvæmt tilvitnuðum skýringum er þeim ósjúkratryggðu einstaklingum sem hér um ræðir gert að greiða hærra gjald en öðrum sjúklingum fyrir dvöl á sjúkrahótelinu. Það er rökstutt með því að þeir þurfi ekki að greiða sérstaklega fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er á hótelinu. Í skýringum ráðuneytisins að öðru leyti kemur á hinn bóginn fram, eins og að framan er rakið, að umræddum gjöldum sé einungis ætlað að standa undir kostnaði við „gistingu“ á sjúkrahótelinu. Þá leiðir af samningnum milli stjórnvalda og Fosshótela ehf. að það er verksali sem innheimtir umrædd gjöld í þeim tilgangi að standa undir kostnaði af umræddri gistingu. Gjöldin renna því að fullu til hans en er ekki ráðstafað til að standa straum af þeirri heilbrigðisþjónustu sem umræddir einstaklingar njóta. Hef ég hér að framan miðað umfjöllun mína við þessa forsendu.
Í 2. mgr. 29. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, kemur fram að þeir sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi skuli greiða gjald sem nemur kostnaði við veitta heilbrigðisþjónustu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur nema í gildi sé samningur um þjónustuna við það ríki sem þeir koma frá. Áður var sambærilega reglu að finna í 2. mgr. 34. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Þar áður var mælt fyrir um greiðslur þeirra sem ekki voru sjúkratryggðir hér á landi fyrir heilbrigðisþjónustu í reglugerð nr. 1076/2006, um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar og greiðslur þeirra fyrir heilbrigðisþjónustuna. Kemur í reglugerðinni fram að hún sé sett með heimild í 1. og 2. mgr. 54. og 66. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og 2. mgr. 20. gr. og 35. gr. a laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlaðist gildi 1. janúar 2007.
Af áðurgildandi ákvæðum laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, leiddi ennfremur að á þeim tíma sem hinn umræddi samningur tók gildi í upphafi árs 2005 var á því byggt að heimilt væri að innheimta gjöld fyrir veitta heilbrigðisþjónustu af þeim sem ekki væri sjúkratryggður hér á landi en jafnframt að slík innheimta skyldi almennt byggð á ákvörðunum ráðherra settum með lögformlega réttum hætti.
Með hliðsjón af framangreindu fæ ég ekki séð að stjórnvöldum sé eða hafi verið heimilt að byggja ákvörðun um að taka hærra gjald af einstaklingum sem ekki njóta sjúkratrygginga hér á landi fyrir gistingu á sjúkrahóteli einvörðungu á því sjónarmiði að þar nytu þeir heilbrigðisþjónustu án endurgjalds. Að öðrum skilyrðum fullnægðum væru hér ekki fyrir hendi þau nauðsynlegu tengsl sem gera verður kröfu um að séu á milli þeirrar þjónustu sem gjaldinu er ætlað að standa straum af og þeirra kostnaðarliða sem af hálfu stjórnvalda hefur verið haldið fram að ákvörðun um fjárhæð gjaldsins byggist á. Stjórnvöldum var því ekki heimilt að ákveða, að ósjúkratryggðir einstaklingar skyldu greiða 5.000 kr. gjald á sólarhring fyrir dvöl á sjúkrahúsi, á því sjónarmiði að þeim væri þar ekki gert að greiða sérstaklega fyrir heilbrigðisþjónustu, enda var umræddri fjárhæð, eða a.m.k. mismuni á greiðslu þeirra sem njóta sjúkratrygginga og þeirra sem ekki njóta þeirra, samkvæmt skýringum heilbrigðisráðuneytisins ekki ráðstafað til greiðslu slíkrar þjónustu.
Ég tek fram í þessu sambandi að stjórnvöldum kann vissulega að vera heimilt að innheimta sérstök gjöld fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem þeir einstaklingar sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi njóta á sjúkrahótelinu. Sú gjaldtaka verður hins vegar að vera í samræmi við þau sjónarmið sem lýst hefur verið hér að framan og leiða af lögum. Með hliðsjón af þessu fæ ég ekki séð að sú mismunun sem felst í því að innheimta 5.000 kr. gjald af ósjúkratryggðum einstaklingum fyrir gistingu á sjúkrahóteli á meðan aðrir sjúklingar þar greiddu 800 kr. fyrir sömu gisting hafi byggst á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Ég legg á það áherslu að í þessu felst engin afstaða af minni hálfu til þess hvort gjaldtaka fyrir gistingu á sjúkrahóteli af sjúkratryggðum einstaklingum annars vegar og þeim sem ekki njóta slíkra trygginga hér á landi hins vegar þurfi að lögum að vera sambærileg. Afstaða mín lýtur aðeins að því að þau sjónarmið sem sú mismunun sem hér um ræðir byggist á hafi ekki verið í samræmi við lög.
6. Réttarstaða A.
Hér að framan hef ég lýst þeirri niðurstöðu minni að á skorti að innheimta gjalda fyrir gistingu á sjúkrahóteli Landspítalans að Rauðarárstíg 18 í Reykjavík, sem lýst er í samningi stjórnvalda og Fosshótela frá 23. desember 2004, sé studd viðhlítandi lagaheimild. Með vísan til þessa er það niðurstaða mín að stjórnvöldum hafi ekki að lögum verið heimilt að kveða á um það í samningi við einkaaðila að hann innheimti sérstök gjöld af gestum sjúkrahótels spítalans að Rauðarárstíg 18 í Reykjavík. Af þessu leiðir jafnframt að innheimta slíkra gjalda af A fyrir dvöl hans á sjúkrahótelinu var ekki í samræmi við lög.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, skulu stjórnvöld endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist samkvæmt lögum ásamt vöxtum, sbr. 2. gr. þeirra laga. Þá segir í 2. mgr. 1. gr. laganna að stjórnvöld skuli hafa frumkvæði að slíkum endurgreiðslum þegar þeim verður ljóst að ofgreitt hafi verið. Ég tek fram að þrátt fyrir að þær greiðslur, sem samkvæmt framangreindu var ekki heimild til að heimta af gestum sjúkrahótelsins, hafi runnið beint til einkaaðilans Fosshótela ehf., og verið innheimtar af honum, útilokar það eitt ekki skyldu stjórnvalda til að leiðrétta hlut þeirra einstaklinga sem um ræðir enda byggði umrædd gjaldtaka á þjónustusamningi viðkomandi einkaaðila við stjórnvöld sem reistur var á 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Á þessu stigi máls þessa verður það hins vegar að vera ákvörðunaratriði heilbrigðisráðuneytisins hvort og þá með hvaða hætti staða þeirra einstaklinga sem um ræðir, eins og A, verði leiðrétt og þá á hvaða lagagrundvelli.
Í kvörtun A er því sérstaklega lýst að eftir að hann dvaldi á sjúkrahótelinu vegna bílslyss hafi hann verið krafinn um greiðslu fyrir fjögurra sólarhringa dvöl á hótelinu þrátt fyrir að hafa aðeins dvalið þar í tvo sólarhringa. Eins og leiðir af afmörkun minni á umfjöllun um mál þetta tel ég að ekki sé tilefni til þess af minni hálfu að taka þennan þátt málsins til sérstakrar umfjöllunar.
V. Niðurstöður.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að ekki hafi verið til að dreifa viðhlítandi lagaheimild fyrir því fyrirkomulagi í samningi Landspítalans og Fosshótela ehf. frá 23. desember 2004, að verksala væri heimilt að innheimta gjöld af gestum sjúkrahótels Landspítalans að Rauðarárstíg 18 í Reykjavík fyrir gistingu á hótelinu. Þá er það niðurstaða mín að það fyrirkomulag þjónustusamningsins að innheimta 5.000 kr. gjald af ósjúkratryggðum einstaklingum fyrir gistingu á sjúkrahótelinu, á meðan sjúkratryggðir sjúklingar greiddu 800 kr. fyrir sambærilega þjónustu, hafi ekki verið í samræmi við lög.
Í bréfi heilbrigðisráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis, dags. 5. nóvember 2007, er vakin athygli á því að ráðuneytið hyggist beita sér fyrir endurskoðun á þjónustusamningi um sjúkrahótel. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað hjá ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins við athugun mína á máli þessu hefur umræddur þjónustusamningur Landspítalans og Fosshótela ehf. ekki verið endurskoðaður þegar þetta álit er ritað.
Ég beini þeim tilmælum til heilbrigðisráðuneytisins að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir til að endurskoða lagagrundvöll þeirrar gjaldtöku sem byggt er á í þjónustusamningi Landspítalans og Fosshótela ehf., sem fjallað hefur verið um í áliti þessu, og þá eftir atvikum með því að leita eftir því á vettvangi Alþingis að tryggð verði viðhlítandi lagastoð fyrir því fyrirkomulagi, sem samningurinn mælir fyrir um, ef ákveðið er að viðhalda því. Í þessu sambandi minni ég á að samkvæmt ákvæðum umrædds þjónustusamnings rennur hann út 31. desember nk.
Að lokum beini ég þeim tilmælum til ráðuneytisins að mál A verði tekið til umfjöllunar í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í kafla IV.6 hér að framan, komi fram beiðni þess efnis frá honum.
Undirritaður hefur sem settur umboðsmaður Alþingis í leyfi kjörins umboðsmanns farið með mál þetta frá 1. janúar 2009.
Róbert R. Spanó.
VI. Viðbrögð stjórnvalda.
Ég ritaði heilbrigðisráðherra, dags. 12. febrúar 2010, þar sem ég óskaði upplýsinga um hvort framangreint álit mitt hefði orðið tilefni til einhverra sérstakra ráðstafana hjá heilbrigðisráðuneytinu og þá í hverju þær ráðstafanir hefðu falist.
Í svarbréfi heilbrigðisráðuneytisins, dags. 5. mars 2010, kemur fram að með lögum nr. 131/2009 um breytingu á lögum nr. 112/2008, sem tóku gildi 18. desember 2009, hafi verið lögfest heimild til töku gjalds fyrir dvöl sjúklinga á sjúkrahóteli. Þá kemur fram að í ráðuneytinu sé unnið að gerð reglugerðar um sjúkrahótel og ráðgert sé að birta hana á næstu vikum. Umrædd reglugerð nr. 207/2010 um gjald fyrir dvöl á sjúkrahóteli var birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. mars 2010.
Í símtali starfsmanns míns við starfsmann heilbrigðisráðuneytisins 2. júlí 2010 kom jafnframt fram að A hefði hringt og spurst fyrir um endurgreiðslur vegna gjalda sem hann greiddi en ekki lagt fram skriflegt erindi. Þá kom fram að unnið væri að fyrirkomulagi almennra endurgreiðslna til þeirra sem hefðu ofgreidd gjöld á sjúkrahótelinu.