A kvartaði yfir skilyrði sem sett hafði verið af hálfu stjórnvalda við þátttöku í forvali til útboðs um kaup á útlánasafni og yfirtöku á helstu skuldum Lánasjóðs landbúnaðarins, þess efnis að þátttakandi skyldi hafa alþjóðlegt lánshæfismat. A hafði sótt um að taka þátt í forvalinu en verið synjað. Taldi A að með þessu hefði verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993.
Umboðsmaður lauk athugun sinni með bréfi til A, dags. 13. júní 2007. Þar rakti hann ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 68/1987, um Lánasjóð landbúnaðarins, eins og því var breytt með 1. gr. laga nr. 68/2005, þar sem kveðið var á um að starfsemi sjóðsins yrði hætt og um heimild landbúnaðarráðherra til sölu eigna og skulda lánasjóðsins. Benti hann á að í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 68/2005 kæmi fram að mikilvægt væri að mat færi fram á hugsanlegum kaupanda vegna þess að stór hluti skuldbindinga sjóðsins væri í formi óuppgerðra skuldabréfa með einfaldri ábyrgð ríkissjóðs. Að slepptu þessu lagaákvæði, eins og því var breytt með lögum nr. 68/2005, hefðu, á þeim tíma er ákvarðanir um umrædda sölu voru teknar, ekki verið fyrir hendi sérstakar lagareglur um sölu þeirra eigna ríkisins sem hér um ræddi eða um sölu ríkisins á eignum af þessu tagi almennt og þar með um heimildir stjórnvalda til að setja skilyrði sem hugsanlegir kaupendur þyrftu að uppfylla. Um ákvarðanir stjórnvalda og undirbúning og framkvæmd sölu giltu því almennar reglur stjórnsýsluréttar en um þá kaupsamninga sem gerðir kynnu að vera til fullnustu slíkra aðilaskipta giltu hins vegar reglur hlutaðeigandi aðilaskipta, svo sem reglur um fasteignakaup ef um slík viðskipti væri að ræða. Í samræmi við þetta bæri stjórnvöldum að gæta þess að málefnaleg sjónarmið lægju til grundvallar ákvörðunum sem teknar væru.
Umboðsmaður benti á að það eitt að ekki væri sérstök lagaheimild til að setja skilyrði útilokaði ekki að slík skilyrði yrðu sett. Mælikvarðinn væri í þeim tilfellum sá að þau væru málefnaleg og í eðlilegu samhengi við það markmið sem að væri stefnt með sölunni sem og að þau þyrftu að vera innan þeirra marka sem meðalhófsreglan setti stjórnvöldum um val á milli úrræða. Umboðsmaður benti á að við slíka sölu yrði að huga að því hvaða almennu skilyrði ætti að setja svo því markmiði sem löggjafinn hefði stefnt að væri náð sem best. Slíkt gæti einnig verið liður í því að auka gegnsæi framkvæmdarinnar og jafnræði mögulegra bjóðenda enda væru þau byggð á málefnalegum sjónarmiðum og væru hófleg miðað við þau markmið sem að væri stefnt. Umboðsmaður benti á að þau skilyrði sem hefðu verið sett hefðu annars vegar það markmið að kaupandi yfirtæki skuldbindingar sjóðsins sem í langflestum tilfellum væri með ríkisábyrgð og einnig að hafa með ákveðnum hætti áhrif á að fyrri lántakendur sjóðsins og landbúnaðurinn ættu áfram kost á viðskiptakjörum um lán sín þótt ný fjármálaþjónusta yrði rekin á viðskiptalegum grundvelli. Umboðsmaður taldi að ekki yrði annað séð en að það hefði verið eðlilegt og málefnalegt að stjórnvöld settu hugsanlegum bjóðendum ákveðin skilyrði sem miðuðu að því að ná þessum markmiðum, m.a. um fjárhagsstöðu þeirra og hvernig hún væri metin og þá sérstaklega að því marki sem það gat haft þýðingu um tilkomu nýs skuldara á skuldbindingum lánasjóðsins sem voru með ríkisábyrgð og áhrif á lánakjör þeirra sem þegar voru með lán hjá sjóðnum. Taldi umboðsmaður að þau skilyrði að mögulegir bjóðendur væru fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eða að þeir skyldu hafa alþjóðlegt lánshæfismat væru málefnaleg. Taldi umboðsmaður sig ekki geta fullyrt að með skilyrðinu um alþjóðlegt lánshæfismat hefði verið gengið lengra en heimilt hefði verið við afmörkun þess hóps sem gert hefði verið kleift að taka þátt í forvalinu. Féllst umboðsmaður á sjónarmið landbúnaðarráðherra um að sú leið sem A hefði bent á, að láta Fjármálaeftirlitið meta fjárhagsstöðu þátttakanda, hefði ekki verið tæk. Aðrar leiðir hefðu hugsanlega getað komið til greina en með hliðsjón af þeim stutta tíma sem hefði verið til ráðstöfunar og því hvernig almennum lagagrundvelli þessara ákvarðana væri háttað taldi hann sig ekki hafa forsendur til þess að fullyrða að framkvæmdin hefði verið aðfinnsluverð.
Umboðsmaður taldi ekki verða ráðið af þeim gögnum sem honum hefðu borist frá ráðuneytinu hvaða skoðun og mat hefði farið fram af hálfu ráðuneytisins á því hvaða leið væri best að fara við sölu á lánasjóðnum. Við ósk hans um frekari gögn hefði komið í ljós að engin frekari skrifleg gögn lægju fyrir. Af því tilefni tók umboðsmaður fram að stjórnvöld þyrftu almennt að haga meðferð mála, og þá ekki síst skráningu upplýsinga og vistun gagna, með þeim hætti að þau gætu síðar fullnægt skyldum sem leiddu af reglum um upplýsingarétt aðila máls og almennings, sbr. ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og upplýsingalaga nr. 50/1996. Væri það einnig mikilvægt vegna þeirrar aðstöðu sem kæmi iðulega upp að stjórnvöld væru krafin eftir á um skýringar og gögn af hálfu eftirlitsaðila, eins og t.d. umboðsmanns, eða að hallinn af því að slík gögn eða skýringar væru ekki til staðar væri lagður á stjórnvöld, s.s. við sönnunarmat í dómsmálum. Benti umboðsmaður á að í 23. gr. upplýsingalaga væri kveðið á um skyldu til skráningar munnlegra upplýsinga við meðferð mála þar sem taka ætti ákvörðun um rétt eða skyldu manna skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Þá yrði það almennt að teljast til vandaðra stjórnsýsluhátta að stjórnvöld gættu að því að gögn þeirra vegna undirbúnings ákvarðana um ráðstöfun eigna hins opinbera hefðu að geyma skráðar upplýsingar um atriði sem hefðu verulega þýðingu fyrir niðurstöðu máls, óháð því hvort slíkar ráðstafanir teldust stjórnvaldsákvarðanir eða ekki. Taldi umboðsmaður að landbúnaðarráðuneytið hefði ekki gætt nægilega að þessu í málinu.
Umboðsmaður ákvað að senda forsætisráðherra afrit af bréfi sínu til A um lyktir málsins þar sem hann hafði áður átt í bréfaskiptum við ráðherra um skort á almennum reglum um framkvæmd þeirra verkefna sem felld væru undir svonefnda einkavæðingu. Eftirlét umboðsmaður forsætisráðherra að ákveða hvort hann kynnti bréf sitt starfshópi sem gera ætti tillögur um hvort rétt væri að endurskoða gildandi verklagsreglur um einkavæðingu, með tilliti til þeirra sjónarmiða sem umboðsmaður lýsti í bréfinu.