Lögreglu- og sakamál. Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Kæruleið ekki tæmd.

(Mál nr. 539/2025)

A kvartaði yfir því að ekki hefði verið brugðist við beiðnum til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um upplýsingar.

Í málinu lá fyrir að nýlega hafði starfsmaður lögreglustjóra veitt tilgreindar upplýsingar. Með vísan til þess að A hafði þegar beint erindum til nefndar um eftirlit með lögreglu og úrskurðarnefndar um upplýsingamál um sömu atriði og kvörtunin til umboðsmanns laut að taldi umboðsmaður ekki uppfyllt skilyrði til að fjalla frekar um kvörtunina að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. desember 2025.

  

  

Vísað er til kvörtunar A 2. desember sl. yfir töfum á meðferð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á erindi. Nánar tiltekið verður af erindinu ráðið að 3. júlí sl. hafi verið lögð fram beiðni um að gögn í sakamáli, sem ráðið verður að A sé brotaþoli í, yrðu send bótanefnd vegna bóta til þolenda afbrota. Kvörtunin var jafnframt send úrskurðarnefnd um upplýsingamál og nefnd um eftirlit með lögreglu.

Samkvæmt gögnum, sem fylgdu kvörtuninni, var lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sent erindi á nýjan leik 15. ágúst sl. þar sem þess var óskað að upplýst yrði hvort málið væri komið til bótanefndar og hvort nefndin gæti fengið upplýsingar um stöðu þess. Þá sýnist erindið hafa verið ítrekað 15. október sl. Í kjölfar samskipta við bæði starfsmann lögreglustjóra og bótan efndar sýnast frekari ítrekanir hafa verið sendar í nóvembermánuði. Þá fylgdi kvörtuninni ljósrit svars aðstoðarsaksóknara lögreglustjóra 3. desember sl. um að málið væri komið á ákærusvið en ekki hefði verið tekin ákvörðun um hvort ákært yrði í því.

Ekki er fyllilega ljóst hvort brugðist hafi verið með fullnægjandi hætti við beiðninni til lögreglustjóra með framangreindu erindi starfsmanns hans, þar sem upplýst var um stöðu málsins. Hvað sem því líður og í tilefni þess að fyrir liggur að samhliða kvörtuninni var erindum beint til bæði nefndar um eftirlit með lögreglu og úrskurðarnefnd um upplýsingamál, skal tekið fram að ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður Alþingis hafi afskipti af máli fyrr en stjórnvöld hafa lokið umfjöllun sinni um málið, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar sem ekki liggur fyrir niðurstaða þeirra stjórnvalda, sem þú hefur nýlega leitað til af sama tilefni og kvörtun er lögð fram við umboðsmann Alþingis, er mér ekki fært að taka kvörtunina til nánari athugunar að svo stöddu. Ég tek þó fram að ef A er ósáttur að fenginni niðurstöðu framangreindra stjórnvalda, getur hann leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun ykkar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.