A kvartaði yfir álagningu gjalds á bifreið hans. Byggðist kvörtunin á því að við álagningu hefði staðið yfir losun bifreiðarinnar og því hefði álagning gjaldsins ekki farið fram í samræmi við lög.
Í skýringum Reykjavíkurborgar til umboðsmanns kom fram að samkvæmt umsögn stöðuvarðar hefði hann fylgst með bifreiðinni í nokkurn tíma án þess að nokkur merki væri um losun eða lestun hennar. Þá afhenti sveitarfélagið umboðsmanni gögn þeirri frásögn til stuðnings.
Taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemd við rannsókn sveitarfélagsins á málinu með vísan til skýringa þess og gagna, sem það afhenti. Umboðsmaður taldi þó að í málinu væri uppi ágreiningur um málsatvik, sem ekki yrði leiddur til lykta nema með sönnunarfærslu fyrir dómstólum. Með vísan til þess lét umboðsmaður athugun sinni lokið.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 25. nóvember 2025.
I
Vísað er til kvörtunar þinnar 28. febrúar sl. en hún lýtur að ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um að leggja á þig stöðubrotsgjald vegna bifreiðarinnar [...]. Nánar tiltekið var gjaldið lagt á með vísan til þess að bifreiðinni hefði verið lagt við Tryggvagötu í Reykjavík á þeim hluta götunnar þar sem bann við slíkri lagningu er gefið til kynna með umferðarmerki, sbr. c-lið 1. mgr. 109. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Í kvörtuninni er á því byggt að bifreiðinni hafi ekki verið lagt í umrætt skipti því yfir hafi staðið losun farms úr bifreiðinni. Í því samhengi skal tekið fram að í 26. tölulið 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga kemur meðal annars fram að stöðvun ökutækis vegna lestunar og losunar farms teljist ekki lagning þess. Í tilefni af kvörtuninni var Reykjavíkurborg ritað bréf 24. mars sl. þar sem óskað var eftir öllum gögnum málsins og bárust þau daginn eftir.
Reykjavíkurborg var á nýjan leik ritað bréf 5. júní sl. þar sem tilgreindra skýringa var óskað. Nánar tiltekið var óskað skýringa á því hvort sú rannsókn, sem lýst er í umsögn stöðuvarðar í málinu á þann veg að stöðuvörður hafi haft auga með bifreiðinni í fimm mínútur án þess að hann yrði umferðar um hana var, hafi verið fullnægjandi, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sérstaklega var litið til þess hvort stöðuvörðum væri við slíkar aðstæður mögulegt, án mikillar fyrirhafnar, að tryggja betri sönnun, t.d. með töku tímasettra ljósmynda og eftirliti með umferð að bifreið í afmarkaðan tíma. Þá var tilgreindra gagna jafnframt óskað.
Svar Reykjavíkurborgar barst 11. júlí sl. Í því kom einkum fram að sveitarfélagið teldi sig hafa lagt fullnægjandi grundvöll að álagningu gjaldsins með rannsókn málsins. Um það var vísað til umsagnar stöðuvarðar en þar að auki fylgdi svari sveitarfélagsins fjórar ljósmyndir. Samkvæmt svari sveitarfélagsins voru þær teknar á bilinu 14:27 til 14:33 umræddan dag en sú síðasta var tekin af bifreiðinni [...] við álagningu hins umþrætta gjalds. Með vísan til þess að fyrri þrjár ljósmyndirnar voru teknar í námunda við þann stað þar sem bifreiðin [...] var og í sjónlínu við þann stað telji sveitarfélagið að ljósmyndirnar renni stoðum undir umsögn stöðuvarðar þess efnis að hann hafi haft auga með bifreiðinni í um það bil fimm mínútur. Hefði hann þar með orðið þess var ef yfirstandandi hefði verið losun eða lestun á þeim tíma. Með bréfi dagsettu 11. júlí sl. var þér boðiið að koma á framfæri athugasemdum í tilefni svarbréfs Reykjavíkurborgar til umboðsmanns fyrir 1. ágúst sl. Engar athugasemdir bárust.
II
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Umboðsmaður skal gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Af lögum nr. 85/1997 verður ráðið að þau eru meðal annars byggð á þeirri forsendu að fyrir hendi sé verkaskipting milli dómstóla og umboðsmanns og mál geti verið þannig vaxin að eðlilegra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum. Þannig kemur til dæmis fram í lögunum að starfssvið umboðsmanns taki ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla, sbr. c-lið 4. mgr. 3. gr. þeirra. Þá er tekið fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laganna.
Í málinu liggur fyrir að í umsögn stöðuvarðar er á því byggt að ekki hafi farið fram losun eða lestun bifreiðarinnar í um það bil fimm mínútur á meðan stöðuvörður hafði auga með henni. Hafa verið lögð fram gögn af hálfu Reykjavíkurborgar þeirri staðhæfingu til stuðnings.
Eins og mál þetta liggur fyrir er ljóst að niðurstaða um hvort Bílastæðasjóði hafi verið heimilt að leggja á stöðubrotsgjald umrætt sinn hverfist nær alfarið um hvort afferming hafi staðið yfir, líkt og þú heldur fram, eða ekki. Með vísan til framanlýstra svara Reykjavíkurborgar og fyrrgreindra ljósmynda, sem varpar ljósi á hve lengi stöðuvörður var í grennd bifreiðarinnar, tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við rannsókn málsins af hálfu sveitarfélagsins. Að því sögðu er enn uppi ágreiningur um málsatvik þar sem nauðsynlegt kann að vera að afla sönnunargagna, svo sem vitnaskýrslna, og meta síðan sönnunargildi slíkra gagna. Umboðsmaður hefur talið rétt að fjalla almennt ekki um mál, sem eru slíku marki brennd, heldur verði það að vera hlutverk dómstóla, sem eru betur í stakk búnir til að leysa úr álitaefnum um hvað teljist sannað, og þá að því marki sem það kann að vera nauðsynlegt til að fá leyst úr dómkröfu sem borin er fram á þeim vettvangi.
III
Að teknu tilliti til þess, sem rakið er að framan, og þar sem umboðsmaður er ekki í aðstöðu til að slá því endanlega föstu hver atvik nákvæmlega voru við hina umþrættu álagningu tel ég að þetta álitamál sé þess eðlis að úr því verði að leysa fyrir dómstólum, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í því sambandi skal þó áréttað að ég hef enga afstöðu tekið til þess hvort rétt sé að leggja málið fyrir dómstóla ef þú kýst að fylgja málinu frekar eftir.
Við skoðun máls þíns vakti þó athygli mína ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja endurupptökubeiðni þinni. Í ákvörðuninni er í engu vikið að þeirri grunnröksemd þinni að þú hafir verið að afferma bifreiðina þegar gjaldið var lagt á heldur er látið við það sitja að lýsa því ákvæði umferðarlaga, sem sveitarfélagið taldi þig hafa brotið gegn. Ég hef staldrað við að synjanir Reykjavíkurborgar á beiðnum um endurupptöku ákvarðana um álagningu gjalda vegna lagninga og stöðvana séu í einhverjum tilfellum takmarkaðar að þessu leyti. Af því tilefni er rétt að upplýsa að nýlega sendi ég borginni ábendingu um að gæta betur að rökstuðningi slíkra ákvarðana eftirleiðis, sjá bréf í máli 171/2025, sem má finna á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is. Í ljósi þess hve stutt er síðan slík ábending var send sveitarfélaginu tel ég ekki tilefni til að gera það jafnframt í máli þínu.
Með vísann til alls framangreind læt ég meðferð minni á kvörtun þinni hér með lokið.