Opinberir starfsmenn. Uppsögn. Uppsögn í veikindaleyfi. Tilkynning um starfslok. Form uppsagnar. Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 12684/2024)

A kvartaði yfir uppsögn úr starfi hjá framhaldsskólanum X á meðan hún var í veikindaleyfi. Taldi A uppsögnina ólögmæta, meðal annars vegna þess að henni barst aldrei uppsagnarbréf frá skólanum. Athugun umboðsmanns á málinu var afmörkuð við það hvernig starfslok A bar að.

Umboðsmaður rakti að um réttarsamband opinberra starfsmanna við vinnuveitanda giltu að ýmsu leyti sérstök sjónarmið sem helguðust meðal annars af því að réttarstaða þeirra hefði að miklu leyti ráðist af opinberum réttarreglum sem væru settar einhliða af hálfu ríkisins. Í kjölfar þess rakti umboðsmaður þær reglur sem gilda um starfslok opinberra starfsmanna meðal annars með því að fjalla um þann greinarmun sem gerður væri á málsmeðferð eftir því hvort rekja mætti ástæður uppsagnar til starfsmannsins sjálfs eða málefnalegra sjónarmiða um önnur atvik, svo sem skipulagsbreytinga. Vegna þessa greinarmunar væri mikilvægt að upplýsingar um helstu forsendur ákvörðunar lægju fyrir.

Umboðsmaður benti á að yfirlýsing um slit ráðningasamnings væri ákvöð sem væri bindandi þegar hún væri komin til viðtakanda þannig að hann gæti kynnt sér efni hennar, að í ráðningarsamningum væri almennt miðað við að uppsögn starfsmanns úr starfi væri skrifleg og að uppsögn opinbers starfsmanns væri stjórnvaldsákvörðun sem ætti að öllu jöfnu að vera á skriflegu formi. Uppsagnarbréf þyrfti að vera þannig úr garði gert að ekki færi á milli mála við hvaða tímamark uppsögn miðaðist, hver uppsagnarfrestur væri og hvenær ráðningarslit skyldu vera. Hún lagði til grundvallar að sönnunarbyrði um lögmæti uppsagnar og málefnalegan grundvöll hennar hvíldi almennt á vinnuveitanda en ef ágallar væru á meðferð málsins bæri vinnuveitandi hallann af því. Væru starfslok byggð á samkomulagi milli vinnuveitanda og starfsmanns yrði forstöðumaður að sýna fram á að slíkt samkomulag hefði verið gert og leggja fram gögn sem vörpuðu ljósi á málið, væri óljóst hvort starfslokin grundvölluðust á samkomulagi. Þá benti hún á að samkvæmt kjarasamningi væri ekki heimilt að leysa starfsmann frá störfum vegna heilsubrests fyrr en á því tímamarki sem leiddi af samningnum nema hann hefði sjálfur óskað þess.

Af skýringum X til umboðsmanns varð ekki annað ráðið en að X liti svo á að A hefði sjálf ákveðið að hætta störfum þótt hún hefði ekki beint sérstakri tilkynningu um það til skólans. Ljóst var að enginn skriflegur gerningur lá fyrir, hvorki tilkynning né samkomulag, þar sem fram kom með skýrum hætti hvenær ráðningarsambandi A og X lauk og af hvaða ástæðu. Hefði X bundið enda á ráðningarsambandið taldi umboðsmaður að skólinn hefði átt að tilkynna A formlega og skriflega um starfslokin, við hvaða tíma þau væru miðuð og hver væri lagagrundvöllur þeirra, að undangengnum þeim undirbúningi sem leiðir af stjórnsýslureglum. Þá hefði annaðhvort átt að veita A fullnægjandi samhliða rökstuðning eða leiðbeina henni um rétt til að fá skriflegan rökstuðning. Ef skólinn leit aftur á móti svo á að náðst hefði samkomulag um starfslok bar að gæta þess með sama hætti að forsendur samkomulagsins lægju fyrir með sannanlegum hætti, þar með talið um að gagnkvæmur vilji stæði til samkomulagsins.

Að mati umboðsmanns lék verulegur vafi á um með hvaða hætti starfslok A við X bar að og ekki hafði komið fram að önnur skrifleg gögn lægju fyrir um starfslokin sem hefðu þýðingu. Af þeim sökum taldi hún að X yrði að bera hallann af þessu enda hefði skólinn ekki sýnt fram á að undirbúningur og úrlausn málsins hefði verið í samræmi við þá lögboðnu málsmeðferð sem ætlað væri að tryggja réttaröryggi ríkisstarfsmanna við ákvörðunartöku um starfslok þeirra. Var það niðurstaða umboðsmanns að ekki hefði verið sýnt fram á að staðið hefði verið að starfslokum A með lögmætum hætti.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 14. nóvember 2025.