Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Málshraði. Tilkynning um tafir á afgreiðslu máls. Svör stjórnvalds til umboðsmanns. Sjávarútvegsmál. Stjórn fiskveiða.

(Mál nr. 5/2025)

A ehf. leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem beindist að matvælaráðuneytinu (síðar atvinnuvegaráðuneytinu) og laut að töfum á meðferð ráðuneytisins á stjórnsýslukæru félagsins. Kæran laut að ákvörðun Fiskistofu um að fella niður aflahlutdeild skips í eigu félagsins. Í kvörtuninni kom fram að ráðuneytið hefði ítrekað tilkynnt um fyrirsjáanlegar tafir og lýst fyrirætlunum um afgreiðslu málsins en þær hefðu ætíð brugðist.

Athugun umboðsmanns laut einkum að því hvort meðferð málsins, eftir að gagnaöflun lauk, hefði samrýmst málshraðareglu stjórnsýslulaga. Við mat á því leit umboðsmaður í fyrsta lagi til  þess að málið hafði verið til meðferðar í ráðuneytinu í rúmt ár þegar gagnaöflun lauk. Ekki væri unnt að líta alfarið fram hjá því við heildstætt mat á afgreiðslutímanum. Í öðru lagi hefðu áætlanir um hvenær afgreiðslu málsins væri að vænta brugðist í 26 skipti sem benti til þess að málsmeðferð hefði dregist úr hófi. Í þriðja lagi gætu skýringar um að málið væri flókið, umfangsmikið og einstakt aðeins skýrt hinn langa afgreiðslutíma að hluta. Sama ætti við um annir í starfsemi ráðuneytisins. Í fjórða og síðasta lagi leiddu ríkir fjárhagslegir hagsmunir A ehf. af úrlausn málsins til þess að sérstök ástæða hefði verið til að hraða meðferð þess. Að teknu tilliti til alls þessa svo og að ekki varð séð að orsakir tafanna yrðu raktar til A ehf. taldi umboðsmaður afgreiðslutíma málsins ekki hafa verið í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður taldi jafnframt að skýringar ráðuneytisins á því hvers vegna áætlanir þess um afgreiðslu málsins hefðu brugðist svo oft væru ófullnægjandi. Hún taldi málsmeðferðina því ekki hafa verið í samræmi við efni og tilgang 3. mgr. 9. gr.  stjórnsýslulaga að upplýsa skuli um hvenær ákvörðunar sé að vænta þegar tafir eru fyrirsjáanlegar. Þá benti hún á að í stórum hluta tilkynninga ráðuneytisins til A ehf. hefði úrskurður verið sagður í „lokafrágangi“. Í ljósi þess að ráðuneytið hafði einkum vísað til flækjustigs málsins í skýringum til umboðsmanns og hve lengi úrskurður hafði verið sagður í „lokafrágangi“ taldi umboðsmaður að ástæðum tafanna hefði verið lýst með ófullnægjandi hætti. Að lokum taldi umboðsmaður drátt á svörum til hennar aðfinnsluverðan og óútskýrðan.

Umboðsmaður beindi tilmælum til atvinnuvegaráðuneytisins um að hraða meðferð máls A ehf. og hafa þau sjónarmið, sem rakin væru í álitinu, í huga eftirleiðis. Einnig mæltist hún til þess að upplýsingagjöf og samskiptum ráðuneytisins við umboðsmann yrði hér eftir hagað þannig að umboðsmaður gæti rækt lögbundið hlutverk sitt og afgreitt mál innan hæfilegs tíma.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 25. september 2025.

  

  

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 3. janúar 2025 leitaði A ehf. til umboðsmanns Alþingis með kvörtun vegna tafa á meðferð matvælaráðuneytisins á stjórnsýslukæru. Kæran var lögð fram 16. maí 2023 og laut að ákvörðun Fiskistofu 16. desember 2022 um að fella niður aflahlutdeild skips í eigu félagsins. Í kvörtuninni er því lýst að tafir á meðferð málsins hafi valdið félaginu tjóni enda hafi það eðli málsins samkvæmt ekki getað aflað tekna á grundvelli aflahlutdeildarinnar. Það hafi leitt af sér yfirvofandi ógjaldfærni félagsins. Í kvörtuninni kemur fram að ráðuneytið hafi ítrekað tilkynnt um fyrirsjáanlegar tafir og lýst fyrirætlunum um afgreiðslu málsins en þær hafi ætíð brugðist.

Almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af máli á grundvelli kvörtunar fyrr en stjórnvöld hafi lokið umfjöllun sinni um það. Í samræmi við það hefur umboðsmaður gætt varfærni við að fjalla um og taka afstöðu til þess hvort brotið hafi verið í bága við málshraðareglur stjórnsýsluréttarins áður en mál hefur verið leitt til lykta og málsmeðferðartími liggur fyrir í heild. Að virtum atvikum þessa máls, meðal annars með það í huga að umboðsmaður hefur þrívegis áður tekið tafir á afgreiðslu þess til skoðunar svo og sent ráðuneytinu ábendingu í tilefni þeirra, tel ég þó rétt að taka meðferð þess til nánari athugunar. Öðrum þræði er það gert á grundvelli þeirrar heimildar sem mér er fengin til að fjalla um mál að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Athugun umboðsmanns hefur verið afmörkuð við það hvort meðferð matvælaráðuneytisins, og síðar atvinnuvegaráðuneytisins, á fyrrgreindri stjórnsýslukæru hafi samrýmst málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lýtur hún einkum að meðferð málsins eftir að ráðuneytið lauk gagnaöflun. Samkvæmt skýringum þess til mín var það 3. júlí 2024. Ekki verður séð að eftir það hafi farið fram frekari gagnaöflun. Þá lýtur athugunin að því hvort málsmeðferðin hafi samrýmst 3. mgr. sömu lagagreinar sem fjallar um tilkynningar um tafir til aðila máls.

  

II Málavextir

Með ákvörðun 21. október 2022 felldi Fiskistofa niður aflahlutdeild skipsins X, sem er í eigu A ehf., í tilgreindum fisktegundum sem voru á því í lok fiskveiðiársins 2021/2022 á þeim grundvelli að skipið hefði ekki fullnægt veiðiskyldu sinni samkvæmt 6. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þar er mælt fyrir um að veiði fiskiskip minna en 50% á fiskveiðiári af úthlutuðu aflamarki sínu og aflamarki sem flutt hefur verið frá fyrra fiskveiðiári, í þorskígildum talið, falli aflahlutdeild þess niður og skuli aflahlutdeild annarra skipa í viðkomandi tegundum hækka sem því nemur, sbr. 1. málslið málsgreinarinnar.

Fiskistofa tók málið til nýrrar meðferðar eftir beiðni félagsins þar um en komst að efnislega sömu niðurstöðu í nýrri ákvörðun 16. desember 2022, þ.e. að fella niður aflahlutdeild skipsins í tilgreindum tegundum við lok fiskveiðiársins 2021/2022. A ehf. kærði þá ákvörðun til matvælaráðuneytisins 16. maí 2023 og krafðist þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi. Samkvæmt gögnum málsins óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna með erindi 9. júní 2023. Í framhaldi af því áttu viðamikil bréfaskipti sér stað milli A ehf., Fiskistofu og ráðuneytisins. Í ljósi afmörkunar á athugun þessari verða þau og önnur atriði í tengslum við meðferð málsins þó aðeins rakin að því marki sem þýðingu hefur fyrir hana.

Fyrsta kvörtun A ehf. vegna tafa á meðferð stjórnsýslukæru félagsins í tilefni af niðurfellingu aflahlutdeildar barst umboðsmanni 4. janúar 2024. Umboðsmaður lauk meðferð málsins, sem hlaut málsnúmerið 12552/2024, með bréfi 5. febrúar 2024 í ljósi áforma ráðuneytisins um að ljúka málinu eins fljótt og kostur væri.

Með annarri kvörtun 1. mars 2024, sem hlaut málsnúmerið 12644/2024, var á nýjan leik kvartað yfir sömu töfum. Með vísan til þess að ráðuneytið hafði gert félaginu grein fyrir því að stefnt væri að því að afgreiða málið í aprílmánuði, svo sem ráðuneytið hafði upplýst umboðsmann um, var meðferð kvörtunarinnar lokið með bréfi 10. apríl 2024.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að eftir 8. maí 2024, þegar A ehf. kom á framfæri athugasemdum við umsögn Fiskistofu, hafi átt sér stað frekari gagnaöflun vegna kæru á niðurfellingu aflahlutdeildar X. Matvælaráðuneytið tilkynnti fyrirsvarsmanni A ehf. aftur á móti 30. maí 2024 að rétt þætti að afgreiða kæru félagsins vegna niðurfellingar aflahlutdeildar annars vegar og hins vegar erindi vegna bakfærslu krókaaflahlutdeildar samhliða. Samkvæmt skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns lauk gagnaöflun vegna þess erindis 3. júlí 2024 þegar A ehf. kom á framfæri athugasemdum við afstöðu Fiskistofu í málinu.

A ehf. hafði þá þegar, eða í júní 2024, leitað á ný til umboðsmanns vegna tafa á afgreiðslu málsins en kvörtunin hlaut málsnúmerið 12777/2024. Sú kvörtun laut einnig að ákvörðun ráðuneytisins um að hafna frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar en ekki er ástæða til að víkja frekar að þeim þætti hennar hér. Ráðuneytið gerði umboðsmanni grein fyrir því að A ehf. hefði verið upplýst um að vegna mikilla anna í ráðuneytinu og sumarleyfa tefðist afgreiðsla málanna fram í ágústmánuð 2024. Áformað væri að afgreiða málin eigi síðar en 30. þess mánaðar. Meðferð kvörtunarinnar var lokið með bréfi umboðsmanns 13. september sama ár með vísan til áforma ráðuneytisins um að ljúka meðferð málsins. Þrátt fyrir þær lyktir málsins varð kvörtunin umboðsmanni tilefni til að senda þáverandi matvælaráðherra ábendingu 13. september 2024. Í ábendingunni var því lýst að stjórnsýslukæra félagsins hefði borist ráðuneytinu fyrir sextán mánuðum og því að áætlanir ráðuneytisins til A ehf. hefðu ítrekað brugðist. Þær ástæður, sem tilgreindar hefðu verið, hefðu verið almennar og helst þær að miklar annir væru í ráðuneytinu. Umboðsmaður taldi því rétt að minna á 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um að ákvarðanir í stjórnsýslumálum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Að endingu var þess getið að málsefnið í umræddu tilfelli snerti atvinnu fyrirsvarsmanns A ehf. Ráðuneytinu var bent á að leitast við að leysa úr máli félagsins innan uppgefinna tímamarka og að huga sérstaklega að þeim atriðum, sem rakin hefðu verið í ábendingunni, við meðferð hliðstæðra mála í ráðuneytinu.

Eftir að gagnaöflun í málum A ehf. lauk, samkvæmt því sem fram kom í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns, hefur félaginu allmörgum sinnum verið tilkynnt um fyrirsjáanlegar tafir á meðferð málsins. Í því sambandi athugast að í ljósi þeirrar afstöðu ráðuneytisins að bæði framangreind stjórnsýslumál yrðu afgreidd samtímis verður ekki gerður greinarmunur í umfjöllun minni á tilkynningum um fyrirsjáanlegar tafir eftir því um hvort málið er að ræða.

Frá 25. júlí til 29. október 2024 bárust fyrirsvarsmanni A ehf. fimm tilkynningar um fyrirsjáanlegar tafir á meðferð málsins. Í þeim var um ástæður tafanna vísað til anna í ráðuneytinu og sumarleyfa. Þar sem málið er enn til afgreiðslu í atvinnuvegaráðuneytinu er ljóst að þær áætlanir, sem komu fram í tilkynningunum um það hvenær ákvörðunar væri að vænta, brugðust.

Frá 15. nóvember 2024 til 12. september 2025 hafa fyrirsvarsmanni A ehf. borist 22 tilkynningar um fyrirsjáanlegar tafir á meðferð málsins. Í þeim öllum er vísað til þess að ástæður tafanna séu að úrskurður í málinu sé í „lokafrágangi“. Að nýjustu tilkynningunni 12. september 2025 undanskilinni eru þessar tilkynningar því sama marki brenndar og hinar fyrri að þær brugðust allar. Málið er enn óafgreitt í atvinnuvegaráðuneytinu.

  

III Skýringar atvinnuvegaráðuneytisins

Kvörtun A ehf. yfir töfum á meðferð stjórnsýslukæru félagsins, sem hér er til athugunar, er fjórða kvörtun félagsins af því tilefni og vísast til umfjöllunar um þær hér að framan.

Í tilefni af þessari kvörtun var atvinnuvegaráðherra ritað bréf 20. febrúar 2025 þar sem vísað var til þess að stjórnsýslukæra A ehf. hefði borist matvælaráðuneytinu fyrir um það bil 21 mánuði. Einnig var gerð grein fyrir því að að minnsta kosti sextán sinnum hefðu félaginu borist tilkynningar um hvenær ákvörðunar væri að vænta án þess að þau áform hefðu staðist. Að virtum atvikum málsins var þess því óskað að ráðuneytið veitti umboðsmanni skýringar á því hvort það teldi meðferð sína á málinu samrýmast 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar um að ákvarðanir skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Í annan stað var þess óskað að gerð yrði grein fyrir því hvers vegna áætlanir ráðuneytisins um afgreiðslu málsins hefðu brugðist jafnoft og raun bæri vitni. Þá var þess óskað að ráðuneytið upplýsti hvort það vænti þess að sú áætlun sem félaginu hefði síðast verið tilkynnt um næði fram að ganga. Að endingu var þess óskað að ráðuneytið afhenti gögn er varpað gætu ljósi á framangreint. Þess var óskað að svör bærust umboðsmanni ekki síðar en 13. mars 2025.

Með erindum ráðuneytisins til umboðsmanns 14., 21. og 28. mars; 4., 11., 16. og 25. apríl; og 2. og 9. maí 2025 var upplýst um að svarbréf þess til umboðsmanns væri í yfirlestri og áformum lýst um að það yrði sent í vikunni eftir að viðkomandi erindi ráðuneytisins var sent umboðsmanni, án þess að það gengi eftir í fyrstu átta tilvikunum. Af þeirri ástæðu var ráðuneytinu tilkynnt símleiðis 13. maí 2025 að umboðsmaður hygðist taka málið til umfjöllunar hvað sem liði því hvort skýringar ráðuneytisins bærust. Svarbréf ráðuneytisins við fyrirspurninni barst sama dag. Í bréfinu er meðferð málsins lýst með vísan til þess sem hafði komið fram í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns vegna fyrri kvartana A ehf. Einnig kemur fram að við mat á því hvort málsmeðferð ráðuneytisins samrýmdist málshraðareglu stjórnsýsluréttar þurfi að líta til aðstæðna í þessu tiltekna máli og málsmeðferðar þess í heild. Þá kemur fram að gagna hafi verið aflað eins hratt og kostur var auk þess sem málið hafi verið í stöðugri vinnslu allt frá því að kæran barst. Þá segir í bréfinu: 

Málið er einstakt og flóknara og umfangsmeira en önnur kærumál sem ráðuneytinu hafa borist hingað til og því hefur málsmeðferðartími þess orðið lengri en í öðrum kærumálum.

Miklar annir í ráðuneytinu hafa einnig haft áhrif á málsmeðferðartímann.

[...]

Á tímabilinu júlí – nóvember 2024, eftir að gagnaöflun lauk með bréfi kæranda, dags. 3. júlí 2024, til ráðuneytisins, var unnið áfram að samningu úrskurðar í málinu.

Með vísan til framangreinds hefur ráðuneytið reynt að tryggja að málsmeðferð stjórnsýslukærunnar samrýmist 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar um að mál skuli afgreidd svo fljótt sem unnt er.

Í skýringum á því hvers vegna áætlanir ráðuneytisins hefðu brugðist jafnoft og raun bæri vitni segir að málsmeðferðartíminn hafi orðið lengri en áætlað var. Vísað er til þess að málið sé flókið, umfangsmikið og feli í sér vandmeðfarið ágreiningsefni, svo sem áður hafi verið gerð grein fyrir. Þá hafi umfang málsins aukist töluvert eftir að kæran barst, bæði vegna þess að ráðuneytinu hafi borist frekari gögn svo og vegna þess að fleiri tengd mál og kröfur hafi bæst við. Þá kemur fram að fyrirsjáanlegt sé að áætlun ráðuneytisins um lyktir málsins, sem A ehf. hafi verið tilkynnt um, standist ekki. Félaginu hafi verið gerð grein fyrir því. Ganga verður út frá því að þar hafi verið vísað til þeirrar áætlunar ráðuneytisins sem það hafði sent félaginu í þeim mánuði. Athugasemdir A ehf. við bréf ráðuneytisins til umboðsmanns bárust 2. júní 2025.

Með bréfi umboðsmanns til atvinnuvegaráðherra 19. maí 2025 var upplýst að umboðsmaður hefði ákveðið að taka kvörtun félagsins vegna tafa á málsmeðferð til efnislegrar meðferðar enda þótt ekki lægi fyrir úrskurður í málinu. Þá var þess óskað að ráðuneytið afhenti öll gögn málsins eigi síðar en 2. júní 2025. Gögn málsins bárust 4. þess mánaðar. Þá var þess óskað símleiðis 2. september 2025 að afhent yrðu öll samskipti ráðuneytisins við A ehf. frá 23. maí sama ár en þau samskipti, sem ráðuneytið afhenti í júní, náðu fram til þess dags. Umbeðin gögn bárust síðar sama dag.

  

IV Athugun umboðsmanns

1 Málshraðaregla stjórnsýsluréttarins

Ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessi lagagrein er lögfesting á meginreglu stjórnsýsluréttar um hraða afgreiðslu mála í stjórnsýslunni. Í henni felst áskilnaður um að dráttur á afgreiðslu máls megi ekki vera óréttlættur.

Líta þarf til ýmissa sjónarmiða þegar afstaða er tekin til þess hvort afgreiðslutími tiltekins máls telst hæfilegur og hvort tafir, sem orðið hafa á meðferð þess, teljast réttlættar eða ekki. Þannig verður til að mynda að huga að því hve umfangsmikið og flókið umrætt mál er og hvaða áhrif úrlausn þess hefur á hagsmuni aðila. Jafnframt er nokkrar vísbendingar að finna um hvað telst hæfilegt í þessu efni í almennum tilkynningum viðkomandi stjórnvalds um lengd málsmeðferðar svo og ef fyrir liggja sérstakar tilkynningar í hinu fyrirliggjandi máli um áætlanir stjórnvaldsins þar að lútandi. Verði tafir á afgreiðslu máls hefur úrslitaþýðingu hvort orsakir þeirra verða raktar til stjórnvaldsins og rétt sé að það beri áhættuna af þeim eða hvort þær verða raktar til aðila málsins. Framangreint mat tekur ætíð til atvika og málsmeðferðar hvers máls með heildstæðum hætti.

Mat á því hvernig framanrakin sjónarmið um hæfilegan afgreiðsluhraða og réttlættar eða óréttlættar tafir horfa við í máli þessu er að mínum dómi einkum fjórþætt. Í fyrsta lagi verður að líta til þess að þegar gagnaöflun lauk 3. júlí 2024 hafði málið verið til meðferðar í ráðuneytinu í rúmt ár. Þrátt fyrir að athugun mín lúti einkum að meðferð málsins eftir að gagnaöflun lauk verður ekki alfarið litið fram hjá meðferð þess fyrir þann tíma. Verður enda að virða málsmeðferðina heildstætt auk þess sem ætla verður að mat á lagalegum álitaefnum, sem reynir á í málinu, hafi þá verið hafið að nokkru marki.

Í öðru lagi er til þess að líta að ráðuneytið hefur endurtekið lýst fyrirætlunum um að ljúka afgreiðslu málsins án þess að þær hafi staðist. Þegar áætlanir um afgreiðslu máls bregðast endurtekið kann það að benda til þess að afgreiðsla máls hafi tekið óhæfilega langan tíma. Bregðist áætlanir 26 sinnum eftir að gagnaöflun er lokið, svo sem raunin er í máli þessu, tel ég það vera skýra vísbendingu um að afgreiðsla máls hafi dregist úr hófi.

Í þriðja lagi hefur ráðuneytið í skýringum sínum til mín vísað til þess að málið sé einstakt, flókið og umfangsmikið auk þess sem annir hafi tafið fyrir afgreiðslu þess. Ég tel mig ekki hafa forsendur til að draga mat ráðuneytisins á efnisatriðum málsins í efa. Þessi sjónarmið geta, eins og þau horfa við í málinu, skýrt langan afgreiðslutíma þess að nokkru marki. Þrátt fyrir það hefur ráðuneytinu að mínu mati ekki tekist að sýna fram á hvernig umrædd sjónarmið geta skýrt hvers vegna ekki hefur reynst unnt að leiða málið til lykta á þeim langa tíma sem meðferð þess hefur tekið. Hér hef ég í huga að einföld tilvísun til framanlýstra sjónarmiða nægir ekki til að skýra að meðferð mála taki jafnlangan tíma og raunin hefur verið í máli þessu.

Um þann þátt skýringa ráðuneytisins, sem lýtur að önnum í starfsemi þess, er það að segja að slík aðstaða getur haft áhrif á mat á afgreiðslutíma að nokkru marki. Annir í starfsemi ráðuneytisins geta þó ekki að mínu mati skýrt jafnlangan afgreiðslutíma og raunin er í þessu máli.

Í fjórða og síðasta lagi er ljóst að fjárhagslegir hagsmunir A ehf. af því að geta nýtt aflahlutdeild skipsins X eru töluverðir og geta ráðið úrslitum í atvinnustarfsemi félagsins. Í samræmi við það er sérstök ástæða fyrir ráðuneytið til að hraða afgreiðslu málsins.

Að endingu skal þess getið að eftir að gagnaöflun í máli A ehf. lauk verður ekki séð að orsakir tafanna verði raktar til félagsins en ekki er heldur á því byggt í skýringum ráðuneytisins. Samkvæmt því verður að telja að orsakir tafa við meðferð málsins eftir að síðustu gagna var aflað verði eingöngu raktar til matvæla- og síðar atvinnuvegaráðuneytisins sjálfs.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat mitt að afgreiðslutími málsins eftir að gagnaöflun lauk fyrir tæplega fimmtán mánuðum síðan hafi ekki verið hæfilegur og tafir á meðferð þess geti ekki talist réttlættar. Álit mitt á meðferð matvælaráðuneytisins, síðar atvinnuvegaráðuneytisins, á stjórnsýslukæru A ehf. er því að hún hafi ekki verið í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga.

  

2 Tilkynningar um tafir á afgreiðslu málsins

Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

Matvælaráðuneytið, og síðar atvinnuvegaráðuneytið, hefur margoft tilkynnt A ehf. um fyrirsjáanlegar tafir á meðferð málsins. Slíkar tilkynningar voru sendar þegar gagnaöflun stóð yfir en flestar þeirra, eða 27 tilkynningar samtals, eftir að henni lauk. Þannig liggur fyrir að sendar hafa verið á þriðja tug tilkynninga þar sem upplýst hefur verið um hvenær ákvörðunar væri að vænta án þess að þau áform hafi gengið eftir.

Tilgangur framangreindrar lagareglu er einkum sá að aðili máls fái um það einhverja hugmynd hvenær afgreiðslu þess sé að vænta og geti þá eftir atvikum gert ráðstafanir til að gæta hagsmuna sinna. Að fullnægja þessari skyldu er nauðsynlegt skilyrði eðlilegra samskipta almennings og stjórnvalda og þess trausts sem stjórnvöld verða að njóta hjá almenningi, sjá til dæmis álit umboðsmanns frá 29. desember 1989 í máli nr. 126/1989. Af því leiðir að áætlun stjórnvalds um málsmeðferðartíma þarf að vera bæði raunhæf og taka mið af atvikum umrædds máls. Bregðist áætlun stjórnvalds jafnoft og raun ber vitni í máli þessu nær tilkynning um fyrirhugaða afgreiðslu ekki þessu markmiði sínu.

Í ljósi þeirra takmörkuðu skýringa, sem ráðuneytið færði fram við umboðsmann um ástæður þess hve oft áætlanir brugðust, en þær lutu einkum að flækjustigi málsins, tel ég að misbrestur hafi orðið á því að ráðuneytið setti fram raunhæfar áætlanir út frá atvikum málsins um það hvenær afgreiðslu þess væri að vænta. Hér hef ég í huga að flókin mál krefjast jafnan lengri málsmeðferðar og er rétt að áætlanir stjórnvalda taki mið af því. Þá tel ég ekki að sú útskýring ráðuneytisins að umfang málsins hafi aukist nægi til að skýra hve oft áætlanir þess brugðust enda er ljóst að stór hluti þeirra barst aðila málsins eftir að gagnaöflun lauk. Tilkynningar ráðuneytisins til A ehf. náðu því ekki þeim tilgangi sem slíkum tilkynningum er ætlað að ná. Málsmeðferðin var því ekki í samræmi við efni og tilgang 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Að lokum þykir rétt að benda á að í tilkynningum til fyrirsvarsmanns A ehf. eftir að gagnaöflun lauk hefur bæði verið vísað til þess að ástæður tafanna séu annir í ráðuneytinu en frá 15. nóvember 2024 hefur ástæðan verið sögð að úrskurður sé í „lokafrágangi“. Slíkt gefur að öllu jöfnu til kynna að efnisleg afstaða til málsins liggi fyrir í meginatriðum en að verið sé að yfirfara atriði eins og málfar, tilvísanir í heimildir, uppsetningu og önnur atriði sem lúta að formi skjalsins sem ákvörðun er sett fram á. Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns er á hinn bóginn aðallega vísað til þess að um flókið og umfangsmikið mál sé að ræða. Í ljósi þessa misræmis svo og þess um hve langt skeið úrskurður hefur verið sagður „í lokafrágangi“ tel ég ástæðum tafanna hafa verið lýst með ófullnægjandi hætti í tilkynningum til A ehf. Ég tel vera tilefni fyrir ráðuneytið að taka þetta til athugunar þegar aðilum er send tilkynning í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þá er haft í huga að eftir því sem tafir á afgreiðslu máls verða meiri er eðlilegt að veittar séu fyllri skýringar á töfum en ella.

  

3 Dráttur á svörum ráðuneytisins til umboðsmanns

Að endingu verður ekki hjá því komist að víkja stuttlega að því hversu mjög dróst að ráðuneytið veitti umboðsmanni þær skýringar sem óskað var eftir í tilefni af kvörtun A ehf. með bréfi 20. febrúar 2025. Ráðuneytið tilkynnti umboðsmanni í níu skipti um að tafir yrðu á svörum þess og lýsti áformum um hvenær umboðsmanni yrði svarað. Í öllum tilkynningunum var svarbréf ráðuneytisins til umboðsmanns sagt „í yfirlestri innan ráðuneytisins“. Áform ráðuneytisins brugðust í átta skipti og barst svar þess 13. maí 2025 sama dag og starfsmaður umboðsmanns tilkynnti um að málið yrði tekið til skoðunar óháð því hvort ráðuneytið veitti skýringar sínar eða ekki. Þessu til viðbótar og þrátt fyrir að lögð hefði verið áhersla á að þau gögn, sem umboðsmaður óskaði eftir með bréfi 19. maí 2025, bærust eigi síðar en 2. júní sama ár, bárust gögnin eftir þann frest.

Í tilefni af framangreindu er rétt að taka fram að með lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eru umboðsmanni fengnar víðtækar heimildir til að krefja stjórnvöld um upplýsingar og skriflegar skýringar sem hún þarfnast vegna starfs síns. Þessar heimildir eru fengnar umboðsmanni þannig að hún geti gegnt því hlutverki sem henni er að lögum falið, upplýst mál með fullnægjandi hætti og afgreitt þau innan hæfilegs tíma. Forsenda þess að þessi markmið laganna náist er að stjórnvöld bregðist við með fullnægjandi hætti þegar umboðsmaður óskar upplýsinga og skýringa. Í því felst meðal annars að stjórnvöld svari beiðnum umboðsmanns innan hæfilegs tíma og leitist eftir fremsta megni við að svara innan þeirra fresta sem umboðsmaður setur þeim.

Að teknu tilliti til þess að skýringar ráðuneytisins til umboðsmanns 13. maí 2025 voru hvorki miklar að vöxtum né voru í þeim fólgin ítarleg sjónarmið, sem ekki hafði verið komið á framfæri við umboðsmann áður, verður að telja framangreindan drátt á svörum til umboðsmanns aðfinnsluverðan og óútskýrðan. Sömuleiðis er gagnrýnivert að ráðuneytið hafi jafnoft og raun ber vitni gefið umboðsmanni tilefni til að ætla að svör væru á næsta leiti þegar sú varð ekki raunin. Með vísan til framangreinds beini ég því til atvinnuvegaráðuneytisins að gæta eftirleiðis betur að því að umboðsmanni sé svarað innan hæfilegs frests og samskipti þess við umboðsmann verði í samræmi við framangreind sjónarmið. Slíkt er forsenda þess að umboðsmaður Alþingis geti sinnt því hlutverki sem henni er að lögum falið.

  

V Niðurstaða

Það er niðurstaða mín að matvælaráðuneytið, síðar atvinnuvegaráðuneytið, hafi ekki hagað meðferð sinni á stjórnsýslukæru A ehf. á ákvörðun Fiskistofu í máli félagsins í samræmi við 1. og 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ég beini þeim tilmælum til atvinnuvegaráðuneytisins að hraða meðferð málsins og að ráðuneytið hafi þau sjónarmið, sem rakin hafa verið í álitinu, í huga eftirleiðis. Að endingu mælist ég til þess að upplýsingagjöf og samskiptum ráðuneytisins við umboðsmann verði hér eftir hagað þannig að henni sé unnt að rækja lögbundið hlutverk sitt og afgreiða mál innan hæfilegs tíma.