Barnavernd. Stofnanir á vegum barnaverndaryfirvalda. OPCAT-eftirlit. Ekki ástæða til aðgerða. Skýringar fengnar.

(Mál nr. F5/2025)

Umboðsmaður Alþingis tók að eigin frumkvæði til athugunar fyrirkomulag og umfang aðgangstakmarkana gagnvart börnum sem vistuð eru á meðferðarheimilinu Blönduhlíð, sem rekið er af Barna- og fjölskyldustofu og er nú starfrækt á sjúkrahúsinu Vogi. Tildrög athugunarinnar mátti rekja til fréttaflutnings síðastliðið vor af slysi sem varð þegar barn sem vistað var á heimilinu reyndi að yfirgefa það með því að fara út um glugga á annarri hæð hússins, en athugunin helgaðist einnig af þeim tilgangi að umboðsmaður gæti áttað sig á því hvort úrræðið félli undir OPCAT-eftirlit embættisins.

Í svari Barna- og fjölskyldustofu kom meðal annars fram að vegna læsinga að næturlagi væri börnum ókleift að yfirgefa heimilið af sjálfsdáðum á þeim tíma sólarhrings. Samkvæmt verklagi færu starfsmenn á eftir börnum sem yfirgæfu heimilið án leyfis, en neitaði barn að snúa til baka væri metið hvort lögregla væri kölluð til. Þá kom fram að vírum hefði verið komið fyrir á glugga og gluggakarmi í kjölfar umrædds slyss sem komi í veg fyrir að hægt sé að opna gluggann til fulls.

Í ljósi þess að þegar hafði verið brugðist við þeirri hættu sem stafað gat af því að börn færu út um glugga á annarri hæð hússins sá umboðsmaður ekki ástæðu til þess að aðhafast frekar hvað það atriði varðar. Þá var það niðurstaða hennar að úrræðið félli undir OPCAT-eftirlit embættisins og verður það því haft í huga við framkvæmd þess framvegis.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. september 2025.

   

   

I

Hér með tilkynnist að embætti umboðsmanns Alþingis hefur lokið frumkvæðisathugun sinni á fyrirkomulagi og umfangi aðgangstakmarkanna gagnvart börnum sem vistuð eru á meðferðarheimilinu Blönduhlíð, sem rekið er af Barna- og fjölskyldustofu og er nú starfrækt á sjúkrahúsinu Vogi.

Tildrög athugunarinnar má rekja til fréttaflutnings síðasta vor af slysförum barns sem reyndi að yfirgefa staðinn með því að fara út um glugga á annarri hæð hússins. Í fréttum vegna málsins kom fram að starfsmenn hefðu í aðdraganda slyssins ítrekað þurft að fara á eftir börnum sem hefðu yfirgefið húsnæðið með þessum hætti.

Af þessu tilefni var Barna- og fjölskyldustofu ritað bréf 3. apríl sl. þar sem þess var í fyrsta lagi óskað að umboðsmaður yrði upplýstur um hvernig aðgengi vistaðra barna inn og út úr byggingunni væri háttað, svo sem hvort einhverjar takmarkanir væru á aðgengi og hvort börn þyrftu að leita liðsinnis starfsmanns ef þau vildu yfirgefa staðinn. Í öðru lagi var spurt um hvort breytingar hefðu orðið á fyrirkomulagi aðgangs vistaðra barna á meðferðardeild frá því sem var þegar deildin var alfarið í húsnæði Stuðla að Fossaleyni. Í þriðja lagi var óskað eftir skýringum á því hvers vegna vistuð börn hefðu ítrekað yfirgefið staðinn með því að fara út um glugga á annarri hæð í stað þess að leita annarra leiða. Helgaðist beiðnin meðal annars af þeim tilgangi að umboðsmaður gæti áttað sig á því hvort úrræði Barna- og fjölskyldustofu á Vogi kynni að falla undir opcat-eftirlit embættisins.

Í svari Barna- og fjölskyldustofu 7. maí sl. kom fram að meðferðarheimilið Blönduhlíð væri skilgreint sem opið úrræði. Í því fælist að börn væru ekki læst inni og ekki stöðvuð með líkamlegu afli ætluðu þau að hlaupast á brott. Tilteknu verklagi væri hins vegar fylgt ef barn yfirgæfi deildina án leyfis og fylgdi það með svari Barna- og fjölskyldustofu. Þar segir meðal annars að ef skjólstæðingur fari í svokallað brotthlaup skuli fylgja honum eftir ef mögulegt er til að tryggja öryggi hans. Þá skuli reynt að beita fortölum til að fá hann aftur inn á heimilið en ef viðkomandi neitar því skuli meta hvort það þurfi aðstoð lögreglu við að færa hann aftur þangað inn. Ef skjólstæðingur yfirgefur heimilið án þess að starfsmenn verði þess varir skuli hefja leit að honum í nærumhverfi meðferðarheimilisins. Finnist hann ekki við leit skuli haft samráð við barnaverndarþjónustu varðandi tilkynningu til lögreglu.

Um aðgengi vistaðra barna inn og út úr byggingunni og hugsanlegar takmarkanir á því segir í bréfinu að börn fari aðallega um tvo inn- og útganga sem báðir eru á jarðhæð hússins, annars vegar aðalinngang en hins vegar inngang á reykingasvæði. Aðalinngangur sé alltaf læstur en inngangur á reykingasvæði sé að jafnaði ólæstur á daginn en læstur að næturlagi. Því þurfi skjólstæðingar að leita liðsinnis starfsfólks til þess að yfirgefa bygginguna á næturnar. Í bréfinu segir einnig að börnum sem vistuð eru á meðferðarheimilinu beri almennt að fá samþykki hjá starfsfólki fyrir því að yfirgefa húsnæðið. Verður ekki annað ráðið en að litið sé á útgöngu barns án samþykkis sem brotthlaup og þá fari viðbrögð eftir áðurnefndu verklagi.

Þá segir í bréfi Barna- og fjölskyldustofu að starfsmenn meðferðarheimilisins hafi fengið þær skýringar frá börnunum á því að þau hefðu kosið að fara út um gluggann á annarri hæð í stað þess að leita annarra leiða, að það yrði til þess að leit að þeim myndi hefjast síðar en ella auk þess sem það væri gaman og svalt að fara þessa leið. Samkvæmt upplýsingum frá Barna- og fjölskyldustofu var vírum komið fyrir á glugga og gluggakarmi í kjölfar slyssins sem hindra að hægt sé að opna gluggann til fulls.

  

II

Þar sem þegar hefur verið brugðist við þeirri hættu sem stafað getur af því að börn fari út um glugga á annarri hæð hússins sér umboðsmaður ekki ástæðu til þess að aðhafast frekar hvað það atriði varðar. Hins vegar er vert að benda á að börn höfðu ítrekað farið út um umræddan glugga áður en alvarlegt slys varð á skjólstæðingi og telur umboðsmaður aðfinnsluvert að ekki hafi verið gripið til aðgerða fyrr til þess að tryggja öryggi skjólstæðinga. Þykir því tilefni til þess að benda á mikilvægi þess að í hvívetna sé gætt að öryggi barna sem vistast á meðferðarheimilum á ábyrgð ríkisins, jafnt á varanlegum starfsstöðvum og þegar starfsemin er hýst í tiltekinni aðstöðu til bráðabirgða.

Eins og Barna- og fjölskyldustofu er kunnugt hefur umboðsmaður Alþingis frá árinu 2018 sinnt eftirliti á grundvelli valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu  (Optional Protocol to the Convention against Torture, OPCAT), sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Undir eftirlitið falla staðir þar sem fólk er eða kann að vera frelsissvipt, en í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð frumvarpsins er tekið fram að með frelsissviptingu sé í þessu samhengi átt við hvers konar fangelsun, vistun eða gæslu einstaklings af hálfu opinberra aðila eða einkaaðila þar sem hann hefur ekki frelsi til þess að yfirgefa vistunina.

Nánari leiðbeiningu um gildissvið valfrjálsu bókunarinnar er að finna í almennum athugasemdum við 4. gr. hennar. Þar er í grundvallaratriðum lögð áhersla á rúma skilgreiningu á stöðum þar sem fólk er frelsissvipt sem meðal annars tekur mið af því hvort einstaklingar sem þar vistast hafi raunhæfa möguleika til þess að yfirgefa staðinn að vild fremur en á skilgreiningar í löggjöf eða af hálfu stjórnvalda á þeim takmörkunum sem felast í vistuninni. Í athugasemdunum er sérstakur gaumur jafnframt gefinn að fólki í viðkvæmri stöðu, þar með talið börnum sem kunna að vistast í félagslegum úrræðum eða á öðrum stöðum þar sem þau eru svipt frelsi sínu.

Með vísan til framangreinds og þess að börn sem vistast í Blönduhlíð, úrræði Barna- og fjölskyldustofu sem nú er til húsa á sjúkrahúsinu Vogi, virðast ekki frjáls ferða sinna nema að takmörkuðu leyti auk þess sem þau geta sætt ýmsum frekari skerðingum á persónufrelsi sínu og friðhelgi einkalífs, sbr. 82. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 verður að telja starfsemi meðferðarheimilisins Blönduhlíðar falla undir OPCAT-eftirlit umboðsmanns og verður það haft í huga við framkvæmd þess.