A leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem beindist að úrskurðarnefnd velferðarmála og laut að því að nefndin hefði framsent áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar stjórnsýslukæru hans í stað þess að taka hana til umfjöllunar. Kæran laut að ákvörðun sveitarfélagsins um að hætta stuðningsþjónustu við hann og málsmeðferð í tengslum við þá ákvörðun. A beindi einnig kæru til nefndarinnar nokkrum mánuðum fyrr vegna sama ágreinings og nefndin afgreiddi hana með sama hætti.
Umboðsmaður tók fram að hvorki væri mælt fyrir um heimildir velferðarráðs Reykjavíkurborgar, áfrýjunarnefndar ráðsins og velferðarsviðs til fullnaðarafgreiðslu mála í samþykkt um stjórn borgarinnar né viðaukum við hana. Benti umboðsmaður á að framsal valds til töku ákvarðana í félagsþjónustu sveitarfélagsins væri aftur á móti útfært í samþykkt fyrir velferðarráð, reglum um þá félagsþjónustu sem sveitarfélagið veitir og reglum um áfrýjunarnefnd velferðarráðs. Þessar reglur hefðu ekki hlotið þá málsmeðferð sem sveitarstjórnarlög gera ráð fyrir hvað snertir samþykktir um stjórn sveitarfélaga og samþykkt um velferðarráð hafði ekki verið birt í Stjórnartíðindum. Umboðsmaður taldi því að aðferð Reykjavíkurborgar við að framselja vald til ákvörðunartöku um stuðningsþjónustu væri ekki í samræmi við lög. Hún lagði því til grundvallar að hvorki starfsmaður velferðarsviðs né áfrýjunarnefnd velferðarráðs hefði verið bær til þess að taka ákvörðun í máli A.
Fyrir lá að við meðferð málsins gekk úrskurðarnefndin út frá því að starfsmenn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hefðu haft heimild til töku þeirra ákvarðana sem lágu fyrir í máli A. Ekki var kannað sérstaklega hvort það væri í samræmi við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar eða hvernig birtingu annarra samþykkta og viðauka hefði verið háttað.
Umboðsmaður tók fram að þegar stjórnvald á kærustigi teldi úrlausn stjórnsýslukæru heyra undir annað stjórnvald gæti verið rétt að framsenda málið þar til bæru stjórnvaldi eða vísa því heim til nýrrar meðferðar. Samhliða væri þó skylt að ljúka því með því að taka stjórnvaldsákvörðun um frávísun þess nema þegar augljóst væri að málið félli ekki undir verksvið stjórnvaldsins. Taldi umboðsmaður að úrskurðarnefndin hefði ekki lagt málið í réttan lagalegan farveg sem hefði leitt til þess að A naut ekki þess réttaröryggis sem lög gera ráð fyrir. Þá taldi hún að framsending á kærum A, án þess að ganga úr skugga um grundvöll þeirrar ákvörðunar sem kærurnar beindust að, hefði ein og sér ekki verið í samræmi við þær rannsóknarskyldur sem hvíla á nefndinni og eftirlits- og réttaröryggishlutverk hennar.
Umboðsmaður beindi tilmælum til nefndarinnar um að taka framvegis mið af sjónarmiðum í álitinu. Hún sendi jafnframt Reykjavíkurborg afrit af því og kvaðst mundu fylgjast með boðuðum breytingum á samþykktum sveitarfélagsins.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 9. júlí 2025.