Skattar og gjöld. Útsvar . Kæruleið ekki tæmd.

(Mál nr. 243/2025)

A kvartaði yfir álagningu útsvars í Árborg. Nánar tiltekið hækkunar á útsvarshlutfalli og taldi að um væri að ræða mismun vegna búsetu.

Innviðaráðuneytið hafði, að fenginni umsögn eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga, fallist á beiðni sveitarstjórnar um heimild til að leggja álag á útsvar vegna fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Þar sem ekki var ráðið af kvörtuninni að kvartað væri yfir hagsmunum A, auk þess sem ekki hafði verið leitað til ráðuneytisins með umkvörtunarefnið voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um málið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. júlí 2025.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar þinnar 4. júní sl. sem beinist að sveitarfélaginu Árborg og eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og lýtur að álagningu útsvars árið 2024. Nánar tiltekið snýr kvörtunin að ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar um að leggja álag á útsvar og að ákvörðunin hafi verið afturvirk. Kvörtunin er sett fram á þeim forsendum að ákvörðunin leiði til þess að íbúum mismunandi sveitarfélaga sé mismunað út frá búsetu, sem sé meðal annars í ósamræmi við aðrar stjórnvaldsaðgerðir, líkt og jafnlaunavottun sem nefnd er í kvörtuninni í því sambandi. Telur þú það skjóta skökku við að þegar fyrirtæki í atvinnurekstri hafa jafnað hlut starfsmanna sinna sé þeim mismunað með misháum sköttum og útsvari og þeim þannig mismunað eftir búsetu. Hef ég að þessu leyti skilið kvörtunina á þá leið að í henni felist fremur ábending um þá mögulegu mismunun sem kann að leiða af umræddri ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar fremur en að í henni felist kvörtun yfir hækkun þess útsvars sem þér ber að greiða sem íbúi í sveitarfélaginu.

  

II

Ákvörðun sveitarstjórnar var tekin á fundi hennar 29. nóvember 2023. Í fundargerð sveitarstjórnar er vísað til bréfs hennar til innviðaráðuneytisins 8. nóvember 2023 þar sem þess var óskað, í ljósi þungrar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, að það fengi heimild ráðherra til að leggja 10% álögur á útsvör fyrir árið 2024 á grundvelli 2. töluliðar 1. mgr. 84. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Í svari innviðaráðuneytisins 27. nóvember sama ár var, að fenginni umsögn eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga, fallist á umrædda beiðni sveitarstjórnar um heimild til að leggja 10% álag á útsvör fyrir árið 2024.

Í 84. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um að innviðaráðherra geti að fenginni rökstuddri afstöðu eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélag heimilað eða lagt fyrir sveitarstjórn að leggja álög á útsvör og eða fasteignaskatta sem nemi allt að 25% umfram það hámark sem ákveðið er í lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Svo sem áður er rakið mun innviðaráðherra hafa fallist á beiðni sveitarstjórnar Árborgar um fyrrnefnda heimild til að leggja álög á útsvör í sveitarfélaginu.

Um störf umboðsmanns Alþingis gilda samnefnd lög nr. 85/1997. Samkvæmt 2. gr. laganna er hlutverk umboðsmanns að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Það er hins vegar ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum.

Þá er mælt fyrir um það skilyrði í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Líkt og áður greinir hef ég skilið kvörtunina þannig að í henni felist öðru fremur almenn ábending um möguleg áhrif ákvörðunar bæjarstjórnarinnar um hækkun útsvars. Með hliðsjón af framangreindu eru af þeim sökum ekki forsendur fyrir mig til þess að taka hana til nánari umfjöllunar á þeim grundvelli. Þá verður ekki ráðið að þú hafir leitað til innviðaráðuneytisins með umkvörtunarefnið og þær athugasemdir sem þú greinir í kvörtun þinni. Í ljósi þess sem að framan greinir og þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að þú leitir fyrsta kastið eftir viðbrögðum innviðaráðuneytisins og freistir þess að koma að sjónarmiðum þínum um málið.

  

III

Með vísan til alls framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun þinni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að þú getur, að fengnum viðbrögðum ráðuneytisins, leitað til umboðsmanns Alþingis á nýjan leik ef þú telur tilefni til og verður þá tekin afstaða til þess hvort og þá með hvaða hætti kvörtunin getur komið til frekari athugunar af minni hálfu.