Fjármála- og tryggingastarfsemi. Fjármálamarkaður. Lagaheimild stjórnvaldsfyrirmæla. Ábending.

(Mál nr. 12397/2024)

Kvartað var yfir ákvörðun Seðlabanka Íslands, vegna undanþága frá skilyrðum reglna um viðskiptareikninga og vaxtalausa reikninga við Seðlabanka Íslands, fyrir stofnun og notkun viðskiptareikninga. Tiltekin grein reglnanna ætti sér ekki fullnægjandi stoð í lögum eða væri í andstöðu við lög og því væri ákvörðun bankans ólögmæt.

Umboðsmaður benti á að samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands væri honum falið að setja nánari reglur um viðskipti sín án þess að þar væri að finna nákvæma tilgreiningu á því hvert skyldi vera efni þeirra. Þegar löggjafinn hefur með framangreindum hætti fengið stjórnvaldi vald til að setja almennar reglur þar sem jafnframt reynir á sérfræðilegt mat þess líkt og í þessu tilviki verður að að játa því tölu­­vert svigrúm við mat á því hvers efnis þær reglur skuli vera og þar með útfæra þær með þeim hætti sem það telur best samræmast mati þess á þeim hagsmunum sem máli skipta. Mat Seðlabanka Íslands þarf auk þess að vera málefnalegt og í eðli­legu samhengi við það markmið sem býr að baki því verkefni sem um er að ræða. Taldi umboðsmaður orðalag ákvæðisins ekki girða fyrir heimild bankans til að setja reglur um nánari skilyrði þess að viðskiptum yrði komið á. Þvert á móti væri mælt fyrir um að hann setji nánari reglur um viðskipti sín.

Taldi umboðsmaður að skilyrði reglnanna byggði á heildstæðu mati Seðlabankans á því hvernig rétt væri að útfæra viðskipti þannig að samræmdist hlutverki bankans. Ekki væru forsendur til að hnekkja þessu mati eða fullyrða að bankinn hefði með setningu reglnanna farið út fyrir það svigrúm sem honum væri fengið. Bankaráði Seðlabankans var þó sent bréf þar sem bent var á nokkur atriði sem rétt væri að það hefði framvegis í huga við meðferð sambærilegra mála.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 6. desember 2024.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar A hf. 6. október 2023 sem lýtur að ákvörðun Seðlabanka Íslands 15. júní 2023. Í ákvörðun Seðlabankans var sparisjóðnum veittar undanþágur frá skilyrðum 2. gr. reglna nr. 1644/2022, um viðskiptareikninga og vaxtalausa reikninga við Seðlabanka Íslands, fyrir stofnun og notkun viðskiptareikninga hjá sparisjóðnum, fram til 31. desember 2023 með tilteknum takmörkunum. Kvörtunin er einkum byggð á því að 2. gr. reglnanna eigi sér ekki fullnægjandi stoð í lögum eða sé í andstöðu við lög og því sé ákvörðun Seðlabankans ólögmæt.

Í tilefni af kvörtuninni var bankaráði Seðlabanka Íslands ritað bréf 23. október 2023 þar sem nánar greindra skýringa var óskað. Svar bankaráðs barst umboðsmanni 20. nóvember 2023 og bárust athugasemdir A hf. 7. mars sl. Þá var bankaráði að nýju ritað bréf 2. september sl. og bárust svör þess 13. sama mánaðar. Með tölvupósti 19. september sl. var upplýst að A hf. teldi ekki þörf á að gera sérstakar athugasemdir við svör bankaráðs en áréttaði þær röksemdir og sjónarmið sem fram komu í bréfi þess frá 7. mars sl. Þar sem sparisjóðurinn hefur fengið afrit af framangreindum bréfaskiptum er ekki þörf á að rekja efni þeirra nánar, nema að því leyti sem þýðingu kann að hafa fyrir niðurstöðu málsins.

     

II

Af því sem kemur fram í kvörtuninni og gögnum málsins verður ráðið að í kjölfar birtingar þágildandi reglna nr. 18/2022, um viðskiptareikninga við Seðlabanka Íslands, óskaði A hf. 30. mars 2022 eftir 36 mánaða undanþágu frá ákvæði 2. mgr. 2. gr. reglnanna. Af því tilefni veitti Seðlabankinn A hf. 10. maí 2022 tímabundna heimild til 15. febrúar 2023 til að stofna viðskiptareikning hjá bankanum án þess að öll skilyrði þágildandi reglna nr. 18/2022 væru uppfyllt og enn fremur frest til 1. júní 2022 til að uppfylla skilyrði 2. mgr. 2. gr. reglnanna. Jafnframt óskaði Seðlabankinn eftir uppfærðri viðskiptaáætlun frá A hf. og tók fram að yrði sú áætlun og framgangur hennar ekki til þess fallin að uppfylla skilyrði 2. gr. reglnanna kynni viðskiptareikningi sparisjóðsins að vera lokað í samræmi við 5. gr. reglnanna.  Hinn 16. desember 2022 kom A hf. á framfæri við Seðlabankann athugasemdum sínum við lagastoð þágildandi reglna nr. 18/2022 og fór jafnframt fram á að reglurnar í heild sinni yrðu teknar til endurskoðunar og að tilgreind ákvæði yrðu felld brott. Var þeim umleitunum hafnað með bréfi Seðlabankans til A hf. 2. mars 2023 þar sem Seðlabankinn ítrekaði skilyrði 2. gr. reglna nr. 1644/2022, sem þá höfðu tekið gildi og voru samhljóða 2. gr. eldri reglna um sama efni, nr. 18/2022. Jafnframt var í bréfinu tekið fram að Seðlabankinn lýsti sig reiðubúinn til að koma áfram til móts við sparisjóðinn með því að framlengja heimild hans til að eiga viðskiptareikning hjá bankanum gegn því að gripið yrði til viðeigandi aðgerða til þess að uppfylla skilyrði 2. gr. reglnanna. Loks ítrekaði Seðlabankinn kröfu sína um að A hf. skýrði fyrirætlanir sínar um hvernig sparisjóðurinn hygðist aðlaga starfsemi félagsins svo að hún uppfyllti skilyrði 2. gr. reglna nr. 1644/2022, einkum 2. mgr.

Með bréfi 18. mars 2023 óskaði A hf. eftir fresti til 31. desember 2023 til að uppfylla kröfur starfsleyfis síns um útlánastarfsemi. Kom jafnframt fram að sparisjóðurinn væri móttækilegur fyrir því að slíkur frestur yrði nýttur m.a. til þess að auka við vöruframboð sparisjóðsins, meðal annars í þeim tilgangi að uppfylla ákvæði reglna nr. 1644/2022. Í svari Seðlabankans 15. júní 2023 áréttaði bankinn þá afstöðu sína að A hf. uppfyllti hvorki skilyrði 5. töluliðar 1. mgr. né 2. mgr. 2. gr. reglna nr. 1644/2022 og ítrekaði kröfu sína um að gerð yrði grein fyrir fyrirætlunum um hvernig sparisjóðurinn hygðist uppfylla umrædd skilyrði með raunhæfum áætlunum. Engu að síður veitti Seðlabankinn A hf. undanþágu frá umræddum skilyrðum fram til 31. desember 2023, í samræmi við ósk félagsins þar um. Var tekið fram að undanþágan væri veitt með það að leiðarljósi að veita sparisjóðnum áframhaldandi svigrúm til þess að móta starfsemi sína til samræmis við gerðar kröfur. Undanþágunni voru þó settar þær skorður að hámark þeirrar innstæðu sem A hf. var heimilt að geyma á viðskiptareikningi og í bundnum innlánum, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglnanna miðaðist við 2,5 ma. kr. frá og með 23. júní 2023. Innstæða umfram hámarkið yrði ekki vaxtaberandi á meðan skilyrði 2. mgr. 2. gr. reglnanna væri ekki uppfyllt.

  

III

1

Um Seðlabanka Íslands gilda samnefnd lög nr. 92/2019. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. þeirra er Seðlabanki Íslands sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins sem heyrir undir ráðherra. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 92/2019 segir að ákvæðinu sé ætlað að koma í stað 1. mgr. 1. gr. og 22. gr. þágildandi laga en lagt sé til að orðalagi ákvæðanna verði breytt nokkuð til að leggja áherslu á sjálfstæði Seðlabankans og skýra yfirstjórnunarheimildir ráðherra (Þskj. 1251, 149. löggjafarþing 2018-2019, bls. 43). Í 2. gr. laga nr. 92/2019 er kveðið á um markmið og verkefni Seðlabanka Íslands. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar skal Seðlabanki Íslands stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þá skal bankinn sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisforða og stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslumiðlun í landinu og við útlönd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 92/2019 tekur Seðlabanki Íslands við innlánum frá þeim lánastofnunum sem teljast til viðskiptabanka, sparisjóða og útibúa erlendra innlánsstofnana hér á landi og frá öðrum aðilum sem heimilt er lögum samkvæmt að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Þá segir í 2. mgr. að Seðlabankanum sé heimilt að taka við innlánum frá þátttakendum í greiðslukerfi Seðlabankans og öðrum lögaðilum sem þar eru tilgreindir. Í 3. mgr. segir svo að Seðlabankinn setji nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt þessari grein, þar á meðal hvaða aðilum sem tilgreindir eru í 2. mgr. er heimilt að eiga innstæður í bankanum.

Með vísan til 3. mgr. 18. gr. og almennrar reglusetningarheimildar 2. mgr. 46. gr. laganna hefur Seðlabankinn sett reglur nr. 1644/2022, um viðskiptareikninga og vaxtalausa reikninga við Seðlabanka Íslands. Í 1. mgr. 2. gr. reglnanna segir að stofnun viðskiptareiknings hjá Seðlabanka Íslands sé háð því skilyrði að hún samrýmist markmiðum og verkefnum Seðlabankans eins og þau eru skilgreind samkvæmt lögum nr. 92/2019. Í því skyni skuli nánar greind skilyrði 1. til 7. töluliðar 1. mgr. vera uppfyllt. Í 5. tölulið er mælt fyrir um það skilyrði að fjármálafyrirtæki sé að mati Seðlabankans virkur þátttakandi í miðlun peningastefnu bankans, s.s. með veitingu innlána og útlána til almennings og fyrirtækja og falli að markmiðum Seðlabankans um að stuðla með peningastefnu sinni og framkvæmd hennar að stöðugu verðlagi. Í 6. og 7. tölulið er kveðið á um þau skilyrði að starfsemi fjármálafyrirtækis raski ekki að mati Seðlabankans fjármálastöðugleika né vinni að öðru leyti gegn traustri og öruggri fjármálastarfsemi og raski ekki framgangi lögbundinna verkefna hans. Þá kemur fram í 2. mgr. 2. gr. reglnanna að með hliðsjón af skilyrðum 5. og 6. töluliðar 1. mgr. skuli hlutfall innlána viðskiptavina fjármálafyrirtækis sem geymt er á viðskiptareikningi eða á bundnum innlánum hjá Seðlabankanum nema að hámarki 40%. Í 2. málslið ákvæðisins segir að heimilt sé að víkja tímabundið frá skilyrði 1. málsliðar við sérstakar aðstæður að fengnu leyfi Seðlabankans.

Í bréfi umboðsmanns til bankaráðs 2. september sl. var þess óskað að bankinn veitti upplýsingar um hvort það hefði tekið ákvæði reglna nr. 1644/2022 til athugunar og upplýsti eftir atvikum um niðurstöðu þeirrar athugunar. Hefði slík athugun ekki farið fram var þess óskað að bankaráð léti í té rökstudda afstöðu til lagastoðar 2. gr. reglnanna. Í skýringum bankaráðs til umboðsmanns 13. september sl. er m.a. vísað til þess að ákvæði reglnanna séu hluti af framkvæmd peningastefnu Seðlabanka Íslands sem ekki sæti endurskoðun bankaráðs. Umrædd ákvæði í reglunum hefðu verið til umfjöllunar á 107. fundi peningastefnunefndar 7. og 8. febrúar 2022. Í fundargerð komi fram að nefndin sé sammála því að rétt væri að yfirfara og endurskoða þær reglur sem gilda um viðskipti og viðskiptareikninga hjá Seðlabanka Íslands með það í huga að standa vörð um lögbundið markmið Seðlabankans frá sjónarhóli peningastefnu og svigrúm hans til að stuðla með peningastefnu sinni og framkvæmd hennar að stöðugu verðlagi. Þá hefði fjármálastöðugleikanefnd áður á fundi sínum 6. og 7. desember 2021 fjallað um tilefni til endurskoðunar á reglum Seðlabankans. Í fundargerð komi m.a. fram að rætt hefði verið um kosti og galla vaxtamunarbanka (e. narrow banking) og hvort slík starfsemi samræmdist meginmarkmiðum Seðlabankans um að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Viðskiptalíkan vaxtamunarbanka byggi á því að innlán viðskiptavina verði að mestu leyti lögð inn á viðskiptareikning seðlabanka. Nefndin teldi því rétt að yfirfara og endurskoða þær reglur sem gildi um viðskipti og viðskiptareikninga hjá Seðlabanka Íslands með það í huga að standa vörð um lögbundin markmið Seðlabankans frá sjónarhóli fjármálastöðugleika. Í ljósi þess væru umræddar reglur um innlánsviðskipti settar með stoð í lögum nr. 92/2019 í tengslum við lögbundin viðfangsefni bankans, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Af þeim sökum teldi bankaráð ekki tilefni til frekari athugunar á reglum nr. 1644/2022, hvorki varðandi efni né lagagrundvöll.

  

2

Sem fyrr segir er kvörtunin einkum á því reist að 5. til 7. töluliður 1. mgr. og 2. mgr. 2. gr. reglna nr. 1644/2022 eigi sér ekki fullnægjandi lagastoð eða sé í andstöðu við lög nr. 92/2019.

Af því tilefni tek ég fram að með 3. mgr. 18. gr. laga nr. 92/2019 er Seðlabankanum falið að setja nánari reglur um viðskipti sín samkvæmt greininni án þess að þar sé að finna nákvæma tilgreiningu á því hvert skuli vera efni þeirra. Þegar löggjafinn hefur með framangreindum hætti fengið stjórnvaldi vald til að setja almennar reglur þar sem jafnframt reynir á sérfræðilegt mat þess líkt og í þessu tilviki verður að mínu áliti að játa því tölu­­vert svigrúm við mat á því hvers efnis þær reglur skuli vera og þar með útfæra þær með þeim hætti sem það telur best samræmast mati þess á þeim hagsmunum sem máli skipta. Mat Seðlabanka Íslands þarf auk þess að vera málefnalegt og í eðli­legu samhengi við það markmið sem býr að baki því verkefni sem um er að ræða. Í slíkum tilvikum beinist athugun umboðsmanns fyrst og fremst að því að kanna hvort reglurnar séu í samræmi við lög og eftir atvikum hvort stjórnvald hafi lagt fullnægjandi grundvöll að efni þeirra og hafi byggt þær á málefnalegum sjónarmiðum. Í slíkum tilvikum felur athugun umboðsmanns hins vegar ekki í sér að leggja nýtt eða sjálfstætt mat á það hvert efni slíkra reglna eigi að vera umfram það sem leiðir af viðkomandi lagaheimild.

Í kvörtuninni er þeirri afstöðu m.a. lýst að af 1. mgr. 18. gr. laga nr. 92/2019 leiði að Seðlabankanum beri skylda til að taka við innlánum frá þeim aðilum sem þar eru taldir upp, þ. á m. viðskiptabönkum og sparisjóðum. Af því tilefni tek ég fram að þó að fallast megi á að í ákvæðinu sé mælt fyrir um það lögbundna hlutverk bankans að taka við innlánum frá þessum aðilum þá tel ég orðalag ákvæðisins ekki girða fyrir heimild Seðlabankans til að setja reglur um nánari skilyrði þess að slíkum viðskiptum verði komið á. Þvert á móti er í 3. mgr. 18. gr., eins og áður er rakið, mælt fyrir um að bankinn setji „nánari reglur um viðskipti sín“ samkvæmt greininni. Fæ ég ekki betur séð en að með þessu sé Seðlabankanum fengið visst svigrúm til þess að útfæra nánar hvernig hann telur að viðskiptum við aðila samkvæmt 1. og 2. mgr. 18. gr. verði best fyrir komið. Við það mat hlýtur Seðlabankinn að þurfa að taka tillit til þess hvernig þau viðskipti samrýmast lögbundnu hlutverki og markmiði bankans að öðru leyti svo sem að framan er rakið.

Af gögnum málsins og skýringum bankaráðs verður ráðið að það sé afstaða Seðlabankans að efni 2. gr. reglna nr. 1644/2022 og þau skilyrði sem þar er mælt fyrir um, m.a. um að fjármálafyrirtæki sé virkur þátttakandi í miðlun peningastefnu bankans, s.s. með veitingu innlána og útlána, svo og skilyrðið um hámark innstæðu sem heimilt er að geyma á viðskiptareikningi bankans, séu í samræmi við lögbundið hlutverk bankans. Með reglunum séu gerðar ríkari kröfur til þeirra sem vilja eiga viðskipti við bankann með þessum hætti til þátttöku í miðlun peningastefnu auk þess sem þær eiga að tryggja að starfsemi fjármálafyrirtækja raski ekki fjármálastöðugleika. Í frétt á vef Seðlabankans 14. janúar sl. er fjallað um þágildandi reglur nr. 18/2022 þar sem umþrætt skilyrði, m.a. um hámarks innstæðu, voru fyrst útfærð. Þar segir m.a. að Seðlabankinn telji betur samræmast hlutverki bankans að haga vaxtamiðlun í gegnum þau fjármálafyrirtæki sem geta með skilvirkum og gagnsæjum hætti miðlað henni áfram til einstaklinga og fyrirtækja í formi innlána eða útlána.

Ég hef kynnt mér efni reglnanna og þær röksemdir sem færðar hafa verið fram fyrir þeim og fæ ekki annað ráðið en að skilyrði reglnanna byggi á heildstæðu mati Seðlabankans á því hvernig rétt sé að útfæra viðskipti samkvæmt 18. gr. laga nr. 92/2019 þannig að samræmist hlutverki bankans, m.a. um miðlun peningastefnu og markmiðum laga nr. 92/2019, um að stuðla að öruggu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Ég tel mig ekki hafa forsendur til að hnekkja þessu mati bankans. Þá tel ég mig ekki heldur hafa forsendur til að fullyrða að Seðlabankinn hafi með setningu reglnanna farið út fyrir það svigrúm sem honum er fengið á grundvelli framangreindra lagareglna. Með hliðsjón af því og fyrrnefndu svigrúmi sem ég tel að verði að játa Seðlabanka við þessar aðstæður tel ég ekki ástæðu til að gera athuga­semdir í þessu máli við efni reglna nr. 1644/2022, fyrir stofnun og notkun viðskiptareikninga hjá sparisjóðnum.

  

IV

Þar sem ekki verður annað ráðið en að ágreiningslaust sé að A hf. hafi á þeim tíma er atvik málsins áttu sér stað ekki uppfyllt nánar greind skilyrði reglnanna, s.s. um hámark innstæðu sem heimilt er að geyma á viðskiptareikningi bankans, eru ekki forsendur af minni hálfu til að gera athugasemd við ákvörðun Seðlabankans frá 15. júní 2023 um að veita A hf. undanþágu frá umræddum skilyrðum, svo sem nánar greinir hér að framan, til 31. desember 2023 með tilteknum takmörkunum. Þá tel ég að öðru leyti ekki tilefni til athugasemda við málsmeðferð bankans í tilefni af umsóknum sparisjóðsins um undanþágu frá fyrrgreindum reglum. Í því sambandi hef ég í huga að ekki verður annað ráðið en að Seðlabankinn hafi almennt leitast við að koma til móts við aðstæður sparisjóðsins og taka tillit til þess að hann hafði nýlega hafið starfsemi, með því að veita honum ráðrúm til að færa starfsemina til samræmis við umræddar kröfur í reglunum. Þannig var sparisjóðnum a.m.k. í tvígang veitt undanþága frá skilyrði um hámarksinnstæðu. Eins og máli þessu er háttað, og með hliðsjón af niðurstöðu minni, tel ég ekki að aðrar athugasemdir í kvörtuninni gefi mér tilefni til frekari athugunar á málinu.

  

V

Samkvæmt öllu framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtuninni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tel þó rétt að upplýsa um að ég hef ákveðið að rita bankaráði Seðlabanka Íslands hjálagt bréf þar sem ég kem á framfæri tiltekinni ábendingu vegna athugunar minnar á málinu. Hinn 26. september sl. var undirrituð kjörin umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 31. október sl. Hef ég því farið með mál þetta frá þeim tíma.

   


   

Bréf umboðsmanns til Seðlabanka Íslands 6. desember 2024.

    

Vísað er til fyrri samskipta vegna kvörtunar A hf. sem lýtur m.a. að lagastoð reglna nr. 1644/2022, um viðskiptareikninga og vaxtalausa reikninga við Seðlabanka Íslands.

Eins og kemur fram í bréfi mínu til lögmanns A hf., sem fylgir hjálagt, hef ég ákveðið að ljúka athugun minni á máli A hf. með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á máli þessu orðið mér tilefni til að koma eftirfarandi ábendingu á framfæri við bankaráð Seðlabanka Íslands.

A hf. leitaði upphaflega til umboðsmanns með kvörtun 30. júní 2023 vegna sömu atriða. Því máli var lokið með bréfi umboðsmanns Alþingis 11. ágúst 2023 með vísan til þess að afstaða bankaráðs til álitaefnis um lagastoð reglna nr. 1644/2022 lægi ekki fyrir í málinu. Í bréfinu er nánar rakið að samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, hafi bankaráð Seðlabankans eftirlit með því að hann starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Þótt eftirlit bankaráðs taki ekki til málsmeðferðar eða ákvarðana í einstökum málum, sbr. 2. málslið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2019, um Seðlabanka Íslands, væri kvörtunin byggð á því að almenn stjórnvaldsfyrirmæli Seðlabankans, reglur nr. 1644/2022, væru ekki í samræmi við lög. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem byggju að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og í ljósi þess hlutverks sem bankaráði Seðlabanka Íslands væri ætlað að hafa með höndum taldi umboðsmaður rétt að afstaða ráðsins lægi fyrir áður en kvörtunin gæti komið til skoðunar af hálfu embættis umboðsmanns. Var þá haft í huga að bankaráði gæfist kostur á að taka afstöðu til þess hvort erindið heyrði undir starfssvið þess og eftir atvikum bregðast við með þeim hætti sem það teldi tilefni til.

Í kjölfarið leitaði A hf. til bankaráðs, sem vísaði erindinu frá. Í svari bankaráðs til lögmannsins 4. október 2023 segir m.a.:

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands tekur eftirlit bankaráðs Seðlabanka Íslands ekki til málsmeðferðar eða ákvarðana í einstökum málum. Bankaráð hefur auk þess ekki heimildir til að taka til endurskoðunar einstaka ákvarðanir Seðlabankans. Þannig er ekki unnt að skjóta ákvörðunum Seðlabankans til bankaráðs til endurskoðunar eða leiðréttingar enda er bankaráð ekki æðra stjórnvald gagnvart bankanum í skilningi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Bankaráð hefur hins vegar almennt eftirlit með því að Seðlabankinn starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda.

Með vísan til framangreinds verður það ekki talið samrýmast hlutverki bankaráðs að taka afstöðu til umrædds erindis.

A hf. kvartaði í framhaldinu til umboðsmanns 6. október 2023 sem ritaði bankaráði bréf 23. október 2023 þar sem nánari skýringa var óskað vegna framangreindrar afgreiðslu bankaráðs á erindi félagsins.

Í svari bankaráðs 20. nóvember 2023 til umboðsmanns segir m.a. að bankaráð hafi byggt ákvörðun sína um að vísa erindinu frá á þeim grundvelli að ekki yrði annað ráðið af því, en að með því hafi verið óskað eftir endurskoðun á ákvörðun Seðlabankans frá 15. júní 2023. Í því samhengi hafi einkum verið litið til þess að frávísun umboðsmanns á kvörtuninni, sem hafi verið tilefni þess að erindið barst bankaráði, byggði á tilvísun til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Umrætt ákvæði kveði á um að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í málinu. Þá var tekið fram að ákvörðun um að vísa erindi A hf. frá væri óháð almennu eftirlitshlutverki bankaráðs. Bankaráð hafi þegar tekið til umfjöllunar reglur nr. 1644/2022 um viðskiptareikninga og vaxtalausa reikninga við Seðlabanka Íslands og þau skilyrði reglnanna sem kvörtun A hf. lúti að.

Af framangreindu tilefni tek ég fram að kvörtun A hf. verður ekki skilin með öðrum hætti en að hún hafi fyrst og fremst lotið að efni og lagastoð reglna nr. 1644/2022, þó að jafnframt hafi verið gerðar athugasemdir við ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 15. júní 2023. Þá hefur komið fram í svörum bankaráðs til umboðsmanns að það hafi í samræmi við lögbundið eftirlitshlutverk sitt tekið lagastoð reglna nr. 1644/2022 og þau skilyrði þeirra sem athugasemdir félagsins lutu að til athugunar og komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til frekari athugunar á þeim, hvorki varðandi efni né lagagrundvöll þeirra. Í ljósi þessara viðbragða bankans tel ég að það hefði betur samrýmst vönduðum stjórnsýsluháttum að bankaráð gerði A hf. grein fyrir því að það hefði tekið reglurnar til athugunar og eftir atvikum upplýst félagið um niðurstöðu þeirrar athugunar þegar hún lá fyrir í stað þess að vísa erindi félagsins frá að öllu leyti. Í því sambandi hef ég í huga að með „frávísun“ er gefið til kynna að mál hafi ekki réttilega verið borið fram við bankaráð og getur slík niðurstaða því valdið misskilningi um hvort heimilt hafi verið að leita til þess með almennar athugasemdir á borð við þær sem fólust m.a. í erindi félagsins.

Af svörum bankaráðs til A hf. sem og öðrum svörum þess til mín hefur þeirri skoðun verið lýst að ekki hafi verið rétt af umboðsmanni Alþingis að ljúka athugun sinni í tilefni af fyrri kvörtun félagsins með leiðbeiningum um að félagið leitaði fyrsta kastið eftir afstöðu bankaráðs með vísan til 3. mgr. 6. gr. Í því sambandi hefur verið bent á að bankráð sé ekki „æðra stjórnvald“ í skilningi greinarinnar. Af því tilefni árétta ég að kvörtun félagsins beindist fyrst og fremst að því að þær reglur sem ákvörðun seðlabankans 15. júní 2023 var reist á ættu sér ekki fullnægjandi lagastoð. Með vísan til þess almenna eftirlitshlutverks sem bankaráði er fengið, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2019, taldi umboðsmaður rétt að félagið freistaði þess fyrsta kastið að leita eftir afstöðu þess til umkvörtunarefnisins að því marki sem það laut að umræddum reglum. Í því sambandi var sérstaklega tekið fram að eftirlit bankaráðs tæki ekki til málsmeðferðar eða ákvarðana í einstaka málum, sbr. 2. málslið 1. mgr. 8. gr. laganna. Var þá sérstaklega haft í huga að bankaráði gæfist þannig færi á að taka afstöðu til þess hvort erindið heyrði undir starfssvið þess og eftir atvikum bregðast við með þeim hætti sem það teldi tilefni til.

Í  3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er mælt fyrir um eitt þeirra skilyrða sem kvörtun þarf að uppylla til þess að hún geti komið til athugunar umboðsmanns. Byggist það á því sjónarmiði að eðlilegt sé að stjórnvöld fái tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er með kvörtun til utanaðkomandi eftirlitsaðila á borð við umboðsmann Alþingis. Helgast þetta fyrirkomulag m.a. af því að umboðsmaður fer ekki með réttarskipandi vald og því eðlilegt að veita því stjórnvaldi sem í hlut á, eða eftir atvikum þeim aðila sem fer með eftirlit eða stjórnunarheimildir gagnvart því, færi á að lýsa afstöðu sinni til kvörtunar liggi hún ekki fyrir. Hefur umboðsmaður í samræmi við þetta sjónarmið almennt talið rétt að þegar gert er ráð fyrir að stjórnvaldi sé sett stjórn eða ráð, svo sem háttar til um bankaráð Seðlabankans, sem hafi með höndum tiltekið eftirlitshlutverk með starfsemi þess, sé rétt að leitað sé til slíks aðila áður en umboðsmaður lætur kvörtun til sín taka. Ég tek fram að markmiðið með því að ljúka máli á framangreindum grunni og benda þeim sem kvartar á að leita til bankaráðs er þá að veita ráðinu færi á að taka afstöðu til þess hvort erindið heyri undir starfssvið þess og eftir atvikum bregðast við með þeim hætti sem það telur tilefni til. Í þessu sambandi minni ég einnig á að bankaráði er að vissu leyti ætlað að koma í stað eftirlits ráðherra en af sjálfstæði bankans leiðir að ekki er fyrir að fara almennum yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum þess ráðherra sem fer stjórnarfarslega með málefni hans þó að hann beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, sbr. 14. gr. stjórnarskrárinnar, og fari með ákveðið eftirlit sem af þeirri stöðu leiðir, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Ég kem þeirri ábendingu á framfæri við bankaráð að hafa framvegis í huga framangreind atriði við meðferð sambærilegra mála. Hinn 26. september sl. var undirrituð kjörin umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 31. október sl. Hef ég því farið með mál þetta frá þeim tíma.