Kvartað var yfir ofbeldi og aðbúnaði á Litla-Hrauni og heilbrigðisþjónustu á geðdeildum Landspítala Kleppi.
Þar sem hvorki fangelsismála- né heilbrigðisyfirvöld höfðu fjallað um kvartanir viðkomandi voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður gerði það. Hvað ofbeldið snerti var vísað til sömu atvika og áður höfðu komið til umfjöllunar hjá umboðsmanni og viðkomandi bent á að óska eftir upplýsingum hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi um framgang málsins.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. nóvember 2024.
Vísað er til kvörtunar þinnar 22. nóvember sl. sem snýr einkum að Fangelsinu Litla-Hrauni og Landspítala Kleppi. Af kvörtuninni verður ráðið að hún varði meðal annars ofbeldi sem þú hefur orðið fyrir, aðbúnað í klefa þínum á Litla-Hrauni og heilbrigðisþjónustu á geðdeildum Landspítala Kleppi.
Í kvörtuninni vísar þú til þess að þú hafir orðið fyrir ofbeldi en mér sýnist að þú sért að vísa til sömu atvika og komu fram í fyrri kvörtun þinni til umboðsmanns Alþingis sem fékk málsnúmerið 12518/2023. Því máli var lokið með bréfi til þín 25. mars sl. þar sem það var enn til meðferðar hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi. Ég bendi þér á að þú getur óskað upplýsinga um framgang málsins hjá honum.
Í ljósi kvörtunar þinnar yfir aðbúnaði í klefa þínum á Litla-Hrauni og heilbrigðisþjónustu á geðsviði Landspítala tek ég fram að almennt er ekki hægt að kvarta til umboðsmanns fyrr en búið er að tæma kvörtunar- og kæruleiðir innan stjórnsýslunnar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þannig þurfa fangelsismála- og heilbrigðisyfirvöld að fá tækifæri til að fjalla fyrst um kvartanir þínar áður en umboðsmaður getur fjallað um þær. Af kvörtun þinni verður ekki séð að þau hafi gert það. Bendi ég þér á að beina kvörtun fyrst til þessara stjórnvalda áður en þú kvartar til umboðsmanns. Bendi ég á að fangaverðir og Fangelsismálastofnun geta tekið á móti kvörtunum þínum varðandi aðbúnað í fangelsinu. Sömuleiðis bendi ég á að mögulegt er að beina kvörtunum til landlæknis vegna heilbrigðisþjónustu, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.
Ef þú leitar til þessara stjórnvalda með kvartanir þínar og verður ekki sáttur við niðurstöður þeirra geturðu leitað til mín aftur með kvörtun.
Með vísan til framangreinds lýk ég meðferð minni á kvörtuninni, samanber 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.