Rithöfundur kvartaði yfir því að skáldsaga hans yrði til útláns á bókasöfnum en Landsbókavörður hefði tjáð honum að ekki væri hægt að koma í veg fyrir að höfundarverk fólks væru lánuð út.
Þar sem skrifleg afstaða stjórnvalda til umkvörtunarefnisins lá ekki fyrir voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um það.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. nóvember 2024.
Vísað er til kvörtunar þinnar 21. nóvember sl. sem beinist að Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Í kvörtuninni kemur m.a. fram að þú hafir nýlega gefið út skáldsögu en þér hugnist ekki að hún sé lánuð út á bókasöfnum. Lúta athugasemdir þínar einkum að því að heimild bókasafna á vegum hins opinbera til útleigu skáldsögunnar, gegn vilja þínum, sé óhóflega víðtæk og bitni á þér fjárhagslega. Þá segir í kvörtuninni að Landsbókavörður hafi tjáð þér í símtali að ekki sé hægt að koma í veg fyrir að höfundarverk manna séu lánuð út.
Í ljósi kvörtunar þinnar tek ég fram að samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Þá leiðir af 3. mgr. 6. gr. laganna að ekki er unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að eðlilegt sé að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem hugsanlega hafa verið á fyrri ákvörðunum þeirra áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.
Samkvæmt framangreindu lýtur kvörtun þín einkum að því fyrirkomulagi að bókasöfn á vegum hins opinbera hafi heimild til að dreifa eintökum af bókmenntaverki þínu með útleigu þeirra. Í símtali sem þú áttir við starfsmann umboðsmanns 22. nóvember sl. mun hafa komið fram að ekki lægi fyrir skrifleg afstaða stjórnvalda til umkvörtunarefnisins. Með hliðsjón af þessu tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. bókasafnalaga, nr. 150/2012, er Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, forustusafn bókasafna landsins. Stuðlar það að samstarfi, samræmingu og þróun starfshátta bókasafni og veitir öðrum söfnum faglega ráðgjöf, sinnir rannsóknum á sviði bókfræði, bóksögu og bókasafns- og upplýsingafræði og öðrum verkefnum samkvæmt lögum um safnið. Um starfsemi Landsbókasafns fer nánar eftir samnefndum lögum, nr. 142/2011. Samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 3. gr. þeirra laga ber Landsbókavörður ábyrgð á rekstri safnsins og að starfsemi þess sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Heyrir safnið undir menningar- og viðskiptaráðherra, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna og 8. tölulið 9. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
Með hliðsjón af þeim lögum og reglum sem gilda um starfsemi bókasafna og þeim sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, tel ég rétt að þú freistir þess að leita með formlegt erindi til Landsbókavarðar og í kjölfarið til menningar- og viðskiptaráðherra, fellir þú þig ekki við viðbrögð Landsbókavarðar, áður en málið kemur til nánari skoðunar af hálfu umboðsmanns. Er þá haft í huga að þrátt fyrir að Landsbókavörður hafi nýverið tjáð þér í símtali að ekki sé hægt að koma í veg fyrir útleigu bókmenntaverka, gæfist honum með þessu kostur á að veita með skriflegum hætti nánari skýringar á afstöðu sinni að þessu leyti, sem eftir atvikum væri unnt að bera undir ráðherra, sem fer með almennar yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á þessu sviði. Teljir þú hallað á rétt þinn að fengnum viðbrögðum framangreindra stjórnvalda, er þér fært að leita til umboðsmanns á nýjan leik. Þar til afstaða þeirra liggur fyrir brestur hins vegar lagaskilyrði til þess að kvörtun þín verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.
Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtunina, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.