Kvartað var yfir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefði ekki kveðið upp úrskurð vegna kæru er laut að því að dómsmálaráðuneytið hefði ekki brugðist við beiðni um tilteknar upplýsingar.
Í svari til umboðsmanns kom fram að nefndin hefði margítrekað erindi sitt við ráðuneytið áður en það upplýsti að beiðni viðkomandi hefði verið afgreidd. Sá óskaði engu að síður eftir því að nefndin fjallaði áfram um málið enda teldi hann svör dómsmálaráðuneytisins ekki fullnægjandi. Fram kom hjá nefndinni að rannsókn málsins væri nú lokið og það yrði tekið til úrskurðar eins fljótt og verða mætti. Í ljósi þess taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. nóvember 2024.
Vísað er til kvörtunar þinnar 18. ágúst sl. yfir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi enn ekki kveðið upp úrskurð vegna kæru þinnar 18. júlí sl. er lýtur að því dómsmálaráðuneytið hafi ekki brugðist við beiðni þinni frá 5. febrúar sl. um nánar tilteknar upplýsingar. Var kæran byggð á 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem segir að hafi beiðni um aðgang að gögnum ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar sé beiðanda heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðar um rétt hans til aðgangs.
Samkvæmt kvörtuninni og meðfylgjandi gögnum kynnti úrskurðarnefndin dómsmálaráðuneytinu kæru þína til nefndarinnar 27. júní sl. og mæltist til þess að ráðuneytið afgreiddi hana fyrir kl. 16.00 þann 11. júlí sl. Ef ákvörðun ráðuneytisins fæli í sér synjun eða það ákvæði að afgreiða ekki beiðnina var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði afhent umsögn um kæruna og afrit þeirra gagna sem beiðni þín laut að. Ljóst er að ráðuneytið brást ekki við beiðni nefndarinnar og varð ráðið af kvörtuninni og meðfylgjandi gögnum að hún hefði verið ítrekuð í tvígang, 23. júlí og 7. ágúst sl.
Í tilefni af kvörtuninni var úrskurðarnefnd um upplýsingamál ritað bréf 19. september sl. þar sem óskað var tiltekinna upplýsinga og skýringa vegna málsins og um almennt verklag nefndarinnar vegna mála sem henni berast á grundvelli 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, s.s um þau úrræði sem hún teldi sig búa yfir í því skyni að knýja fram viðbrögð dómsmálaráðuneytisins í samræmi við beiðni nefndarinnar.
Í svari úrskurðarnefndar um upplýsingamál 28. október sl. kemur fram að nefndin hafi ítrekað beiðni sína til ráðuneytisins þrívegis, þ.e. 26. ágúst sl. og 16. og 20. september sl. Með tölvupósti til úrskurðarnefndarinnar 26. september sl. upplýsti ráðuneytið að það hefði afgreitt beiðni þína með tölvupósti degi áður. Með tölvupósti frá úrskurðarnefndinni 27. september sl. var þér tilkynnt um að í ljósi þess að kæra þín laut að því að beiðni um upplýsingar hefði ekki verið svarað og þar sem nú hefðu borist upplýsingar um að dómsmálaráðuneytið hefði afgreitt beiðni þína myndi nefndin fella mál þitt niður nema þú óskaðir eftir því að málinu yrði haldið áfram. Í svari þínu til nefndarinnar 2. október sl. kom fram að þú teldir svör dómsmálaráðuneytisins ekki fullnægjandi og að þú óskaðir þess að málinu yrði haldið til streitu. Gögn málsins bera með sér að í kjölfarið hafi nokkur samskipti farið fram á milli úrskurðarnefndarinnar og dómsmálaráðuneytisins vegna beiðni nefndarinnar um að ráðuneytið staðfesti hvort í fórum þess lægju gögn sem kynnu að falla undir beiðni þína. Þar sem þær umleitanir nefndarinnar báru ekki árangur tilkynnti hún ráðuneytinu með tölvupósti 21. október sl. að þar sem beiðni þín hefði verið til meðferðar í 8 og hálfan mánuð liti nefndin svo á að henni hefði í reynd verið synjað. Í erindinu var þess óskað að dómsmálaráðuneytið afhenti nefndinni afrit þeirra gagna sem heyrðu undir beiðni þína auk umsagnar um hana, sbr. 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga. Svar dómsmálaráðuneytisins og afrit af umbeðnum gögnum bárust nefndinni 23. október sl. Samkvæmt því sem fram kemur í svörum nefndarinnar til mín er rannsókn málsins lokið og mun hún taka málið til úrskurðar eins fljótt og verða má.
Ljóst er að afgreiðsla stjórnvalda á beiðni þinni um upplýsingar hefur dregist talsvert umfram þá lögbundnu fresti sem 17. gr. upplýsingalaga mælir fyrir um. Ég fæ hins vegar ekki annað ráðið en að mál þitt sé í virkri vinnslu hjá úrskurðarnefndinni og að hún hafi nú lagt mál þitt í farveg samkvæmt 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga og gripið til vissra úrræða gagnvart dómsmálaráðuneytinu í því skyni að greiða fyrir afgreiðslu málsins. Úrskurðarnefndin hefur enn fremur upplýst mig um að til standi að kveða upp úrskurð á næstunni. Í ljósi þess og þar sem kvörtun þín lýtur að töfum á afgreiðslu erindis þíns hjá úrskurðarnefndinni tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar í tilefni af henni að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði frekari tafir á meðferð málsins getur þú leitað til mín á ný ef þú telur ástæðu til þess.
Hinn 26. september sl. var undirrituð kjörin umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 31. október sl. Hef ég því farið með mál þetta frá þeim tíma.