Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Félög. Stjórnsýslukæra. Úrskurðarskylda. Niðurfelling máls.

(Mál nr. 12828/2024)

Kvartað var yfir afgreiðslu Seðlabanka Íslands á beiðni um aðgang að gögnum um dótturfélög bankans sem ekki hefði verið skilað til Þjóðskjalasafns Íslands í samræmi við ákvæði laga um opinber skjalasöfn.  

Að teknu tilliti til þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafði lýst sig reiðubúna til að endurskoða fyrri niðurstöðu sína og þar sem þess hafði verið farið á leit við nefndina að hún tæki málið til meðferðar á nýjan leik, varð ekki betur séð en að nefndin hefði það til meðferðar. Að svo stöddu voru því ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari athugunar.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. nóvember 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar þinnar 1. júlí sl. sem beinist að afgreiðslu Seðlabanka Íslands á beiðni þinni um aðgang að gögnum sem varða félögin Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf., F Fasteignafélag ehf., Hildu ehf., Ukrapteka Limited og Torpedo Leisure Limited. Í kvörtuninni kemur fram að umrædd félög hafi verið dótturfélög Seðlabankans sem hafi verið slitið en gögnum þeirra ekki verið skilað til Þjóðskjalasafns Íslands í samræmi við ákvæði laga nr. 77/2014, um opinber skjalasöfn.

Í kvörtuninni er framvinda málsins rakin allt frá því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað upp úrskurð sinn 1. júní 2022 í máli nr. [...]. Segir m.a. að þú hafir kært ákvörðun F Fasteignafélags ehf. um synjun á beiðni þinni um aðgang að gögnum til úrskurðarnefndarinnar en með úrskurði 3. apríl 2023 hafi málinu verið vísað til félagsins til nýrrar meðferðar og afgreiðslu. Dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins og vísaðir þú málinu því að nýju til úrskurðarnefndarinnar. Synjun félagsins barst þér 8. mars sl. Með bréfi 20. mars sl. kærðir þú þá niðurstöðu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Á meðal gagna málsins er tölvupóstur úrskurðarnefndarinnar til félagsins 26. mars sl. þar sem tilkynnt er um framkomna kæru og félaginu veittur frestur til 12. apríl sl. til þess að skila umsögn um kæruna og láta nefndinni í té afrit af umbeðnum gögnum. Með tölvupósti 15. apríl sl. upplýsti fyrrum meðlimur skilanefndar félagsins úrskurðarnefndina um að búið væri að ljúka slitum á F fasteignafélagi ehf. og hefði skilanefnd lokið störfum. Var þess óskað að úrskurðarnefndin beindi framvegis ekki erindum til hans þar sem félagið væri ekki lengur til staðar lögum samkvæmt.

Í tölvupósti ritara úrskurðarnefndarinnar til þín 19. júní sl. kom fram að þar sem félaginu hefði nú verið slitið yrði málinu að öllum líkindum vísað frá. Var og vísað til munnlegs samtals sem þú áttir við ritara nefndarinnar þar sem komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fella málið niður og yrði það gert á næsta fundi nefndarinnar sem fram fór 25. júní sl.

Í tilefni af kvörtuninni ritaði umboðsmaður úrskurðarnefnd um upplýsingamál bréf 25. september sl. þar sem óskað var nánar tilgreindra upplýsinga og skýringa frá nefndinni. Var þess m.a. óskað að hún lýsti afstöðu sinni til þess hvort og þá hvernig nefndin hafi gætt að úrskurðarskyldu sinni með fullnægjandi hætti.

Svar úrskurðarnefndar um upplýsingamál barst með bréfi 21. október sl. Þar segir m.a. að nefndin hafi talið á grundvelli samskipta við þig að þú teldir sjálfur rétt að leita annarra leiða til að knýja fram aðgang að hinum umbeðnu gögnum heldur en að leiða kærumálið til lykta. Þá er tekið fram að ef í samskiptum þínum við nefndina hafi komið fram upplýsingar sem mætti misskilja um að nefndin hefði þegar tekið ákvörðun um að vísa málinu frá og þau atriði eða önnur hafi leitt til þess að nefndin hafi misskilið afstöðu þína í málinu væru líkur til þess að ákvörðun nefndarinnar um að fella niður málið hefði byggst á röngum upplýsingum um málsatvik. Ef svo væri þá væri nefndin vitaskuld, í samræmi við lög, reiðubúin að endurskoða þá ákvörðun að fella niður málið og taka kæru þína frá 20. mars sl. til meðferðar og fella úrskurð í málinu í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012.

Með tölvupósti 11. nóvember sl. sendir þú umboðsmanni afrit af bréfi þínu 7. nóvember sl. til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem þú fórst þess á leit við nefndina að hún tæki kærumál þitt til meðferðar á nýjan leik.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af ákvæðinu leiðir einnig að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Að teknu tilliti til þess að nefndin hefur lýst sig reiðubúna til að endurskoða fyrri niðurstöðu sína og þar sem þú hefur nú farið þess á leit við nefndina að hún taki mál þitt til meðferðar á nýjan leik verður ekki betur séð en að nefndin hafi nú mál þitt er varðar aðgang að umræddum gögnum til meðferðar. Brestur því lagaskilyrði til að kvörtun þín verði tekin til frekari athugunar af hálfu umboðsmanns að svo stöddu.

Ef þú telur þig enn rangsleitni beittan að fengnum viðbrögðum úrskurðarnefndarinnar við framangreindri beiðni getur þú leitað til umboðsmanns að nýju með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds læt ég umfjöllun minni um kvörtunina lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Hinn 26. september sl. var undirrituð kjörin umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 31. október sl. Hef ég því farið með mál þetta frá þeim tíma.