Almannatryggingar. Jafnræðisreglur. EES-samningurinn. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 12992/2024)

Kvartað var yfir því skilyrði fyrir bótagreiðslum úr almannatryggingakerfinu að greiðsluþegi skuli búsettur á Íslandi. Það feli í sér mismunun milli borgara aðildarríkja EES-samningsins sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, með hliðsjón af meginreglu samningsins um jafnræði milli ríkisborgara aðildarríkjanna.  

Þar sem það er almennt ekki í verkahring umboðsmanns að veita álit á því hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina á þeim grundvelli. Þá barst hún einnig utan þess ársfrests sem áskilinn er til að kvarta til umboðsmanns og því ekki skilyrði til að fjalla um kvörtunina að því leyti sem hún laut að ákvörðun um að stöðva bótagreiðslur til viðkomandi vegna búsetu erlendis.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. nóvember 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar þinnar 2. nóvember sl. sem lýtur að því skilyrði fyrir bótagreiðslum úr almannatryggingakerfinu að greiðsluþegi skuli vera búsettur hér á landi, sbr. einkum 4. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Í kvörtuninni kemur fram að þú teljir skilyrðið fela í sér mismunun milli borgara aðildarríkja EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með hliðsjón af meginreglu samningsins um jafnræði milli ríkisborgara aðildarríkjanna. Af kvörtuninni og fylgigögnum hennar má ráða að tilefni hennar sé sú ákvörðun Tryggingastofnunar 22. júní 2022 að stöðva greiðslur uppbóta á örorkulífeyri og aðrar greiðslur almannatrygginga til þín 1. júlí og 1. ágúst þess árs, vegna búsetu þinnar í X.

Ég legg þann skilning í kvörtunina að þú teljir áðurgreind lagaskilyrði fyrir greiðslum úr almannatryggingakerfinu ekki samrýmast lögum nr. 2/1993 og fjölþjóðlegum skuldbindingum Íslands þeim tengdum. Í því sambandi er tekið fram að samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Umboðsmaður skal gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Í 3. gr. laganna er starfssvið umboðsmanns nánar afmarkað í samræmi við þetta. Í a-lið 4. mgr. 3. gr. laganna segir að starfssvið umboðsmanns Alþingis taki ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki í verkahring umboðsmanns að veita álit um það hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Í 11. gr. laganna er þó mælt fyrir um að verði umboðsmaður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum skuli hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun þessa efnis verði borin fram við umboðsmann, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri ábendingum um slík atriði. Brestur því lagaskilyrði til að kvörtunin verði tekin til frekari meðferðar á þessum grundvelli.

Vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar 22. júní 2022 sem er meðfylgjandi kvörtuninni tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 skal kvörtun til umboðsmanns borin fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Þá er í 3. mgr. sömu greinar tekið fram að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvaldið hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Í ákvörðun Tryggingastofnunar er leiðbeint um kæruleið og kærufrest en ákvarðanir samkvæmt lögum nr. 100/2007 og 99/2007 eru kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 1. mgr. 13. gr. fyrrgreindu laganna og 1. mgr. 14. gr. síðarnefndu laganna. Stjórnsýslukæra skal berast nefndinni skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015, um úrskurðarnefnd velferðarmála. Af kvörtuninni og gögnum málsins verður ekki ráðið að ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið borin undir nefndina og þar með að fyrir liggi úrskurður hennar innan fyrrgreinds ársfrests. Brestur því lagaskilyrði til að fjalla um kvörtun þína að því leyti sem hún lýtur að ákvörðun um að stöðva bótagreiðslur til þín.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið svo og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni um málið.