Kvartað var yfir málsmeðferð málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna í tilefni af máli sem þar var til meðferðar.
Fyrr á árinu bárust umboðsmanni tvær kvartanir vegna sama máls og líkt og þá benti hann viðkomandi á að stjórnvöld hefðu ekki lokið umfjöllun sinni um málið og því væru ekki skilyrði að svo stöddu til að hann fjallaði um málið.
Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. október 2024.
Vísað er til kvörtunar yðar til umboðsmanns Alþingis 14. september sl. sem ráðið verður að lúti að málsmeðferð málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna í tilefni af máli yðar sem mun vera til meðferðar hjá nefndinni. Lýtur hún að sömu atriðum, þ.e. ákvörðun Menntasjóðs námsmanna um að synja beiðni yðar um undanþágu frá afborgunum námsláns, og kvartanir sem þér hafið komið á framfæri við umboðsmann Alþingis á þessu ári (mál nr. 12537/2024 og 12735/2024 í málaskrá embættisins) og erindum yðar í júní sl., en þeim fylgdi m.a. afrit af greinargerð Menntasjóðs til málskotsnefndarinnar í tilefni af kæru yðar og andmæla yðar vegna hennar.
Líkt og rakið var í bréfum umboðsmanns til yðar 24. janúar og 16. maí sl. í tilefni af fyrri kvörtunum yðar er það skilyrði þess að umboðsmaður geti tekið mál til meðferðar að stjórnvöld, þ.m.t. æðri stjórnvöld, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Þar sem ekki verður annað ráðið en að mál yðar sé enn til meðferðar hjá málskotsnefnd Menntasjóðs námsmanna er ljóst að enn brestur lagaskilyrði til þess að umboðsmaður taki málið til nánari athugunar að svo stöddu. Ef þér teljið yður rangindum beittar að fenginni niðurstöðu málskots-nefndarinnar getið þér leitað til umboðsmanns að nýju með kvörtun þar að lútandi.
Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég athugun minni vegna kvörtunar yðar lokið. Hinn 30. september sl. var undirritaður settur umboðsmaður Alþings frá 1. október sl., sbr. 1. mgr. 3. gr. fyrrgreindra laga, og hefur farið með málið frá þeim tíma.
Helgi Ingólfur Jónsson