Kvartað var yfir því að Hvalfjarðarsveit hefði hafnað erindi um að staðfest yrði að misfarist hefði að auglýsa tiltekið deiliskipulag í Stjórnartíðindum, sem samþykkt hefði verið í sveitarstjórn árið 2010, með þeim afleiðingum að skipulagði hefði ekki tekið gildi.
Þar sem kvörtunin laut einkum að málsmeðferð sveitarfélags í tengslum við deiliskipulagsgerð fyrir meira en áratug síðan voru ekki skilyrði til þess að umboðsmaður gæti fjallað um það. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast sérstaklega í tilefni af erindi sem skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins hafði ekki svarað enda virtist viðkomandi ekki hafa gengið á eftir svörum sjálfur.
Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. október 2024.
Vísað er til kvörtunar yðar 10. september sl. sem beinist að Hvalfjarðarsveit og lýtur því að sveitarstjórn hafi hafnað erindi yðar 2. maí sl. þar sem þess var annars vegar farið á leit að staðfest yrði að misfarist hefði að auglýsa í B-deild Stjórnartíðinda deiliskipulag [...], svæðis innan landamerkja jarðarinnar X, sem samþykkt var í sveitarstjórn árið 2010, með þeim afleiðingum að skipulagið tók ekki gildi. Hins vegar var þess krafist að sveitarfélagið tæki að sér og kostaði endurgerð deiliskipulags svæðisins, auglýsingu þess og birtingu í Stjórnartíðindum og að sú vinna hæfist hið fyrsta. Í kvörtuninni er þess jafnframt óskað að umboðsmaður taki til athugunar málsmeðferð sveitarfélagsins í tengslum við afgreiðslu deiliskipulagsins. Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni og téðu erindi yðar til sveitarstjórnar munu þáverandi eigendur X hafa gengið út frá því að í gildi væri deiliskipulag vegna svæðisins.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins fjallaði umhverfis-, skipulags-, náttúruverndar- og landbúnaðarnefnd Hvalfjarðarsveitar um framangreint erindi yðar á fundi [...]. Í bókun nefndarinnar um tillögu að afgreiðslu erindisins er forsaga málsins rakin og kemur þar fram sú afstaða nefndarinnar að deiliskipulagið frá 2010 hafi talist ógilt frá 16. júlí 2011 þar sem það hafi ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá því að athugasemdafresti tillögu til deiliskipulagsins lauk, sbr. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með vísan til þess sé ekki fallist á kröfu um að sveitarfélagið sjái um og kosti endurgerð skipulags [...] í landi X. Tillagan var staðfest á fundi sveitarstjórnar [...] og kynnt yður með bréfi skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins 13. þess mánaðar.
Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skal bera fram kvörtun innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Kvörtun yðar lýtur einkum að málsmeðferð sveitarfélags í tengslum við deiliskipulagsgerð fyrir meira en áratug síðan. Ljóst er að lagaskilyrði brestur til þess að umboðsmaður geti fjallað um það atriði í kvörtun yðar. Þar sem ekki verður séð á hvaða lagagrundvelli krafa yðar að öðru leyti, um að Hvalfjarðarsveit sjái um og kosti endurgerð skipulags [...] í landi X, byggist eru af þessum sökum ekki heldur lagaskilyrði til að taka til athugunar efnislega afstöðu sveitarfélagsins til hennar. Í því sambandi, og að því marki sem krafan kann að byggjast á sjónarmiðum um að sveitarfélaginu hafi orðið á bótaskyld mistök, athugast jafnframt að samkvæmt lögum nr. 85/1997 er almennt ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður taki afstöðu til bótaskyldu stjórnvalda enda kann þar að reyna á sönnunarmat sem fremur er á færi dómstóla.
Þar sem fram kemur í kvörtun yðar að erindi yðar til skipulagsfulltrúa Hvalfjarðarsveitar 10. júní sl. hafi ekki verið svarað, skal að lokum tekið fram að það er meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa. Við mat á því hvort tilefni sé til að fjalla um kvörtun, sem lýtur að því að erindi hafi ekki verið svarað, hefur umboðsmaður þó almennt litið svo á að rétt sé að sá sem ber fram slíka kvörtun leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvaldsins með ítrekun á erindinu og gefi því þannig færi á að bregðast við áður en leitað er til umboðsmanns með kvörtun. Þar sem ekki verður ráðið af kvörtun yðar að erindi yðar til skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins hafi verið ítrekað tel ég að svo stöddu ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega af því tilefni. Ég tek hins vegar fram að þér getið leitað til umboðsmanns á nýjan leik verði óhóflegur dráttur á svörum sveitarfélagsins að undangengum ítrekunum.
Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég athugun minni vegna málsins lokið. Hinn 30. september sl. var undirritaður settur umboðsmaður Alþings frá 1. þ.m.., sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga, og hefur farið með málið frá þeim tíma.
Helgi Ingólfur Jónsson