Skattar og gjöld. Frádráttur.

(Mál nr. 12899/2024)

Kvartað var yfir meðferð Skattsins á umsókn um frádrátt frá tekjuskattsstofni vegna fjárfestingar árið 2021 og beiðni um endurupptöku frá því í maí 2023.  

Ljóst var að ákvörðun Skattsins um að hafna umsókninni og úrskurður yfirskattanefndar um kæru á þeirri ákvörðun féllu utan þess ársfrests sem gefst til að kvarta til umboðsmanns. Þá varð ekki séð að endanleg afstaða yfirskattanefndar til endurupptökubeiðni lægi fyrir. Því voru ekki skilyrði til að fjalla um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 10. september 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 3. september sl. yfir meðferð Skattsins á umsókn yðar um frádrátt frá tekjuskattsstofni vegna fjárfestingar í X ehf. árið 2021, sbr. 1. tölulið B-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin að þeirri afstöðu Skattsins að X ehf. hefði borið að afla staðfestingar Skattsins á því að félagið uppfyllti tiltekin skilyrði laga fyrir þeirri hlutafjáraukningu sem þér tókuð þátt í en ekki væri nægilegt að félagið hefði fengið slíka staðfestingu aðeins nokkrum mánuðum áður. Þá kvartið þér yfir afgreiðslu Skattsins á beiðni yðar um endurupptöku.

Samkvæmt kvörtun yðar hafnaði Skatturinn kröfu yðar með ákvörðun 25. október 2022. Í kjölfarið beinduð þér stjórnsýslukæru til yfirskattanefndar þar sem þess var krafist að úrskurður Skattsins yrði felldur úr gildi. Með úrskurði yfirskattanefndar 24. maí 2023 var kröfu yðar hafnað. Af kvörtun yðar og meðfylgjandi gögnum verður ráðið að þér hafið átt í nokkrum samskiptum við Skattinn í kjölfarið og m.a. óskað endurskoðunar á máli yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er fjallað um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. greinarinnar segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Beinist athugun umboðsmanns þannig að jafnaði aðeins að úrlausn æðra stjórnvalds sem fjallað hefur um viðkomandi mál, ef slíkri úrlausn er á annað borð til að dreifa.

Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og meðfylgjandi gögn fæ ég ekki annað ráðið en að þau samskipti yðar við stjórnvöld sem hún lýtur að hafi átt sér stað utan framangreinds ársfrests. Hið sama á við um úrskurð yfirskattanefndar 24. maí 2023. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar að þessu leyti.

Í kvörtun yðar er einnig vísað til þess að Skatturinn hafi synjað beiðni yðar um endurupptöku og vísið þér í því tilliti til tölvubréfs starfsmanns Skattsins til yðar 29. nóvember 2023. Aftur á móti verður ekki ráðið að fyrir liggi endanleg afstaða yfirskattanefndar um þetta atriði. Eru því ekki heldur uppfyllt skilyrði til þess að ég taki þann þátt kvörtunar yðar til meðferðar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til alls ofangreinds lýk ég meðferð máls yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.