Kvartað var yfir skorti á viðbrögðum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins við erindi.
Í svari ráðuneytisins kom fram að erindið væri í viðeigandi farvegi, fundað hefði verið um það og viðkomandi verið boðið á fund í september. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 5. september 2024.
Vísað er til kvörtunar yðar 29. júlí sl. yfir skorti á viðbrögðum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins við erindi yðar 9. febrúar sl., sem beint var til starfandi ráðuneytisstjóra þess, vegna stefnu, forvarnar- og viðbragðsáætlunar Stjórnarráðsins vegna EKKO.
Í tilefni kvörtunarinnar var félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu ritað bréf 14. ágúst sl. þar sem þess var óskað að ráðuneytið upplýsti umboðsmann um hvort erindi yðar hefði borist ráðuneytinu og þá í hvaða farveg það hefði verið lagt og eftir atvikum hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Í svarbréfi 28. ágúst sl., sem fylgir bréfi þessu í ljósriti, var staðfest að erindið hefði borist og hefði það verið „sett í viðeigandi farveg innan ráðuneytisins“ og enn fremur vísað til fundar með fulltrúa stéttarfélags yðar 22. ágúst sl. svo og boðunar yðar á fund með ráðuneytinu nú í september.
Í ljósi framangreindra upplýsinga um stöðu málsins tel ég ekki tilefni til þess að taka það til frekari athugunar að svo stöddu og læt því hér með lokið með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Ef þér teljið yður hins vegar enn beitta rangsleitni að fenginni afgreiðslu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á erindi yðar getið þér leitað til umboðsmanns að nýju með kvörtun þar að lútandi.