Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 12603/2024)

Kvartað var yfir álagningu stöðubrotsgjalds og synjun Bílastæðasjóðs við beiðni um endurupptöku ákvörðunarinnar.  

Í svari Reykjavíkurborgar til umboðsmanns kom fram að þar sem það væri vafi um lögmæti álagningarinnar yrði fallið frá henni og gjaldið endurgreitt. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 29. ágúst 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 6. febrúar sl. sem beinist að Reykjavíkurborg og lýtur að álagningu stöðubrotsgjalds 2. október 2023 vegna bifreiðarinnar [...] svo og synjun Bílastæðasjóðs við beiðni yðar um endurskoðun þeirrar ákvörðunar.

Í tilefni af kvörtuninni var Reykjavíkurborg ritað bréf 15. febrúar og 13. júní sl. þar sem óskað var nánar greindra skýringa um álagningu stöðubrotsgjaldsins. Svör borgarinnar bárust 25. mars og 6. ágúst sl. Athugasemdir yðar við fyrra svarbréf borgarinnar bárust með tölvubréfi 7. apríl sl. Þá var borgarstjóra Reykjavíkur ritað bréf 8. ágúst sl. þar sem þess var óskað að umboðsmanni yrðu veittar nánari skýringar viðvíkjandi afstöðu Reykjavíkurborgar til málsins. Fenguð þér afrit af öllum framangreindum bréfaskiptum.

Í svari Reykjavíkurborgar 26. ágúst sl. kemur m.a. fram að afstaða borgarinnar sé sú að þar sem vafi sé fyrir hendi í máli yðar um lögmæti álagningarinnar, sé rétt að Reykjavíkurborg beri hallann af því. Reykjavíkurborg muni því falla frá álagningu stöðubrotsgjaldsins og endurgreiða yður það.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að álagningu stöðubrotsgjalds og Reykjavíkurborg hefur nú greint frá því að gjaldið verði fellt niður og yður endurgreitt, tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins. Læt ég því athugun minni á kvörtun yðar lokið með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.