Kvartað var yfir nafngreindum starfsmanni sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og að framganga embættisins hefði falið í sér mismunun sem hefði næstum leitt til gjaldþrots fyrirtækis viðkomandi.
Af kvörtuninni varð helst ráðið að hún beindist að stjórnsýslu sýslumanns í aðdraganda þess að gefið var út meistarabréf í samræmi við beiðni þar um og að málsmeðferðin hefði bakað viðkomandi tjón. Þar sem efnisleg niðurstaða sýslumanns var í samræmi við beiðnina taldi umboðsmaður ekki nægt tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar. Benti hann á að mögulega mætti freista þess að bera erindið undir dómsmálaráðherra. Hvað hugsanlegt tjón snerti þá yrði það að vera dómstóla að leysa úr slíkum ágreiningi.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. júlí 2024.
I
Vísað er til kvörtunar yðar 29. júní sl. sem þér beinið að nafngreindum starfsmanni sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Í kvörtun yðar kemur fram að þér teljið framgöngu embættisins gagnvart yður í tengslum við útgáfu meistarabréfs í pípulögnum hafa falið í sér mismunun sem hafi næstum leitt til gjaldþrots fyrirtækis yðar.
Vegna fyrri kvörtunar yðar sem hlaut númerið 12658/2024 í málaskrá embættisins og lokið var með bréfi 25. mars sl. er mér kunnugt um að þér leituðuð til sýslumanns með ósk um útgáfu téðs meistarabréfs í kjölfar þess að ENIC/NARIC skrifstofan á Íslandi tilkynnti yður 4. apríl sl. um það mat hennar að þér uppfylltuð skilyrði um menntun til útgáfu meistarabréfs í pípulögnum. Á meðal þeirra gagna sem fylgdu kvörtun yðar nú er afrit af meistarabréfi yðar gefið út 10. júní sl. auk tölvubréfs starfsmanns sýslumanns sama dag þar sem yður er tilkynnt um útgáfu bréfsins.
Af kvörtun yðar verður helst ráðið að hún beinist að stjórnsýslu sýslumanns í aðdraganda þess að gefið var út téð meistarabréf í samræmi við beiðni yðar þar um. Verður einnig ráðið að þér teljið málsmeðferðina hafa bakað yður tjón. Í þessu ljósi tel ég rétt að fjalla um hlutverk umboðsmanns Alþingis og hverjar geta orðið lyktir mála hjá honum.
II
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og þær siðareglur sem tilgreindar eru í lögunum. Í 2. mgr. 4. gr. er svo kveðið á um að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns.
Í 10. gr. laga nr. 85/1997 er fjallað um lyktir máls. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu. Í b-lið 2. mgr. 10. gr. segir að hafi umboðsmaður tekið mál til nánari athugunar geti hann látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum eða þeim siðareglum sem nánar eru tilgreindar í lögunum. Þá segir að sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns geti hann jafnframt beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur. Í c-lið 2. mgr. 10. gr. kemur svo fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.
Á grundvelli 10. gr. laga nr. 85/1997, sbr. einnig 5. gr. sömu laga, hefur umboðsmaður Alþingis svigrúm til að ákveða hvaða mál hann telur tilefni til að fjalla nánar um og þá með hvaða hætti, m.a. með tilliti til mikilvægis þeirra, fjölda mála og þeirra takmörkuðu fjárveitinga og mannafla sem umboðsmaður hefur til umráða. Hér kann einnig að skipta máli hvort og þá hvaða möguleikar eru á að umboðsmaður geti beint tilmælum til stjórnvalds sem kunna að hafa þýðingu fyrir réttarstöðu þess sem hefur kvartað til umboðsmanns. Ef stjórnvald hefur fallist á afstöðu þess sem kvartar til umboðsmanns Alþingis er að jafnaði ekki tilefni fyrir umboðsmann að taka málsmeðferð stjórnvaldsins til sérstakrar athugunar þótt undantekningar geti verið á því.
Með vísan til þess sem er rakið að framan og þar sem ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að efnisleg niðurstaða sýslumanns hafi verið í samræmi við beiðni yðar tel ég ekki nægt tilefni til að taka kvörtunina til frekari athugunar. Ég bendi yður þó á að embætti sýslumanna heyra undir dómsmálaráðherra, sbr. 3. málslið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/2014, um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði og 29. tölulið 2. mgr. 2. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Af því leiðir að ráðuneyti hans fer með ákveðnar eftirlitsheimildir gagnvart stjórnvaldinu, sbr. IV. kafla laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Hafið þér athugasemdir við starfshætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu er yður fær sú leið að freista þess að beina erindi þar að lútandi til dómsmálaráðherra.
Í samhengi við framangreint vek ég að lokum athygli yðar á að í undantekningartilvikum kann ófullnægjandi málsmeðferð stjórnvalds að leiða til skaðabótaskyldu hins opinbera. Ef þér teljið yður hafa orðið fyrir tjóni sökum ólögmætrar og saknæmrar háttsemi sýslumanns kann því að vera að þér eigið rétt á skaðabótum, sjá t.d. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar frá 30. október 2008 í máli nr. 70/2008 og 4. maí 2016 í máli nr. 585/2015 og dóm Landsréttar frá 5. febrúar 2021 í máli nr. 772/2019. Það er hins vegar ekki almennt hlutverk umboðsmanns að taka afstöðu til skaðabótaskyldu stjórnvalda enda krefst niðurstaða um slík atriði yfirleitt sönnunarfærslu sem ekki er á færi embættisins. Því hefur verið litið svo á að það verði almennt að vera hlutverk dómstóla að leysa úr slíkum ágreiningi, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég árétta að með framangreindu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hvort tilefni sé fyrir yður að krefjast skaðabóta fyrir dómstólum vegna málsins.
III
Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.