Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Skipulags- og byggingarmál. Skaðabætur.

(Mál nr. 12734/2024)

Kvartað var yfir því að Seltjarnarnesbær hefði ekki brugðist við margítrekuðu erindi.  

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns var erindinu svarað og því ástæða til að aðhafast frekar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. júlí 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar 30. apríl sl. sem þér komuð á framfæri f.h. A og B yfir því að Seltjarnarnesbær hefði ekki brugðist við erindi þeirra frá 29. júní 2023 þar sem óskað var afstöðu sveitarfélagsins til bótaskyldu vegna breytinga á aðal- og deiliskipulagi Valhúsahæðar. Samkvæmt kvörtuninni var erindið ítrekað 31. júlí 2023, 11. október s.á og 2. febrúar sl. Mun sveitarfélagið aðeins hafa staðfest móttöku fyrstnefnda tölvupóstsins.

Í tilefni af kvörtuninni var sveitarfélaginu ritað bréf 3. maí sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Jafnframt var óskað upplýsinga um hvort rétt væri að fyrirspurnum vegna málsins hefði ekki verið svarað og ef svo væri að veittar yrðu skýringar á því. Með bréfi sem barst umboðsmanni 3. júlí sl. upplýsti lögmaður f.h. sveitarfélagsins að erindi A og B hefði verið svarað með bréfi til yðar 2. sama mánaðar. Fylgdi afrit bréfsins svarinu til umboðsmanns.

Þar sem kvörtunin lýtur að töfum og í ljósi þess að nú hefur sveitarfélagið svarað erindinu tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.