Skattar og gjöld. Félög. Fyrirtækjaskrá. Dómstólar og réttarfar.

(Mál nr. 12784/2024)

Kvartað var yfir að félagi hefði verið slitið með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur að kröfu ríkisskattstjóra, sem var byggð á að félagið hefði ekki fullnægt skyldu til að tilkynna um raunverulega eigendur, og gerðar athugasemdir við málsmeðferð ríkisskattstjóra í aðdraganda þess að kröfunni var beint til héraðsdóms.  

Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa dómstóla og því getur hann hvorki tekið niðurstöður dóms til endurskoðunar né þau málsatvik og málsástæður sem þegar hafa hlotið meðferð fyrir dómstólum. Þá tekur starfsvið hans ekki heldur til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Þar sem í lögum er gert ráð fyrir að endanleg ákvörðun um slit eða skipti félaga sé í höndum dómstóla, og það sé því þeirra að taka afstöðu til þess hvort krafa ríkisskattstjóra um skipti eða slit uppfylli skilyrði laga til að verð tekin til greina, voru ekki fyrir því skilyrði að umboðsmaður gæti fjallað um úrskurð héraðsdóms eða athafnir ríkisskattstjóra í aðdraganda hans.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. júní 2024.

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A 7. júní sl. yfir því að félaginu hafi verið slitið með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2023 að kröfu ríkisskattstjóra. Í kvörtuninni eru m.a. gerðar athugasemdir við málsmeðferð ríkisskattstjóra í aðdraganda þess að kröfunni var beint til héraðsdóms.

      

II

Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtun yðar og meðfylgjandi gögnum mun ríkisskattstjóri hafa með vísan til laga nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda, beint kröfu til héraðsdóms Reykjavíkur um slit A þar sem það hefði ekki fullnægt skyldu til að tilkynna ríkisskattstjóra um raunverulega eigendur þess. Var krafan studd 6. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögunum. Með kvörtun yðar fylgdu ýmis gögn er varpa ljósi á tildrög þess að ríkisskattstjóri beindi kröfunni til héraðsdóms. Á meðal þeirra er m.a. áskorun ríkisskattstjóra 11. janúar 2023 þar sem skorað er á félagið að fullnægja skyldu sinni samkvæmt lögum nr. 82/2019 en að öðrum kosti yrði tekin ákvörðun um að krefjast skipta á því. Þá fylgdi tilkynning ríkisskattstóra 14. febrúar 2023 sem birt var í Lögbirtingarblaði um aðila sem embættið hefði ákveðið að krefjast skipta á fyrir héraðsdómi. Var A á meðal þeirra. Í tilkynningunni var vísað til þess að hún styddist við 3. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða laga nr. 82/2019. Þá kom fram að sinnti skráningarskyldur aðili ekki skyldu sinni innan fjögurra vikna myndi ríkisskattstjóri krefjast skipta á þeim fyrir héraðsdómi. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2023 í máli [...] var A slitið að kröfu ríkisskattstjóra.

Fjallað er um skráningu raunverulegra eigenda í samnefndum lögum nr. 82/2019 og úrræði ríkisskattstjóra sinni skráningarskyldur aðili ekki skyldu sinni samkvæmt þeim. Þar er í 4. gr. fjallað um skyldu þeirra aðila sem falla undir lögin til að afla upplýsinga um raunverulega eigendur sína og skulu þeir tilkynna ríkisskattstjóra um nánar tilgreindar upplýsingar sem taldar eru upp í 2. mgr. greinarinnar. Í ákvæði I til bráðabirgða í lögunum er kveðið á um að þeir aðilar samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna sem við gildistöku þeirra voru þegar skráðir í fyrirtækjaskrá skyldu veita upplýsingar samkvæmt 2. mgr. 4. gr. eigi síðar en 1. mars 2020. Í ákvæði II til bráðabirgða sem var fært í lögin með lögum nr. 139/2022 er kveðið á um heimild ríkisskattstjóra til að krefjast skipta á aðilanum fyrir héraðsdómi, eða eftir atvikum slita á aðilanum í samræmi við ákvæði til bráðabirgða III fullnægi hann ekki skyldu sinni til að tilkynna um raunverulega eigendur.

Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 139/2022 kom fram að með ákvæðinu væri mælt fyrir um sérstök úrræði til að koma fram skiptum eða slitum á lögaðilum sem væru skylt að tilkynna um raunverulega eigendur sína til fyrirtækjaskrár samkvæmt lögunum en hefðu ekki sinnt þeirri skyldu. Þannig væri í 2. mgr. ákvæðisins fjallað um heimildir ríkisskattstjóra til að beina áskorunum til slíkra aðila um úrbætur og bæri það ekki árangur gæti ríkisskattstjóri birt tilkynningu í Lögbirtingarblaði um að krafist yrði skipta fyrir dómi, sbr. 3. mgr. Í 6. mgr. greinarinnar er mælt fyrir um að sinni aðili ekki skráningarskyldu innan fjögurra vikna frá birtingu tilkynningar í Lögbirtingablaði samkvæmt 3. mgr. skuli ríkisskattstjóri krefjast skipta á aðila í samræmi við 6. til 8. mgr. 17. gr. laganna eða eftir atvikum slita á aðila eftir sérstökum málsmeðferðarreglum ákvæðis til bráðabirgða III. 

 

III

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórn­­sýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórn­sýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns Alþingis til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt b-lið 4. mgr. 3. gr. laganna tekur starfssvið umboðsmanns hins vegar ekki til starfa dóm­stóla. Af ákvæðinu leiðir að umboðsmaður getur hvorki tekið niður­stöður dóms til endurskoðunar né þau málsatvik eða málsástæður sem þegar hafa hlotið meðferð fyrir dómstólum. Samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns heldur ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda þegar samkvæmt beinum laga­fyrir­mælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dóm­stóla.

Eins og áður er fram komið grundvallast þær ráðstafanir sem ríkisskattstjóri hefur gripið til í máli félagsins á ákvæðum laga nr. 82/2019 þar sem gert ráð fyrir að endanleg ákvörðun um slit eða skipti félaga sé í höndum dómstóla. Er það þannig falið dómstólum að taka afstöðu til hvort krafa ríkisskattstjóra uppfylli skilyrði laga nr. 82/2019 til þess að verða tekin til greina. Í ljósi þess sem að framan er rakið um starfssvið umboðsmanns Alþingis eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að ég geti fjallað um úrskurð héraðsdóms í máli félagsins [...] frá 28. júní sl. eða athafnir ríkisskattstjóra í aðdraganda hans, sbr. b- og c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.