Óskað var eftir áliti umboðsmanns á því hvað teljist til jarðhæðar bygginga og þýðingu tiltekins töluliðar í áðurgildandi byggingarreglugerð.
Ekki voru skilyrði til þess að fjalla um erindið þar sem það fól í sér fyrirspurn almenns eðlis en laut ekki að tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. apríl 2024.
Vísað er til kvörtunar yðar 24. apríl sl. þar sem þér farið þess á leit að umboðsmaður láti í ljós álit sitt á því hvað teljist til jarðhæðar bygginga og þýðingar töluliðar 4.24 í 4. gr. áðurgildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 í þeim efnum.
Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.
Af kvörtun, eins og hún er sett fram, verður ekki ráðið að hún lúti að tiltekinni athöfn, athafnaleysi eða ákvörðun stjórnvalds í framangreindum skilningi heldur felur hún í sér fyrirspurn almenns eðlis. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar.
Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.