Dýr. Landbúnaður. Eftirlit stjórnsýsluaðila. Svör við erindum.

(Mál nr. 12720/2024)

Kvartað var yfir því að Matvælastofnun brygðist ekki við fjölda ábendinga vegna alvarlegra brota á lögum um velferð dýra.  

Ekki varð ráðið að þau atriði sem tilgreind voru í kvörtuninni snertu beinlínis hagsmuni viðkomandi eða réttindi umfram aðra og því ekki forsendur til að taka hana til frekari athugunar. Umboðsmaður benti viðkomandi hins vegar á að freista þess að ítreka erindi sín til hlutaðeigandi stjórnvalda og óska eftir upplýsingum um hvort til standi að bregðast við þeim athugasemdum sem þau hafa að geyma.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. apríl 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 22. apríl sl. er þér beinið að Matvælastofnun. Í kvörtuninni kemur fram að þrátt fyrir fjölda ábendinga er varða alvarleg brot á lögum um velferð dýra á tiltekinni bújörð hafi stofnunin ekki brugðist við. Kvörtuninni fylgdi afrit tölvubréfa yðar til sveitarstjóra viðkomandi sveitarfélags auk annarra opinberra aðila og einkaaðila þar sem gerðar eru athugasemdir við athafnaleysi stjórnvalda og löggjafans á sviði dýravelferðar. Jafnframt hefur komið fram af yðar hálfu að þér hafið óskað eftir því að bera upp kæru við lögreglu vegna málsins þar sem engin svör hafi borist við erindum yðar.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir ákvæði 1. eða 2. mgr. 3. gr. laganna, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Ég fæ ekki ráðið að þau atriði sem tilgreind eru í erindi yðar snerti beinlínis hagsmuni yðar eða réttindi umfram aðra. Ég tel mig því ekki hafa forsendur til að taka kvörtunina til frekari athugunar að þessu leyti.

Í tilefni af kvörtun yðar er þó rétt að taka fram að í stjórnsýslurétti gildir sú meginregla að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á almennt rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að svars sé ekki vænst. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki við óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í því. Þér getið því freistað þess að ítreka erindi yðar til stjórnvalda og óskað eftir upplýsingum um hvort til standi að bregðast við þeim athugasemdum sem þau hafa að geyma. Með þessari ábendingu hef ég þó enga efnislega afstöðu tekið til þess hvernig Matvælastofnun eða öðrum opinberum aðilum sem erindi yðar beinast að bæri að svara slíku erindi.

Með hliðsjón af öllu framangreindu lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis.