Menntamál. Fangavarðanám. Mat á hæfni umsækjenda.

(Mál nr. 12613/2024)

Kvartað var yfir synjun við umsókn um fangavarðanám og hæfustu umsækjendurnir hefðu ekki fengið inngöngu. 

Þar sem viðkomandi hafði ekki leitað til dómsmálaráðuneytisins taldi umboðsmaður ekki rétt að taka málið til skoðunar að svo stöddu.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. apríl 2024.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 12. febrúar sl., sem laut að synjun við umsókn yðar um fangavarðanám skólaárið 2024. Kom í kvörtun yðar m.a. fram sú afstaða að hæfustu umsækjendurnir hafi ekki fengið inngöngu í námið.

Í tilefni af kvörtun yðar var Fangelsismálastofnun ritað bréf 19. febrúar sl. þar sem óskað var eftir að stofnunin afhenti umboðsmanni afrit allra fyrirliggjandi gagna sem sneru að inntöku umsækjenda í umrætt nám. Umbeðin gögn bárust umboðsmanni 6. mars sl., en við athugun málsins upplýsti stofnunin jafnframt að gögn um inngöngu í námið hefðu einnig verið afhent dómsmálaráðuneytinu í kjölfar beiðni þess efnis. Í kjölfar þess upplýsti ráðuneytið umboðsmanns um að hjá því væru til meðferðar mál vegna synjunar við inngöngu í skólann á grundvelli kæruheimildar í 1. mgr. 95. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga. Í greininni kemur fram að ákvarðanir samkvæmt lögunum séu kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins nema annað sé tekið fram, en samkvæmt 4. gr. laganna fer dómsmálaráðherra með yfirstjórn fangelsismála.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta og bæta úr ágöllum sem verið hafa á fyrri afskiptum og ákvörðunum þeirra af viðkomandi máli sem ekki eru í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Af kvörtun yðar og meðfylgjandi gögnum verður ekki ráðið að þér hafið leitað til dómsmálaráðuneytisins og fengið viðbrögð þess við athugasemdum yðar. Að gættum framangreindum sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég að svo stöddu rétt að þér freistið þess að leita til ráðuneytisins áður en málið getur komið til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns. Að fenginni niðurstöðu þess getið þér leitað til umboðsmanns að nýju með kvörtun þar að lútandi teljið þér tilefni til þess og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns.

Með vísan til framangreinds brestur því lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar og læt ég því málinu lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.