Eignarréttur.

(Mál nr. 12671/2024)

Kvartað var yfir því að stjórnvöld drægju þinglýstan eignarrétt á jörð í efa.  

Fáeinum dögum eftir að kvörtunin barst var upplýst að fjármála- og efnahagsráðuneytið, f.h. ríkissjóðs, hefði gefið eftir eignartilkall til svæðisins. Þar með var kvörtunarefnið ekki fyrir hendi.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 5. apríl 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 18. mars sl. yfir því að nánar tilgreind stjórnvöld drægju í efa þinglýstan eignarrétt yðar og konu yðar, B, á allri jörðinni X í Y. Kvörtuninni fylgdu m.a. afrit tölvubréfa milli yðar og Framkvæmdasýslunnar - Ríkiseigna, þar sem fram kemur að skjöl um eignarrétt á tilteknu svæði innan jarðarinnar, væru til skoðunar með tilliti til þess hvort íslenska ríkið gæti gert tilkall til þess.

Í símtali sem starfsmaður embættisins átti við yður 26. mars sl. staðfestuð þér að hafa fáeinum dögum áður fengið tölvubréf frá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum, sem birst hafði á samfélagsmiðli, og var á þessa leið: 

Fjármála- og efnahagsráðuneytið samþykkti þann 21. mars sl. að ráðuneytið f.h. ríkissjóðs gæfi eftir eignartilkall til svæðisins [...] gagnvart grandlausum þriðju aðilum sem eignast hafa jarðir á svæðinu á grundvelli tómlætis ríkisins við að ganga frá þinglýsingu á yfirlýsingunni frá árinu [...]. Framkvæmdasýslunni - Ríkiseignum er falið að vinna áfram með málið.

Verður því ekki annað ráðið en að með þessari ákvörðun ráðuneytisins sé kvörtunarefni yðar ekki lengur fyrir hendi. Með vísan til þess og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.