Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 12668/2024)

Kvartað var yfir álagningu stöðubrotsgjalds og synjun Bílastæðasjóðs á beiðni um endurskoðun þeirrar ákvörðunar.

Af ljósmyndum að dæma og öðrum gögnum málsins voru ekki forsendur til að fullyrða að niðurstaða Bílastæðasjóðs hefði verið í andstöðu við lög.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 5. apríl 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 16. mars sl. sem þér beinið að Bílastæðasjóði Reykjavíkur og lýtur að álagningu stöðubrotsgjalds vegna brots gegn a-lið 2. mgr. 29. gr. umferðarlaga, nr. 77/2019, sem og synjun við beiðni um endurskoðun þeirrar ákvörðunar.

Í 1 mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 29. gr. umferðarlaga má ekki stöðva eða leggja öðrum ökutækjum en þeim sem stæði er ætlað, á merktu stæði fyrir ökutæki fatlaðs fólks. Af þeim ljósmyndum, er fylgdu kvörtun yðar, verður ráðið að á yfirborði þess stæðis er bifreiðinni [...] var að hluta til lagt umrætt sinn, hafi þar verið að finna tákn fyrir stæði hreyfihamlaðs fólks nr. 1042, sbr. 40. gr. reglugerðar nr. 250/2024, um umferðarmerki og notkun þeirra. Að því virtu og eftir athugun á kvörtun yðar og þeim gögnum sem henni fylgdu að öðru leyti, tel ég mig ekki hafa forsendur til að fullyrða að beiting Bílastæðasjóðs á a-lið 1. mgr. 29. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 109. gr. þeirra, hafi verið í andstöðu við lög.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.