Kvartað var yfir því að Tryggingastofnun hefði ekki afgreitt beiðni um aðgang að þeim gögnum stofnunarinnar sem lögð voru til grundvallar örorkumati.
Í svari Tryggingastofnunar kom fram að í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns hafi viðkomandi verið leiðbeint um að tilgreina þau gögn sem óskað var eftir á þar til gerðu eyðublaði og beiðnin síðan verið afgreidd samdægurs. Lét umboðsmaður því athugun sinni lokið.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. febrúar 2024.
Vísað er til kvörtunar sem þér komuð á framfæri fyrir hönd A yfir því að Tryggingastofnun hafi ekki afgreitt beiðni hans um aðgang að þeim gögnum stofnunarinnar sem lögð voru til grundvallar örorkumati hans.
Í tilefni af kvörtuninni var Tryggingastofnun ritað bréf 5. febrúar sl. þar sem þess var óskað að upplýst yrði um hvað liði meðferð og afgreiðslu gagnabeiðninnar. Í svari stofnunarinnar 16. febrúar sl., sem fylgir hjálagt með í afriti, segir að í kjölfar þess að fyrirspurn umboðsmanns barst hafi lögfræðingur stofnunarinnar leiðbeint yður um að tilgreina þau gögn sem óskað var eftir á þar til gerðu eyðublaði. Mun það hafa verið gert og beiðnin afgreidd samdægurs.
Þar sem kvörtunin lýtur að töfum og í ljósi þess að gagnabeiðnin hefur nú verið afgreitt læt ég athugun minni vegna kvörtunarinnar lokið, sbr. a-liður 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis.