Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Skattar og gjöld. Börn. Svör við erindum.

(Mál nr. 12592/2024 og 12593/2024)

Kvartað var a.v. yfir Skattinum og starfsmanni hans vegna afgreiðslu á beiðni um gögn. H.v. var kvartað yfir umboðsmanni barna vegna svara embættisins við erindum og að þau bæru ekki með sér hvaða starfsmaður ritaði þau.  

Hvað samskipti við Skattinn snerti hafði ekki verið leitað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þann þátt. Ekki varð ráðið að Skatturinn hefði leiðbeint viðkomandi um kæruheimild til nefndarinnar og frestur til þess var liðinn. Í ljósi skorts á kæruleiðbeiningum var viðkomandi bent á að e.t.v. mætti freista þess að leita til nefndarinnar á þeim forsendum. Varðandi umboðsmann barna varð ekki séð að kvörtunin beindist að tiltekinni ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem snerti hagsmuni viðkomandi umfram aðra. Var því litið svo á að þetta væri ábending til umboðsmanns Alþingis og erindið skráð sem slíkt.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. febrúar 2024.

  

   

I

Vísað er til tveggja kvartana yðar sem bárust 2. febrúar sl. og beinast annars vegar að Skattinum og tilgreindum starfsmanni hans. Lýtur kvörtun yðar að þessu leyti að afgreiðslu á beiðni yðar um afhendingu gagna. Hins vegar beinist kvörtun yðar að umboðsmanni barna. Verður ráðið að hún lúti að svörum embættisins við erindum yðar að tvennu leyti, þ.e. að efni þeirra og að þau bera ekki með sér hvaða starfsmaður ritaði þau.

  

II

Hvað snertir beiðni yðar um afhendingu gagna af hálfu Skattsins kemur fram í kvörtun yðar að því leyti að þér hafið gert nokkrar tilraunir til þess að fá afrit af skattframtölum sonar yðar tekjuárin 2017-2023 afhent. Verður ráðið að Skatturinn hafi í upphafi ekki brugðist við beiðninni en í kjölfar þess að þér rædduð við starfsmann Skattsins 11. maí 2023 hafi borist skriflegt svar 15. þess mánaðar en afrit þess fylgdi kvörtuninni. Þar segir að þér hafið krafist afrits af framtalsgögnum fyrrverandi maka en samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem mælt er fyrir um þagnarskyldu ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og yfirskattanefndar, sé ríkisskattstjóra óheimilt að skýra frá tekjum og efnahag óviðkomandi skattaðila. Var beiðni yðar því synjað. Þá segir í kvörtuninni að þér hafið átt fund með deildarstjóra hjá Skattinum 21. júní 2023 sem hafi jafnframt synjað beiðni yðar munnlega. Þá munuð þér jafnframt hafa rætt símleiðis við þann starfsmann, sem ritaði undir synjunina og kvörtunin beinist einnig að, og óskað eftir því að svarbréfið yrði leiðrétt að því leyti að rétt yrði farið með gagnabeiðni yðar. Mun starfsmaðurinn hafa synjað þeirri beiðni.

Í tilefni af kvörtun yðar er rétt að taka fram að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í samræmi við það fjallar umboðsmaður almennt ekki um erindi sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að í upplýsingalögum nr. 140/2012 er gengið út frá því að skylt sé að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál sem og aðgang að tilteknum fyrirliggjandi gögnum, með þeim takmörkunum sem greinir í 6. til 10. gr. laganna. Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laganna skal mál borið skriflega undir úrskurðarnefndina innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang var tilkynnt um ákvörðun. Þar sem ekki verður ráðið að þér hafið borið synjun Skattsins á beiðni yðar undir nefndina er ljóst að lagaskilyrði brestur til þess að kvörtunin yðar að þessu leyti geti komið til frekari athugunar af hálfu umboðsmanns Alþingis.

Þar sem ljóst er að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er liðinn er athygli yðar vakin á 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fjallað er um réttaráhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Þar segir að kæru skuli vísað frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. töluliður 1. mgr. eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. töluliður 1. mgr. Í skýringum að baki ákvæðinu í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum eru sem dæmi nefnd tilvik þegar lægra sett stjórnvald hefur vanrækt að leiðbeina um kæruheimild samkvæmt 20. gr. laganna. Ástæða þess að þetta er tekið fram að af afriti svarbréfs Skattsins til yðar verður ekki ráðið að yður hafi verið leiðbeint um heimild yðar til að bera synjunina undir úrskurðarnefndina. Með þessu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hver ættu að vera viðbrögð úrskurðarnefndarinnar fari svo að þér berið synjunina undir hana.

Ef þér berið málið undir úrskurðarnefndina og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

  

III

Líkt og áður greinir verður ráðið að kvörtun yðar sem beinist að umboðsmanni barna lúti að efni svara embættisins við erindum yðar svo og því að svörunum var komið á framfæri nafnlaust.

Samkvæmt kvörtuninni og meðfylgjandi gögnum óskuðuð þér símleiðis 13. nóvember 2023 eftir fundi með umboðsmanni barna vegna fyrirkomulags uppgjörs á fjármagnstekjuskatti barna. Var ekki orðið við beiðni yðar um fund en yður leiðbeint um að unnt væri að koma á framfæri ábendingu á almennt netfang embættisins sem þér og gerðuð 21. nóvember 2023. Í erindi yðar var óskað eftir áliti umboðsmanns barna á réttarstöðu barns í tengslum við uppgjör fjármagnstekjuskatts. Barst yður svar með tölvubréfi 23. þess mánaðar. Senduð þér að nýju erindi 24. nóvember og var því svarað 11. desember. Með tölvubréfum 19. desember gerðuð þér athugasemdir við þau svör og óskuðuð jafnframt eftir upplýsingum og skýringum í tengslum við að svör embættisins til yðar væru nafnlaus. Var erindunum svarað með tölvubréfi 20. desember. Kom þar m.a. fram að erindum sem berast á almennt netfang embættisins væri svarað úr því netfangi en þar komi ekki fram nöfn einstakra starfsmanna.

Hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í síðarnefnda ákvæðinu felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Af kvörtun yðar, að því marki sem kvörtun yðar lýtur að því að svör embættisins við erindum yðar báru ekki með sér hvaða starfsmaður þess stóð að þeim, verður ekki ráðið að hún beinist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds er snertir hagsmuni yðar umfram aðra. Verður enda ekki annað ráðið af framangreindu svari embættisins en að um almennt fyrirkomulag sé að ræða í tengslum við svör embættisins við erindum sem berast á almennt netfang þess.

Að því sögðu verður litið svo á að í kvörtun yðar að þessu leyti felist ábending til umboðsmanns um atriði, sem vert kann að vera fyrir umboðsmann að taka til skoðunar á grundvelli frumkvæðisheimildar í 5. gr. laga nr. 85/1997, og verður hún skráð sem slík. Í því sambandi tek ég fram að við mat á almennum ábendingum er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna er tengjast málefninu, sem um ræðir, og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verklagið er þannig að verði málefni tekið til athugunar er viðkomandi ekki upplýstur um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Hvað snertir svör embættisins við erindum yðar skal tekið fram að í íslenskum stjórnsýslurétti gildir sú óskráða meginregla sem nefnd hefur verið „svarreglan“, en í henni felst að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald eigi rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að ekki sé vænst svara. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki við óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í það. Í reglunni felst hins vegar ekki að sá sem ber upp erindi eigi rétt á sérhverjum þeim efnislegu svörum við fyrirspurnum sínum sem hann óskar eftir heldur ræðst réttur hans að því leyti af öðrum reglum stjórnsýsluréttarins.

Eftir að hafa kynnt mér svör embættisins við erindum yðar tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þau. Fæ ég enda ekki annað ráðið en að embættið hafi brugðist við erindum yðar í samræmi við framangreinda svarreglu.

  

IV

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég athugun minni vegna kvartana yðar lokið.