Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 12533/2023)

Kvartað var yfir ríkislögreglustjóra vegna beiðni um gögn og úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem vísaði frá kæru á afgreiðslu beiðninnar. Einnig laut kvörtunin að stjórn forsætisráðuneytisins á störfum nefndarinnar.  

Í úrskurði nefndarinnar kom fram að gögnin vörðuðu ákvörðun um að brottvísa viðkomandi en slíkt væri ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi stjórnsýslulaga. Gögn í slíku máli teldust vera gögn stjórnsýslumáls. Um aðgang aðila máls að þeim færi því samkvæmt stjórnsýslulögum en vald nefndarinnar næði ekki til þess að úrskurða um rétt til aðgangs að gögnum í stjórnsýslumáli og því hefði verið óhjákvæmilegt að vísa málinu frá. Umboðsmaður taldi ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að vald hennar næði ekki til þess að úrskurða um rétt til aðgangs að umbeðnum gögnum. Hvað þrettán mánaða málsmeðferðartíma nefndarinnar snerti þótti umboðsmanni hann ekki vera í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga en þar sem úrskurður lægi nú fyrir væri ekki nægilegt tilefni til að aðhafast sérstaklega vegna þessa. 

Hvað laut að stjórn forsætisráðuneytisins á störfum nefndarinnar benti umboðsmaður á að ekki hefði verið leitað til ráðuneytisins sjálfs vegna þessa en það þyrfti að gera áður en hann gæti fjallað um þann þátt kvörtunarinnar. Sama gegndi um málsmeðferð ríkislögreglustjóra á beiðni um aðgang að gögnum, þ.e.a.s. ekki hafði verið leitað til kærunefndar útlendingamála vegna hennar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 24. janúar 2024.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar, f.h. A, 29. desember 2023, sem varðar beiðni um gögn sem beint var að ríkislögreglustjóra og meðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál á kæru á afgreiðslu beiðninnar en með úrskurði 16. nóvember 2023 var kærunni vísað frá nefndinni. Loks varðar kvörtunin stjórn forsætisráðuneytisins á störfum úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og þær siðareglur sem tilgreindar eru í lögunum. Í 2. mgr. 4. gr. er svo kveðið á um að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Í 10. gr. laga nr. 85/1997 er fjallað um lyktir máls. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu.

Líkt og að framan greinir var kæru yðar, f.h. A, vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál 16. nóvember 2023 með úrskurði nr. [...]. Í úrskurðinum segir að þau gögn sem óskað hafi verið aðgangs að í málinu varði ákvörðun um að brottvísa A en slík ákvörðun teljist ákvörðun um rétt eða skyldu í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Gögn í slíku máli teljist vera gögn stjórnsýslumáls en um aðgang aðila máls að gögnunum fari samkvæmt ákvæðum 15. til 17. gr. stjórnsýslulaga. Þar sem úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál nái ekki til þess að úrskurða um rétt til aðgangs að gögnum í stjórnsýslumáli, sbr. 20. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, sem og 3. mgr. 17. gr. laganna, sé óhjákvæmilegt að vísa málinu frá nefndinni. Eftir að hafa kynnt mér úrskurðinn, afmörkun beiðni yðar 5. september 2022 um aðgang að gögnum og gögn málsins að öðru leyti tel ég ekki forsendur til að gera athugasemdir við þessa niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Varðandi athugasemdir yðar um málsmeðferðartíma úrskurðar­nefndarinnar liggur fyrir að kæra í málinu barst nefndinni 19. október 2022 og úrskurður var kveðinn upp 16. nóvember 2023, eða um þrettán mánuðum síðar. Leggja verður til grundvallar að tafir á meðferð málsins hafi ekki samræmst málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga að þessu leyti. Er þá jafnframt haft í huga að samkvæmt 1. mgr. 23. gr. upplýsingalaga skal úrskurðarnefndin birta úrskurð svo fljótt sem verða má en „að jafnaði“ innan 150 daga frá móttöku kæru. Þar sem úrskurður úrskurðarnefndarinnar liggur nú fyrir tel ég þó ekki að nægilegt tilefni sé til að aðhafast sérstaklega vegna þessa.

Í tilefni af athugasemdum yðar sem varða stjórn forsætisráðuneytisins á störfum úrskurðarnefndar um upplýsingamál er athygli yðar vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Umboðsmaður Alþingis fjallar því að jafnaði ekki um mál liggi ekki fyrir afstaða stjórnvalda til þess. Af kvörtuninni verður ekki ráðið að þér hafið leitað til forsætisráðuneytisins með athugasemdir yðar. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum tel ég rétt að þér, eða umbjóðandi yðar, freistið þess að leita til ráðuneytisins með athugasemdir yðar að þessu leyti áður en málið kemur til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns. Fari umbjóðandi yðar, eða þér fyrir hans hönd, þá leið að leita til ráðuneytisins er yður unnt að leita til mín á nýjan leik þegar niðurstaða þess liggur fyrir og verður þá tekin afstaða til þess hvort og þá að hvaða marki málið getur komið til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns.

Sömu sjónarmið koma í veg fyrir að ég geti fjallað um kvörtun yðar að því marki sem hún lýtur að meðferð ríkislögreglustjóra á beiðni um aðgang að gögnum. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga má kæra synjun aðila máls um aðgang að gögnum málsins til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Kæra skal borin fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Með hliðsjón af því að heimilt er að kæra ákvarðanir Útlendingastofnunar og lögreglunnar samkvæmt lögum um útlendinga, nr. 80/2016, til kærunefndar útlendingamála, sbr. 7. gr. laganna, er jafnframt hægt að bera ákvarðanir um synjun aðila máls um aðgang að gögnum í slíkum málum undir nefndina. Þar sem málið hefur ekki verið borið undir nefndina eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að ég fjalli um kvörtun yðar að þessu leyti, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.