Útlendingar. Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 12529/2023)

Kvartað var yfir starfsemi lögreglu og laut kvörtunin að dómsmálaráðuneyti, ríkislögreglustjóra, lögreglustjórum, nefnd um eftirlit með lögreglu og Útlendingastofnun. Jafnframt að Alþingi og tilgreindum stjórnmálaflokki. Lögreglan væri vanhæf til að gegna hlutverki sínu vegna starfsfólks hennar sem aðhylltist nýnasíska hugmyndafræði ofl.  

Þar sem kvörtunin laut með almennum hætti að starfsháttum lögreglu og efni löggjafar sem Alþingi hefur sett voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. janúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 27. desember sl. sem lýtur að starfsemi lögreglu og er beint að dómsmálaráðuneyti, ríkislögreglustjóra, lögreglustjórum, nefnd um eftirlit með lögreglu og Útlendingastofnun. Þá beinist kvörtunin jafnframt að Alþingi og tilgreindum stjórnmálaflokki. Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið lögregluna vanhæfa til þess að sinna hlutverki sínu vegna einstaklinga í starfsliði hennar aðhyllist nýnasíska hugmyndafræði. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við útlendingalög auk þess sem lögregluyfirvöld, dómsmálaráðherra og nefnd um eftirlit með lögreglu eru gagnrýnd fyrir að hafa ekki aðhafst vegna þeirra vandamála innan lögreglunnar sem rakin eru í kvörtuninni.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu aðila sem heyrir undir eftirlit umboðsmanns kvartað af því tilefni til embættisins. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Í 3. gr. laganna er síðan kveðið á um starfssvið umboðsmanns. Þar segir í a-lið 4. mgr. að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Eins tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa stjórnmálasamtaka.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að hún lúti að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórnvalda í framangreindum skilningi heldur lúta þær með almennum hætti að starfsháttum lögreglu og efni löggjafar sem Alþingi hefur sett. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.