Menntamál. Grunnskólar.

(Mál nr. 12493/2023)

Kvartað var yfir starfsháttum í grunnskóla og skólastjóra hans, m.a. gagnvart nemendum.  

Í kvörtuninni var jafnframt greint frá því að erindi þessa efnis hefði nýlega verið beint til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Benti umboðsmaður á að rétt væri að afstaða ráðuneytisins lægi fyrir áður en hann tæki kvörtunina til frekari athugunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. desember 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 6. desember sl. sem þér beinið að [skólanum X] og skólastjóra hans. Í kvörtuninni eru gerðar margvíslegar athugasemdir við starfshætti skólans og skólastjóra, m.a. gagnvart nemendum. Þar kemur einnig fram að þér hafið nýlega beint erindi þess efnis til mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Í tilefni af kvörtun yðar tel ég rétt að víkja að skilyrðum þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns Alþingis. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og nánar greindar siðareglur. Í samræmi við þetta segir í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Þá getur umboðsmaður samkvæmt 5. gr. laganna tekið mál til athugunar að eigin frumkvæði.

Af framangreindum ákvæðum leiðir að starfsemi stjórnvalda verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar hjá umboðsmanni Alþingis á grundvelli kvörtunar heldur verður kvörtun að lúta að tiltekinni ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997 er mælt fyrir um frekari skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þetta ákvæði er einkum byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Þá leiðir af ákvæðinu að almennt er ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi afskipti af málum meðan þau eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, fer mennta- og barnamálaráðherra með yfirstjórn þeirra málefna sem lögin taka til og hefur m.a. eftirlit með gæðum skólastarfs, annast öflun, greiningu og miðlun upplýsinga og hefur úrskurðarvald í ágreiningsmálum eftir því sem lögin kveða á um. Þá hefur mennta- og barnamálaráðuneytið eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um.

Af kvörtun yðar verður ekki fyllilega ráðið hvort og þá að hvaða marki téð stjórnsýsla X beinist að yður eða eftir atvikum börnum yðar. Þá liggur fyrir að þér hafið beint erindi til mennta- og barnmálaráðuneytisins sem bíður þar afgreiðslu. Að virtum þeim sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég því rétt að afstaða ráðuneytisins liggi fyrir áður en kvörtun yðar verður tekin til frekari athugunar. Teljið þér yður enn rangsleitni beitta að fenginni afstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik og verður þá tekin frekari afstaða til þess hvort skilyrði séu að lögum til að taka málið til frekari athugunar á grundvelli kvörtunar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég athugun minni á kvörtun yðar.