Kvartað var yfir synjun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á beiðni um endurupptöku máls.
Ákvörðun nefndarinnar var tekin í nóvember 2022 og því utan þess ársfrests sem gefst til að kvarta til umboðsmanns frá því að stjórnsýslugerningur er til lykta leiddur.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 8. desember 2023.
Vísað er til kvörtunar yðar 27. nóvember sl., f.h. félagsins A, sem beinist að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og lýtur að synjun nefndarinnar 18. nóvember 2022 á beiðni félagsins um endurupptöku máls nr. 5/2022 en nefndin kvað upp úrskurð í málinu 30. júní þess árs. Samkvæmt úrskurðinum var hafnað kröfu m.a. félagsins um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs 14. desember 2021 um að samþykkja deiliskipulag tiltekinna reita í miðbæ Kópavogs.
Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Gengið hefur verið út frá því að ársfresturinn sé fortakslaus og miðar hann við lyktir þess stjórnsýslugernings sem um ræðir. Í samræmi við orðalag ákvæðisins hefur umboðsmaður í framkvæmd sinni miðað við að fresturinn reiknist frá þeirri ákvörðun sem tekin var en ekki frá þeim tíma þegar ákvörðun barst aðila máls eða stjórnvald veitti frekari rökstuðning eða skýringar fyrir ákvörðun sinni.
Kvörtun yðar lýtur samkvæmt framangreindu að ákvörðun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 18. nóvember 2022 um að synja beiðni um endurupptöku máls sem nefndin hafði fjallað um. Með hliðsjón af því að kvörtunin barst umboðsmanni 27. nóvember sl. fæ ég ekki séð að framangreindu skilyrði sé fullnægt. Læt ég því athugun minni vegna kvörtunarinnar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.