Heilbrigðismál. Birting upplýsinga á vefsíðu.

(Mál nr. 12460/2023)

Kvartað var yfir embætti landlæknis og sóttvarnalækni og rangfærslum sem viðkomandi taldi vera á vef landlæknis um bólusetningar vegna Covid-19. Með þeim sé fólk hvatt til að þiggja bólusetningu á röngum forsendum.  

Samkvæmt kvörtuninni hafði afrit hennar jafnframt verið sent á heilbrigðisráðuneytið, embætti landlæknis og sóttvarnalækni en þar sem afstaða þeirra lá ekki fyrir voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um hana.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 23. nóvember 2023.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 14. nóvember sl. sem beinist að embætti landlæknis og sóttvarnalækni. Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni lýtur hún að rangfærslum sem þér teljið vera að finna á vefsíðu embættis landlæknis um bólusetningar vegna Covid-19. Segir að þér teljið að með slíkum rangfærslum sé fólk hvatt til að þiggja bólusetningu á röngum forsendum.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvaldið hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að samkvæmt 2. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, skal starfrækja embætti landlæknis undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Þá segir í 1. mgr. 4. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997, að embætti landlæknis beri ábyrgð á framkvæmd sóttvarna undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að við embætti landlæknis skuli starfa sóttvarnalæknir sem ber ábyrgð á sóttvörnum. Þá kemur fram í 1. tölulið 1. mgr. 5. gr. sóttvarnalaga að verksvið sóttvarnalæknis sé aðallega m.a. að skipuleggja og samræma sóttvarnir og ónæmisaðgerðir um land allt. Á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda hefur heilbrigðisráðherra eftirlit með embætti landlæknis, þ.m.t. rækslu embættisins á hlutverki þess samkvæmt sóttvarnalögum.

Af kvörtuninni verður ráðið að afrit hennar hafi jafnframt verið sent heilbrigðisráðuneytinu, embætti landlæknis og sóttvarnalækni. Er ekki að sjá að afstaða þessara aðila til kvörtunaratriða yðar liggi fyrir. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég ekki rétt að fjalla um kvörtun yðar að svo stöddu. Ef þér teljið enn tilefni til að leita til umboðsmanns vegna kvörtunarefnisins að fenginni afstöðu embættis landlæknis, og eftir atvikum heilbrigðisráðuneytisins, getið þér leitað til umboðsmanns að nýju með kvörtun þar að lútandi og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málefnið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns.

Með vísan til framangreinds læt ég umfjöllun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.