Dánarbú. Rafræn stjórnsýsla.

(Mál nr. 12346/2023)

Kvartað var yfir framgöngu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við beiðni um einkaskipti á dánarbúi, þ.e. að ekki hefði verið tekið við umboði og beiðni um leyfi til einkaskipta sem var rafrænt undirrituð.  

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar fyrir dómstólum, líkt og í þessu tilviki, voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið. Hann vakti þó einnig athygli á að athugasemdum við umrætt verklag sýslumanns á væri hægt að beina á almennum grundvelli til dómsmálaráðuneytisins.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. október 2023.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 29. ágúst sl. yfir framgöngu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við beiðni yðar og hóps manna um einkaskipti á dánarbúi tilgreindrar konu. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin að því að lögmaður yðar og annarra erfingja konunnar hafi 2. ágúst sl. sent sýslumanni umboð og beiðni um leyfi til einkaskipta á dánarbúinu en fengið svar frá starfsmanni sýslumanns síðar sama dag um að ekki væri hægt að skila inn slíkri beiðni sem væri rafrænt undirrituð.

Um skipti á dánarbúum gilda lög nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., en í XVI. kafla laganna er fjallað um þau ágreiningsatriði, sem lögð verða fyrir héraðsdóm, og hvernig það verður gert. Í 1. mgr. 119. gr. laganna segir þannig að hver sá, sem telji aðgerð eða ákvörðun sýslumanns samkvæmt II., XII. eða XIII. kafla þeirra brjóta gegn réttindum sínum og hefur lögvarða hagsmuni af að fá henni hnekkt, geti krafist þess við sýslumann að hann láti af aðgerð sinni og grípi eftir atvikum til annarrar aðgerðar eða að hann falli frá ákvörðun sinni og taki eftir atvikum aðra ákvörðun. Verði sýslumaður ekki við því getur sá, sem á hlut að máli, krafist úrlausnar héraðsdómara um ágreiningsatriðið.

Ástæða þess að ákvæða ofangreinds kafla laga nr. 20/1991 er getið og tilgreind ákvæði hans rakin er sú að samkvæmt c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til þess að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Af þessum sökum falla kvartanir, sem lúta að ágreiningi um ákvarðanir sýslumanns um fyrstu aðgerðir skipta, almennt utan starfssviðs umboðsmanns og eru því að jafnaði ekki skilyrði að lögum fyrir umboðsmann að fjalla um slík mál. Af þessum sökum brestur lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Að endingu tel ég þó rétt að vekja athygli yðar á því að ef þér viljið gera athugasemd við ofangreint verklag sýslumanns á almennum grundvelli, fer dómsmálaráðuneytið með málefni dánarbússkipta og sýslumanna. Þér getið því freistað þess að vekja athygli dómsmálaráðuneytisins á verklagi sýslumanns að þessu leyti. Með þessari ábendingu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hver viðbrögð ráðuneytisins við slíkri ábendingu ættu að vera.

Með vísan til framangreinds og þess læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.