Stjórnvöld eru oft flokkuð í lægri stjórnvöld og æðri stjórnvöld. Lægri stjórnvöld eru þær stofnanir, nefndir og ráð sem taka mál til meðferðar á fyrsta stjórnsýslustigi. Dæmi um það er Vinnumálastofnun, Lánasjóður íslenskra námsmanna, Jafnréttisstofa og Sjúkratryggingar Íslands. Æðri stjórnvöld hafa annað hvort yfirstjórn og eftirlit með lægri stjórnvöldum eða taka við kærum vegna ákvarðana lægri stjórnvalda. Dæmi um það eru ráðuneytin og ýmsar úrskurðarnefndir, kærunefndir, málskotsnefndir og ráð, svo sem úrskurðarnefnd velferðarmála og málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna.