Maður sem fékk ávísað undanþágulyfi vegna Covid-19 átti sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af þeirri ákvörðun Lyfjastofnunar að synja umsókn læknis um ávísun þess.
Umboðsmaður fór yfir að samkvæmt lyfjalögum væri dreifing lyfja hluti heilbrigðisþjónustu og undir það félli m.a. þjónusta sem veitt væri í því skyni að efla heilbrigði og fyrirbyggja sjúkdóma. Þar sem læknir hefði ávísað lyfinu til viðkomandi hefði ákvörðun Lyfjastofnunar í reynd snúist um hvort hann fengi aðgang að lyfinu og þar með hvort honum yrði veitt sú heilbrigðisþjónusta sem í því fælist. Hvorki skýringar ráðuneytisins né gögn málsins gæfu til kynna að mat læknisins, á því hvort viðkomandi þyrfti lyfið, hefði verið skoðað sérstaklega. Hvort tiltekin heilbrigðisþjónusta skuli veitt eða ekki lúti að réttindum sem tryggð séu með lögum og varði verulega hagsmuni viðkomandi.
Taldi umboðsmaður því að kæruheimild hefði verið fyrir hendi vegna ákvörðunar Lyfjastofnunar og að ráðuneytinu hafi borið að leysa efnislega úr stjórnsýslukæru mannsins. Hann tekur þó fram að þótt maðurinn hafi notið heimildar samkvæmt lyfjalögum til að kæra ákvörðun Lyfjastofnunar hafi umboðsmaður ekki tekið neina afstöðu til þess hver hefði átt að vera niðurstaða ráðuneytisins, þ.e. hvort samþykkja hefði átt umsóknina. Beindi hann því til ráðuneytisins að taka málið til meðferðar á ný ef eftir því yrði leitað og leysa þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu.
Álit umboðsmanns í máli nr. 11417/2021