25. október 2018

Sveitarstjórnir hafa svigrúm til að ráða framkvæmdastjóra

Þegar sveitarstjórn ræður framkvæmdastjóra sveitarfélags getur verið heimilt að líta til sjónarmiða sem almennt teljast ekki málefnaleg við ráðningu annarra starfsmanna þess. Sé starfið auglýst opinberlega verða sveitarfélög þó að gæta þess að meðferð umsókna sé í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í auglýsingu.

Umsækjandi um stöðu bæjarstjóra kvartaði til umboðsmanns í kjölfar ráðningar í starfið. Taldi viðkomandi bæði fram hjá sér gengið með hliðsjón af menntun og reynslu og gerði athugasemdir við ráðningarferlið. Pólitísk tengsl, búseta og kunningsskapur kynnu að hafa haft áhrif við mat á umsækjendum.

Að fengnum skýringum frá sveitarfélaginu taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka málið til frekari athugunar. Hann benti þó á í svari sínu að í þeim tilvikum þar sem starf framkvæmdastjóra sveitarfélags sé auglýst opinberlega þurfi sveitarstjórn að huga að því að meðferð umsókna sé í samræmi við þau sjónarmið sem fram komi í auglýsingu og meta hæfni umsækjenda með hliðsjón af þeim. Við ráðningu framkvæmdastjóra sveitarfélags sé þó gengið út frá því  að sveitarstjórn sé heimilt að byggja á sjónarmiðum sem almennt teldust ekki málefnaleg. Til að mynda pólitískum sjónarmiðum og að traust þurfi að ríkja milli hans og meirihluta sveitarstjórnar. Þá verði að gæta þess að hæfniskröfur séu ekki settar fram með þeim hætti að það geti vakið upp væntingar hjá umsækjendum um að ráðningin verði einvörðungu byggð á þeim, nema ákvörðun þess efnis liggi fyrir.

Kvörtunin gaf umboðsmanni tilefni til að minna á að þegar stjórnvöld eiga sjálf frumkvæðið að því að birta lista umsækjenda um störf eigi jafnframt að tilgreina starfsheiti þeirra. Hann ritaði því sveitarfélaginu bréf og vakti athygli á að birting á nafni umsækjenda og sveitarfélagi sem viðkomandi bjó í en ekki starfsheiti hans, hafi ekki samrýmst lögum.

Hér má finna forsendur fyrir niðurstöðu umboðsmanns í bréfi hans. 

Tengdar fréttir

Starfsheiti komi fram á listum um umsækjendur um störf

Listi yfir umsækjendur um opinber störf

Áhrif stjórnmálaskoðana þegar ráðið er í opinbert starf